Hoppa yfir valmynd
07.12. 2016

Þróunarsamvinna byggð á staðreyndum

Inngangur:

Snoturt hjartalag tilheyrir allri þróunarsamvinnu en gerir hana ekki árangursríka. Ekki frekar en hugsjónir, trúboð eða aðrar tegundir af góðvilja. Samvinna byggð á staðreyndum leggur grunn að mögulegum árangri og þjónar kröfunni sem kallast á ensku "evidence based" - um skipulagðar aðgerðir og mælanlegan árangur.    

1. Rannsóknavinna:

Við undirbúning menntaverkefna sem Ísland styður í tveimur héruðum í Úganda hefur verið leitast við að afla góðra opinberra gagna, en ekki bara það, heldur líka stunda frumrannsóknir, enda skortir oft haldbærar staðreyndir um stöðu mála. Hér verður rakið stuttlega hvernig unnið hefur verið skipulega að rannsóknum til að byggja undir verkefni okkar í Kalangala og Buikwe, en þar er leitast við að bæta gæði menntunar í grunnskólum og gagnfræðaskólum. Þegar undirbúningur að samstarfi við Buikwe hérað hófst var gerð stöðumatskönnun (e. situation analysis) á héraðinu af írskum ráðgjafa (Dr. Kiernan), sem skilaði ítarlegri greinargerð 2014. Þar var dregin upp dökk mynd af ástandinu í fátækum fiskimannaþorpum og beinlínis sagt að börnin lærðu varla nokkurn skapaðan hlut, jafnvel þótt þau kæmu í skóla, þá sjaldan. Sem dæmi má taka að brottfall barna úr 1.-7. bekk er 70% og allt upp í 90% þar sem verst er. 

GrafSJHÍ framhaldi var héraðið stutt til að gera stefnumótunaráætlun í menntamálum, sem fól í sér mikla upplýsingaöflun og greiningu á fyrirliggjandi gögnum. Í Kalangalahéraði dró hins vegar að leiðarlokum eftir 10 ára samstarf við Ísland og ákveðið að ráðast í svokallaða ,,innri greiningu" á verkefninu til að meta hvort ætti að fram halda ákveðnum þáttum - þar sem festa mætti í sessi árangur (mars 2015).

Úgandískur sérfræðingur í mennta- og sveitarstjórnarmálum, Dr. Odoch, var fenginn til verksins ásamt starfsmanni ÞSSÍ, Stefáni Jóni Hafstein. Niðurstaða þeirra var að árangur væri talsverður í skólamálum og þar væri vænlegt að halda áfram áður en samstarfi yrði formlega lokið. Um miðbik 2015 lágu því fyrir all góðar greiningar á ástandi í báðum héruðum og fjöldi samráðsfunda. Ári síðar voru svo samþykkt ítarleg verkefnaskjöl fyrir stuðning við skóla í Kalangala og Buikwe og gilda næstu fjögur ár hið minnsta.

Rannsóknarspurningar 

 Meðal þess sem stakk í augun við rýni á Kalangalaverkefninu var að þrátt fyrir að grunnskólabörn sýndu betri árangur á samræmdum prófum, fjölgaði ekkert þeim sem héldu áfram í gagnfræðaskóla (e. secondary) sem þjónar 13-18 ára nemendum (á tveimur skólastigum). Betri einkunnir leiddu ekki til lengra náms.   

Spurningar leituðu á undirbúningsteymið: Hvað er að baki bættum árangri á prófum í grunnskólum í Kalangala (og myndi verða leiðbeinandi í Buikwe) og hvers vegna halda börnin ekki áfram, þau fáu, sem þó standast lokapróf í barnaskóla (12-13 ára) ? Hvað skýrir hið mikla brottfall almennt?   Dr. Odoch var falið að gera sérstaka framhaldsrannsókn í Kalangala (júlí 2015) um þetta efni. Sú rannsókn leiddi í ljós með sannfærandi hætti að umtalsvert batnandi árangur barna í Kalangala frá því að aðstoð við skóla hófst byggði á mörgum samverkandi þáttum, enginn einn var afgerandi. Og ástæðan fyrir því að börnin héldu ekki áfram upp í gagnfræðaskóla var yfirgnæfandi ,,of há skólagjöld" -í landi þar sem grunnmenntun á að vera ókeypis og almenn. Ekki var munur á piltum og stúlkum hvað varðar árangur eða brottfall. Sjá mátti að hugsanlega höfðu skólamáltíðir áhrif á bættar einkunnir. 

Skólagjaldaþátturinn var sláandi, því skólarnir rukka foreldra ótæpilega vegna þess að ríkisvaldið leggur alltof litla peninga til þeirra og engin leið að standa undir rekstri af opinberum framlögum. Hér var dreginn fram ,,hinn duldi kostnaður við ókeypis skóla". Auðvitað eru þessi gjöld á allra vitorði, líka stjórnvalda, en greining á þeim og hvernig skólarnir nota þau er mjög í skötulíki. 

https://youtu.be/AgNTG-zAoeM
Rökleiðslan 

Þessar staðreyndir höfðu áhrif á undirbúning verkefna í Buikwe og Kalangala og má draga hugsunina saman í þetta: Samkvæmt ábendingu frá mati Dr. Kiernans þarf fyrst og fremst að huga að gæðum menntunar fyrir þau börn sem þó koma í skóla og veita þeim lágmarksfærni - því annars er allt fyrir gíg. Samkvæmt athugun Dr. Odochs virtist margþættur stuðningur bæta frammistöðu (t.d. þjálfun kennara, skólaeftirlit, skólabækur handa öllum, betri aðbúnaður). Og samkvæmt foreldrum eru hin tilfinnanlegu skólagjöld helsti hemillinn á lengri skólagöngu.     

Hin hliðin á röksemdafærslunni er nöturleg: Það vinnst ekkert við að minnka brottfall og fjölga nemendum ef skólarnir kenna þeim ekkert. Og í þessu svartholi er engin ein töfralausn - einungis blóð sviti og tár, sem á fagmáli kallast "margþættur stuðningur".

Til lengri tíma litið halda rökin vonandi: Með því að bæta gæði skólastarfsins og sýna fram á að börnin geti lært, og samhliða leitast við að lækka skólagjöld á viðkvæmum ,,brottfallspunktum," má gera sér vonir um lágmarks árangur og aukinn stuðning samfélaganna við menntun.

Það má því segja að staðreyndir málsins hafi verið all vel kortlagðar. Og umfang vandans ógnvekjandi.    

2. Bætt um betur

Þegar kom að framkvæmd tveggja fjögurra ára verkefna um miðbik ársins 2016 var ákveðið að gera ítarlegar grunngildarannsóknir (e. baseline) í báðum héruðum - stöðutöku. Ekki bara með því að safna opinberum gögnum með tölulegum gildum, enda lágu þau fyrir þegar, heldur með eigindlegum rannsóknum (e. qualitative). Regnhlífarsamtök í menntamálum í Úganda, FENU, gengust fyrir skoðanakönnunum og gæðamati meðal kennara, foreldra og nemenda þar sem kafað var dýpra í þann raunveruleika sem býr að baki talnabankanum. Þessar niðurstöður segja ekki bara til um raunverulega stöðu þegar verkefnin hefjast, heldur gefa þær færi á samanburði síðar meir með endurtekningu, þannig að breyting á viðhorfum og gæðavitund á verkefnistímanum verði mæld.


Ítargreining
Einnig var ráðist í ítarlega greiningu í hverjum þeirra sjö gagnfræðaskóla sem verkefnið tekur til í Kalangala og Buikwe á því hvers vegna og fyrir hvað skólarnir krefja foreldra um gjöld. Dr. Odoch framkvæmdi þá greiningu sem afhjúpaði þungar byrðar á fátæk heimili, en einnig ógagnsæja stjórnsýslu og fjárreiður. Mikið samráð var haft við skólana, fræðsluyfirvöld á hvorum stað og áreiðanleiki gagna staðfestur. Markmiðið var líka að meta ávinning hvers skóla af framlögum Íslands innan verkefnisins og hvort og þá hvernig skólarnir gætu létt hluta gjaldanna af foreldrum.   Ekki er vitað til að svona vinna hafi verið unnin áður í tengslum við skólaverkefni í Úganda. Úrlausna er nú leitað. 

Myndsjh Nemendur spurðir
Samtímis gekkst sendiráðið fyrir sérstakri úttekt á brottfalli nemenda úr gagnfræðaskóla með því að starfsmaður þess, Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir, spurði úrtak nemenda sem fallið höfðu úr skóla á síðustu árum út í ástæður þess. Var farið á vettvang með spurningalista. Aftur var ríkt samráð við skólana.   Nemendur staðfestu með svörum sínum það sem áður var vitað, að skólagjöldin voru helsta ástæða brottfalls og svipað hlutfall meðal stúlkna og pilta. Ítarspurningar leiddu hins vegar í ljós meira um viðhorf þeirra og aðstæður og þá kom í ljós munur eftir kynjum. Þar með er komin mun gleggri mynd af því hvað býr að baki þessu mikla brottfalli sem verður í gagnfræðaskóla, þótt gjöldin séu aðal orsakavaldurinn. 

Næring og námsgeta

Sendiráðið vinnur nú að undirbúningi enn einnar rannsóknarinnar sem mun ef allt gengur eftir bæta mjög skilning á aðstæðum barnanna. Rannsaka á næringarástand skólabarna á tilteknum aldri og bera saman við lærdómsgetu (e. cognitive ability). Þetta verður gert í Buikwe af prófessor Acham, en hún hefur áður gert frumherjarannsóknir á þessu sviði og birt niðurstöður. Af rannsókninni munum við væntanlega sjá hvort börnin í skólunum séu yfirleitt í viðunandi líkamlegu og andlegu ásigkomulagi til að læra, og einnig, með sambærilegum rannsóknum síðar, hvort staðan hafi batnað með tilkomu skólaeldhúsa og fyrirhugaðra skólagarða.

3. Niðurstöður

Undirbúningur og fyrsta stig framkvæmda hefur því verið lærdómsferli allra sem vinna saman að verkefnunum og beinlínis lagt grunninn að verkefnahönnun með staðreyndum sem við blasa. Munu fjölbreytt rannsóknargögn gera fært að vinna ítarlegt árangursmat síðar meir.                          

                       

                   

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum