Hoppa yfir valmynd
14.12. 2016

Beinar peningagreiðslur til fátækra til að bæta lífskjör gefast vel

https://youtu.be/pwanpdGopzE Beinar peningagreiðslur til fátækra hafa færst í vöxt sem leið til að bæta lífskjör. Stjórnvöld í mörgum ríkjum hafa komist að þeirri niðurstöðu að árangursrík aðferð og skilvirk sé einfaldlega að láta fátæka fá reiðufé. Stundum er slíkar greiðslur skilyrtar af hálfu stjórnvalda eins og að foreldrar nýti fjármunina til að senda börn í skóla eða krafa sé gerð um bólusetningar. En þess eru líka dæmi að greiðslurnar séu án nokkurra skilyrða. 

Andstætt því sem flestir álíta fara þessir peningar ekki til kaupa á sígarettum og áfengi eða í aðrar ónauðsynjar. Í grein í Qartz segir að áratugum saman hafi þær áhyggjur verið áberandi en samkvæmt nýrri skýrslu þar sem fjölmargar rannsóknarniðurstöður eru greindar hafi þvert á móti komið í ljós að þar sem beinar peningagreiðslur til fátækra tíðkist hafi samdráttur mælst í verslun með áfengi og tóbak. 

Samantektin um niðurstöður rannsókna birtist nýlega í tímaritsgrein frá háskólanum í Chicago en höfundar hennar eru starfsmenn Alþjóðabankans, þau David Evans og Anna Popova. Þau rýndu nítján rannsóknir þar sem kannað var sérstaklega hvort peningagreiðslur til þeirra efnaminni hefðu áhrif á sölu á áfengi og tóbaki. Engin könnun leiddi í ljós aukna neyslu á áfengi og tóbaki en hins vegar reyndust margar þeirra leiða í ljós samdrátt í sölu á þessum varningi. 

David og Anna veltu einnig fyrir sér hugsanlegri skýringu á þessari niðurstöðu. Ein tilgáta þeirra er sú að beinar peningagreiðslur breyti hugsunarhætti fátækra til efnahags. Áður en greiðslurnar komu til sögunnar hafi lítilræðið sem varið var til menntunar og heilsu verið litað vonleysi, en eftir að greiðslurnar hófust hafi foreldrar séð skynsemina í því að fjárfesta tildæmis í menntun barna sinna. Til þess að nýta fjármunina sem best hafi þeir ákveðið að draga úr reykingum og áfengisneyslu. 

Þá nefna greinarhöfundar annan þekktan hagfræðilegan þátt sem kallast The Flypaper Effect og felur í sér hagfræðikenningu um breytta hegðun viðtakenda þegar peningar eru látnir af hendi í sérstökum tilgangi. Þá sé tilhneiging til þess bæði hjá fólki og samtökum að nota þá peninga á þann hátt sem ætlast er til, þótt enginn neyði þá til þess. Hjá stjórnvöldum sem veita beinar peningagreiðslur til fátækra heimila er viðkomandi yfirleitt sagt að um sé að ræða stuðning við velferð fjölskyldunnar. 

Síðast en ekki síst nefna þau David og Anna skýringuna sem ef til vill er lílklegust, þ.e. að peningagreiðslur til fátækra fjölskyldna fara yfirleitt í gegnum hendurnar á konum. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að þegar konur ráða yfir tekjum heimilanna eru líkurnar meiri en ella á því að þeir peningar séu notaðir til kaupa á mat eða í heilsuvernd barna.

Cash Transfers and Temptation Goods/ University of Chicago Press Journal
Show Them the Money-Why Giving Cash Helps Alleviate Poverty, eftir Christopher Blattman and Paul Niehaus/ ForeignAffairs

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum