Hoppa yfir valmynd
14.12. 2016

Íslenskur stuðningur við bágstaddar stúlkur í Úganda

https://youtu.be/i3qeEsDs4ok

Skammt utan við höfuðborgina Kampala í Úganda reka samtökin Candle Light verkmenntaskóla fyrir unglingsstúlkur, skóla sem íslensk kona. Erla heitin Halldórsdóttir, stofnaði upphaflega árið 2001. Skólinn hefur um árabil notið stuðnings íslenskra stjórnvalda og íslenskra samtaka sem nefnast Alnæmisbörn. Upphaflega var skólinn eingöngu fyrir ungar stúlkur sem misst höfðu foreldra sína úr alnæmi en nú eru í skólanum stúlkur sem hafa átt erfitt uppdráttar af ýmsum ástæðum. 

 
Meðal kennara í matreiðslu er Lawino Florence, 24 ára, fyrrverandi nemandi í skólanum. Hún er fædd og uppalin í Gulu, í norðurhluta Úganda, fjórða í röðinni af sjö systkinum. Hún missti báða foreldra sína úr alnæmi á barnsaldri. Rætt er við Lawino í meðfylgjandi kvikmyndabroti.


Saga Lawino Florence 

Þar kemur fram að eftir foreldramissinn flutti Lawino til höfuðborgarinnar Kampala, til móðurbróður síns sem starfaði sem lögregluþjónn.  Hann átti vin sem þekkti til Kertaljósa-samtakanna, Candle Light Foundation. Samtökin buðust til að greiða götu Lawino í skóla. Eins og hún segir sjálf, þá var hún ung að árum með háleita framtíðardrauma. Hún ætlaði að verða læknir eða  sinna einhverjum störfum tengdum heilbrigðismálum. En þegar hún var að ljúka  grunnskólanámi kom strik í reikninginn: Móðurbróðir hennar lést.  Eftir að frændinn féll frá var fátt til bjargar, ekkjan atvinnulaus og hafði fyrir eigin börnum að sjá, og átti þess ekki lengur kost að styðja við bakið á Lawino með greiðslu skólagjalda. Um tíma dimmdi yfir í lífi ungu stúlkunnar en aftur kom ljós inn í líf hennar þegar Candle Light Foundation bauð henni að koma í verkmenntanám í skólanum; þá fór Lawino  á matreiðslubraut og eftir námið hóf hún störf á hóteli í Kampala þar sem hún fór fyrst sem starfsnemi. Launin voru hins vegar ekki ásættanleg, segir hún, og því fékk hún annað starf í mötuneyti, í höfuðstöðvum lögreglunnar í Kampala. Allt segir hún þetta Candle Light að þakka - og hún vilji sýna þakklæti sitt í verki með því að hjálpa öðrum. 

Starfið ástríða 

 Rosette Nabuuma hefur veitt verkmenntaskólanum forstöðu frá upphafi. Hún viðurkennir fúslega að starfið sé henni ástríða. Hún kveðst hafa átt samleið með Candle Light lengi, upphaflega með Erlu Halldórsdóttur  fyrir fimmtán árum þegar þær ákváðu að grípa til aðgerða í þágu bágstaddra stúlkna í Úganda. Hún segir að fyrstu árin hafi verið erfið, sjálf hafi hún verið ung kona en verkefnið hafi verið heillandi og þörfin fyrir stuðning hafi verið mikil meðal ungra stúkna sem sumar hverjar hafi ekki átt annan samanstað en götuna. "Þær urðu hluti af mér, hlutskipti þeirra varð hlutskipti mitt og vandamál þeirra eru vandamálin mín," segir hún.  
Nýlega flutti skólinn í ný húsakynni og aðstæðurnar eru gjörbreyttar frá því sem áður var. Rosette er hæstánægð með breytingarnar og segir að íslensk stjórnvöld hafi veitt skólanum styrki til húsbygginga og skólinn geti ávallt reitt sig á stuðning Alnæmisbarna sem hafi lengi verið ein helsta kjölfestan í rekstri skólans.

Vefur Candle Ligth Foundation Félagið Alnæmisbörn

                           

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum