Hoppa yfir valmynd
14.12. 2016

Mikill stuðningur ríkisstjórna við Flóttamannastofnun SÞ

https://youtu.be/L24Ed4ndVBs Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR)  hefur aldrei fyrr fengið jafn ríkulegan stuðning ríkisstjórna í heiminum, að því er segir í frétt frá stofnuninni. Þegar hafa ríkisstjórnir skuldbundið sig til að greiða 700 milljónir bandaríkjadala til verkefna stofnunarinnar á árinu 2017. Verkefnin eru viðamikil eins og sést á tölum um flóttafólk og fólk án ríkisfangs, tæplega 69 milljónir manna.

 
Skuldbindingar um framlagsgreiðslur voru samþykktar á fundi framlagsríkja í Genf á dögunum og samkvæmt frétt UNHCR verða framlögin nýtt til stuðnings fólki sem er á flótta vegna langvinnra átaka eins og í Írak, Jemen, Suður-Súdan og á svæðinu í kringum Tjad vatnið í Afríku. Þá rekur stofnunin verkefni í rúmlega 100 þjóðríkjum um allan heim. Fjárþörf Flóttamannastofnunar fyrir allt næsta ár nemur 7.3 milljörðum dala. 

 
Í frétt UNHCR segir að meiri áhersla sé lögð í samstarf við aðrar stofnanir í stefnumörkun fyrir næsta ár og það sé helsta nýlunda í verklaginu. Þar er meðal annars um að ræða samstarf við Alþjóðabankann, Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO) og Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD). 

"Við hvetjum framlagsríki og stofnanir þeirra til þess að taka höndum saman með okkur til að tryggja að allt fólk á flótta geti fengið vernd og byggt upp örugga framtíð," er haft eftir Filippo Grandi yfirmanni UNHCR í fréttinni. 

"Forgangsverkefni hjá okkur er að bjarga mannslífum og vernda bæði rétt og reisn flóttafólks, fólks sem er á vergangi innan eigin lands, og fólks án ríkisfangs. Það merkir að bjóða hagnýta aðstoð til langs tíma, meðal annars til þeirra þjóða og samfélaga sem hýsir fólkið," bætti hann við.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur á þessu ári sérstaklega vakið athygli á börnum á flótta. Myndbandið hér að ofan fjallar einmitt um börn á flótta og nefnist "Raddir í myrkrinu." Samkvæmt tölum stofnunarinnar voru 112 þúsund foreldralaus börn meðal hælisleitenda á síðasta ári.
Nánar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum