Hoppa yfir valmynd
14.12. 2016

Námskeið Jarðhitaskólans til stuðnings Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna

Jarðhitaskólinn er ein af fjölmörgum kennslueiningum innan Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSþ).  Höfuðstöðvarnar eru staðsettar í Tókýó, en kennslustofnanir og -einingar eru dreifðar út um hnöttinn, þar af fjórar á Íslandi:  Jarðhitaskólinn (stofnaður 1978), Sjávarútvegsskólinn (1998), Landgræðsluskólinn (2007/2010) og Jafnréttisskólinn (2009/2013).  Skólinn starfar samkvæmt þríhliða samkomulagi HSþ, utanríkisráðuneytis og Orkustofnunar.  Fjárveitingar til grunnstarfseminnar koma frá íslenska ríkinu í gegnum utanríkisráðuneytið og flokkast undir opinbera þróunaraðstoð, en skólinn hefur frá upphafi verið hýstur innan Orkustofnunar.

Starfsemin á Íslandi 

JardhitamyndirJarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna var stofnaður á Íslandi í lok árs 1978 með það að markmiði að styðja við rannsóknir og nýtingu á jarðhita í þróunarlöndum.  Þetta skyldi gert með því að bjóða jarðvísindafólki og verkfræðingum frá hlutaðeigandi stofnunum og fyrirtækjum í samstarfslöndum til 6 mánaða sérhæfðs náms á Íslandi undir handleiðslu íslenskra sérfræðinga.  Frá árinu 1979 hefur 6 mánaða námið verið kjarninn í starfsemi skólans og eiga nemendur þess kost að innritast á eina af átta mismunandi sérhæfðum námsbrautum sem keyrðar eru frá apríl til október ár hvert.  Alls hafa 647 sérfræðingar frá 60 löndum útskrifast úr náminu frá upphafi og á skólinn stóran þátt í menntun og eflingu þess mannauðs sem víða vinnur að framgangi jarðhitarannsókna og -nýtingar í þróunarlöndunum.   

Um aldamótin hófu Jarðhitaskólinn og Háskóli Íslands samstarf um framhaldsmenntun fyrir fyrrverandi 6 mánaða nema, og Háskólinn í Reykjavík bættist síðar við sem samstarfsaðili.  Nemendur sem lokið hafa 6 mánaða þjálfuninni hafa því um langt skeið átt þess kost að sækja um styrk til Jarðhitaskólans til að standa straum af kostnaði við meistaranám á Íslandi við annan hvorn háskólann, og jafnvel doktorsnám við Háskóla Íslands.  Alls hafa 52 lokið MSc námi og 2 hafa varið doktorsverkefni sín við HÍ.   

Þó starfsemin hafi framan af að mestu farið fram á Íslandi, hefur hún frá árinu 2005 jafnframt færst út til samstarfslandanna í auknum mæli, sér í lagi Kenía og El Salvador.  Eiga námskeið sem haldin hafa verið til stuðnings þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna átt stóran þátt í þeirri þróun.   

Þúsaldarnámskeiðin í Kenía 

Á fundi æðstu ráðamanna aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldinn var í Jóhannesarborg árið 2002 tilkynnti ríkisstjórn Íslands aukin framlög til Jarðhitaskólans sem nýta skyldi í vinnuþing og námskeið sem haldin yrðu í þróunarlöndunum til stuðnings þúsaldarmarkmiðunum.  Fyrsti atburðurinn var vinnuþing sem haldið var í Kenía í nóvember 2005 og var markhópurinn aðilar sem höfðu aðkomu að og áttu þátt í ákvarðanatöku vegna jarðhitaverkefna í Afríku.  Á þinginu kom m.a. fram samdóma álit þessara aðila um að mikil þörf væri á styttri námskeiðum á svæðinu þar sem áhersla væri lögð á jarðhitarannsóknir.  Slík námskeið myndu gagnast öllum þeim löndum álfunnar þar sem jarðhita er að finna, enda voru flest löndin enn að rannsaka og meta jarðhitaauðlindir sínar og sum hver voru á byrjunarreit, en jarðhitavirkjanir höfðu þó verið settar upp í Kenía (127 MW) og Eþíópíu (8,5 MW).    

Hið fyrsta í röð námskeiða til stuðnings þúsaldarmarkmiðunum í Afríku var haldið í Kenía árið 2006 í samstarfi við helsta raforkufyrirtæki landsins, KenGen.  Námskeiðin urðu árlegur viðburður og þróuðust og efldust eftir því sem árunum fjölgaði.  Árið 2009 bættist jarðhitaþróunarfyrirtæki Kenía (Geothermal Development Company - GDC), sem þá var nýstofnað, við sem samstarfsaðili og hafa námskeiðin síðan þá verið haldin í nánu samstarfi Jarðhitaskólans, KenGen og GDC.  Auk íslenskra sérfræðinga skipa fyrrverandi 6 mánaða nemar Jarðhitaskólans, sem margir hverjir hafa jafnframt að baki framhaldsnám á Íslandi, veigamikinn sess í kennslu og leiðbeiningarstörfum á námskeiðunum.    

Á síðustu árum hafa námskeiðin í Kenía staðið yfir í þrjár vikur.  Fyrsta vikan hefur verið helguð vettvangsvinnu á Bogoria svæðinu í Sigdalnum mikla og hafa kenísku samstarfsaðilarnir alfarið séð um þann kafla.  Síðari tvær vikurnar hafa námskeiðin verið haldið við Naivashavatn, í námunda við Olkaria jarðhitasvæðið þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað á síðustu árum, enda svæðið eitt hið gjöfulasta sem um getur.  Þessi kafli námskeiðanna hefur einkennst af fyrirlestrum, verkefnavinnu, vettvangsferðum um Olkaria svæðið og umfjöllun um stöðu jarðhitamála í Afríku.  Frá árinu 2010 hafa á milli 55 og 70 manns tekið þátt í námskeiðunum á hverju ári, um helmingur frá löndum utan Kenía, en hinn helmingurinn frá gestgjafalandinu.    

Uppbyggingin hefur verið mjög hröð undanfarið í Kenía og er nú svo komið að landið hefur tekið fram úr Íslandi á hinni alþjóðlegu stigatöflu uppsetts afls jarðhitavirkjana (677 MW á móti 665 MW).  Það er því óumdeilanlegt að Kenía býður upp á besta vettvang sem völ er á fyrir námskeiðin í Afríku.  Kennarar og þekking eru til staðar, en jafnframt fá þátttakendur frá öðrum löndum álfunnar tækifæri til þess að sjá með eigin augum dæmi um það hverju nýting jarðhita getur áorkað.   

Möguleikar til nýtingar jarðhita í Afríku eru miklir, en misjafnlega er gefið á milli landa.  Þannig er austari grein austur afríska rekbeltisins gjöfulli á jarðhita en sú vestari og það sama má segja um samanburð við greinina sem teygir sig til suðurs frá Tansaníu í gegnum Malavívatn og áfram til Mósambík.  Þá er djúpan lághita að finna víða í norður Afríku og staðbundinn jarðhita kann að vera finna á öðrum svæðum, s.s. í Kamerún.  Möguleikar til raforkuframleiðslu eru því mestir austan til og þá sérstaklega í Kenía og Eþíópíu, en jafnframt horfa lönd á borð við Djibútí, Eritreu, Úganda og Tansaníu til jarðhitans sem uppsprettu raforku.  Á lághitasvæðum kann að vera mögulegt að framleiða raforku með tvívökvatækni, en margvísleg tækifæri liggja jafnframt í beinni nýtingu á borð við þurrkun matvæla, ylrækt, fiskeldi, gerilsneyðingu mjólkur, baðlón og heilsutengda ferðaþjónustu.   

Þúsaldarnámskeiðin í El Salvador

Í mörgum löndum Rómönsku Ameríku og Karíbahafsins er jarðhita að finna, en nýting til raforkuframleiðslu hefur til þessa verið bundin við einstök lönd Mið-Ameríku og Mexíkó.  Eldfjallaeyjar Antilles eyjabogans í Karíbahafi búa margar hverjar yfir jarðhita sem mögulega má nýta til raforkuframleiðslu og Andes fjallgarður Suður Ameríku hefur að geyma mörg jarðhitasvæði.   Að auki eru enn ónýtt jarðhitasvæði í Mið-Ameríku og Mexíkó.  Vegna möguleikanna sem til staðar eru og þarfar almennings þessara landa fyrir orku varð þetta svæði því fyrir valinu sem vettvangur annarrar námskeiðaraðar til stuðnings þúsaldarmarkmiðunum.   

Í lok nóvember 2006 var haldið í El Salvador vinnuþing fyrir aðila frá Mið-Ameríku og Mexíkó sem þátt áttu í ákvarðanatöku vegna jarðhitaverkefna í heimalöndum sínum, á svipuðum nótum og námskeiðið í Kenía árið áður.  Vinnuþinginu var síðan fylgt eftir með námskeiðaröð í samstarfi við jarðhitafyrirtækið LaGeo í El Salvador til stuðnings þúsaldarmarkmiðunum og var hið fyrsta helgað forðamati og umhverfismálum, haldið ári eftir vinnuþingið.  Námskeiðin í El Salvador hafa að ýmsu leyti verið frábrugðin námskeiðunum í Afríku vegna annarra þarfa.  Í upphafi var markhópurinn sem fyrr segir lönd Mið-Ameríku og Mexíkó sem þegar voru komin nokkuð á veg með nýtingu jarðhita, enda voru jarðhitavirkjanir þá til staðar í El Salvador (204 MW), Kosta Ríka (163 MW), Níkaragva (83 MW), Gvatemala (44 MW) og Mexíkó (953 MW !).  Námskeiðin voru því styttri en í Kenía (vikulöng, með undantekningum þó) og voru yfirleitt byggð upp með fyrirlestrum.  Umfjöllunarefnið breyttist á milli ára í samræmi við óskir fulltrúa þátttökulanda.  Með árunum hefur þátttaka í námskeiðunum breiðst út til Karíbahafsins og Suður Ameríku og hefur áhugi á jarðhitanýtingu farið vaxandi á svæðinu.  Líkt og í Kenía hafa íslenskir sérfræðingar komið að kennslu, en jafnframt sjá fyrrverandi nemendur Jarðhitaskólans frá svæðinu um stóran hluta hennar.  Fyrirlestrar eru ýmist á ensku eða spænsku, eftir því sem fyrirlesari kýs, en boðið er upp á samtímatúlkun á milli tungumálanna tveggja fyrir þá sem þess þurfa við.    

Þar sem innlendar orkulindir smærri eyja Karíbahafsins eru takmarkaðar eru ríkin gjarnan í þeirri stöðu að þurfa að flytja inn kolefnaeldsneyti til að knýja rafstöðvar.  Nokkrar eldfjallaeyjar sitja þó á dýrmætum jarðhitaauði sem mögulega má nýta til raforkuframleiðslu og hafa ríkisstjórnir sumra þessara eyja unnið að því á síðustu árum að gera slíkt að veruleika.  Með þessu eygja íbúar von um lægra raforkuverð til lengri tíma, meiri stöðugleika í orkuverði og mun minni losun koltvísýrings út í andrúmsloftið.  Áhrifin til lengri tíma gætu því mögulega orðið á borð við jákvæð áhrif hitaveituvæðingar á Íslandi.  Eins og gengur tekur þó töluverðan tíma að koma jarðhitaverkefnum á koppinn og er fjármögnun þar oft hár þröskuldur sem þarf að yfirstíga.  Þá eru möguleikar til jarðhitanýtingar i Suður Ameríku töluverðir og víða álitleg jarðhitasvæði að finna.  Í sumum tilfellum skapar mikil hæð svæðanna og fjarlægð frá raforkukerfi þó ákveðin vandamál sem þarf að yfirstíga og eins eru regluverk landanna jarðhitanýtingu mis hliðholl.  Hvað sem því líður hefur aukins áhuga gætt á jarðhitanýtingu í Suður Ameríku á síðustu árum, sem m.a. hefur komið fram í aukinni aðsókn á þúsaldarnámskeiðin.

Vinnuþing í Kína - Vísir sem ekki varð 

 Árið 2008 var haldið í Kína vinnuþing fyrir stjórnendur í ætt við þingin sem áður höfðu verið haldin í Kenía og El Salvador og var vonin sú að hægt yrði að fylgja því eftir með námskeiðaröð eins og í hinum löndunum, enda jarðhita að finna víða í Asíu og nýtingarmöguleikar miklir.  Hrunið setti þó strik í þau áform þar sem fjárveitingar næstu ára reyndust ekki nægja til þess að þetta yrði að veruleika.  Áhugi á samstarfi við Jarðhitaskólann hefur þó áfram verið mikill í Kína og víðar í Asíu.    

Þúsaldarnámskeiðin - Horft til baka 

 Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna runnu sitt skeið í lok árs 2015, en við tóku markmið sjálfbærrar þróunar - heimsmarkmiðin - sem verða í gildi til ársins 2030.  Áhugi var á að halda námskeiðunum í Kenía og El Salvador áfram, en ljóst var að breyta þyrfti kennimerkingu þeirra við þessi tímamót.  Síðustu þúsaldarnámskeiðin voru því haldin árið 2015.  Sé litið um öxl voru haldin 11 námskeið á árabilinu 2006-2016 í Afríku, þar af eitt í Úganda en hin í Kenía, auk vinnuþingsins 2005.  Þátttakendur voru alls 554 frá 21 Afríkulandi (Algeríu, Búrúndí, Kamerún, Kómóróeyjum, Lýðveldinu Kongó, Djibútí, Egyptalandi, Eritreu, Eþíópíu, Kenía, Marokkó, Mósambík, Níger, Nígeríu, Rúanda, Súdan, Tansaníu, Úganda, Sambíu og Simbabwe) auk Jemen.  Í El Salvador voru haldin 7 námskeið á árabilinu 2007-2015, auk vinnuþingsins 2006.  Þátttakendur voru 411 frá 15 löndum (Bólivíu, Síle, Kólombíu, Kosta Ríka, Dóminiku, El Salvador, Ekvador, Gvatemala, Hondúras, Mexíkó, Montserrat, Skt. Kitts og Nevis, Níkaragva, Perú og Skt. Vinsent og Grenadíneyjum), auk nokkurra þátttakenda frá alþjóðastofnunum.  Að vísu er rétt að halda því til haga að í einhverjum tilfellum hefur sama fólk setið fleiri en eitt námskeið í El Salvador sem kemur til af því að breytt er um umfjöllunarefni frá ári til árs.   

Ljóst er að með námskeiðunum hefur Jarðhitaskólinn náð til mun fleiri starfandi og upprennandi jarðhitasérfræðinga en mögulegt hefði verið í gegnum 6 mánaða námið á Íslandi.  Námskeiðin hafa nýst til þess að deila mikilvægri þekkingu á milli heimsálfa og kynslóða, þau hafa í mörgum tilfellum verið fyrsti snertiflötur margra við hið alþjóðlega jarðhitasamfélag, tengsl hafa myndast á milli þátttakenda og kennara sem jafnvel hafa orðið kveikja að samstarfi síðar meir, og síðast en ekki síst hafa námskeiðin reynst mikilvægur vettvangur fyrir val á nemum í 6 mánaða námið á Íslandi.  Þannig má segja að forval 6 mánaða nema fari fram í aðdraganda námskeiðanna, en þátttakendur eru síðan teknir í ítarleg viðtöl á meðan á námskeiðunum stendur.  Námskeiðin eru því til þess fallin að bæta val á nemendum inn í 6 mánaða námið og lækka kostnað við valferlið.   

Sérsniðin námskeið 

 Í kjölfar velgengni þúsaldarnámskeiðanna í Kenía og El Salvador fór Jarðhitaskólinn að fá fyrirspurnir um möguleikann á því að skipuleggja og halda námskeið í þróunarlöndunum gegn greiðslu.  Opnað var á þennan kost árið 2010 og voru það ár haldin fjögur sérsniðin námskeið:  tvö í Indónesíu sem fjármögnuð voru í gegnum þróunarsjóði og tvö í Kenía sem fjármögnuð voru af jarðhitafyrirtækjunum tveimur sem Jarðhitaskólinn hafði átt farsælt samstarf við vegna þúsaldarnámskeiðanna.  Vegna hraðrar uppbyggingar í Kenía var þörfin fyrir þjálfun mikil og meiri en svo að henni væri annað með þúsaldarnámskeiðunum eða 6 mánaða náminu á Íslandi.  Þessi þáttur starfseminnar - sérsniðnu námskeiðin - hefur síðar vaxið töluvert og hafa nú 37 námskeið, vinnuþing og þjálfunarlotur verið haldin undir þessum formerkjum í fjórum heimsálfum og er lengdin allt frá degi upp í mánuði.    

Auk þess að ýta undir hugmyndina um sérsniðnu námskeiðin gerðu þúsaldarnámskeiðin þau möguleg þar sem þróunarvinna hafði þegar farið fram og kennsluefni var að miklu leyti til.  Þvi var hægt að setja saman námskeiðsdagskrár um tiltekið efni að beiðni utanaðkomandi aðila með lítilli fyrirhöfn, kennsluefni var tiltækt og kennarar voru í þjálfun.  Án þúsaldarnámskeiðanna er ólíklegt að þróunin hefði orðið eins og raun ber vitni.   

Námskeið til stuðnings Heimsmarkmiðunum 

 Við þau tímamót sem urðu við samþykkt og innleiðingu nýrra Heimsmarkmiða var sú ákvörðun tekin innan Jarðhitaskólans að hefja nýjar námskeiðaraðir í Kenía og El Salvador Heimsmarkmiðunum til stuðnings, enda námskeiðin sérlega vel til þess fallin að styðja við markmið 7 um aðgang allra að áreiðanlegri orku á viðráðanlegu verði og nútímalegu formi (raforka) með sjálfbærni að leiðarljósi.  Að auki styður jarðhitanýting, og þar með námskeiðin, við markmið 13 um bráðaaðgerðir gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, auk þess sem námskeiðin styðja við fjölmörg önnur markmið, s.s. markmið um vinnu og hagvöxt, markmið um iðnað, nýsköpun og innviði, markmið um útrýmingu fátæktar, markmið um samvinnu, og síðast en ekki síst markmið um kynjajafnrétti.  Jarðhitaskólinn hefur lagt áherslu á tilnefningu kvenna á námskeiðin og konur njóta jafnan forgangs við val á þátttakendum að því tilskildu að þær uppfylli þær kröfur sem almennt eru gerðar til þátttakenda.      

Fyrsta "sjálfbærninámskeiðið" var haldið í El Salvador í septemer 2016.  Uppbygging námskeiðsins var mjög í anda fyrri námskeiða í El Salvador, en umfjöllunarefnið var helgað sjálfbærni, stjórnun nýtingar jarðhitaauðlinda út frá umhverfisnálgun og hlutverki jarðhitans í baráttu við loftslagsbreytingar (e. SDG Short Course I on Sustainability and Environmental Management of Geothermal Resource Utilization and the Role of Geothermal in Combatting Climate Change).  Umfjöllunarefnið var mjög við hæfi í ljósi nýju námskeiðaraðarinnar og virtist falla vel í kramið hjá þátttakendum sem að þessu sinni voru 68 talsins frá 14 löndum, sem er metfjöldi á námskeiðunum í El Salvador.  Auk fyrirlestra og vettvangsferðar í jarðhitavirkjanir sem kenndar eru við bæinn Berlin gafst þátttakendum kostur á að skrá sig í eitt af fimm hópverkefnum sem boðið var upp á: 1) Leyfisveitingaferli og umhverfismat; 2) Eftirlit, skýrslugerð og staðfesting á kolefnisútblæstri jarðhitavirkjana; 3) Setning vinnslumarka sjálfbærrar nýtingar; 4) Mat á jarðhitaverkefni út frá sjálfbærniviðmiðum; og 5) Innleiðing umhverfisstjórnunarkerfis í jarðhitafyrirtæki.  Þó svo að umfjöllunarefni næstu námskeiða verði önnur, verður áfram leitast við að styðja sem best við heimsmarkmiðin í útfærslu þeirra.   

Á síðustu árum hefur Jarðhitaskólinn komið að uppbyggingu diplóma náms í jarðhitafræðum við Háskólann í El Salvador, fyrst í ráðgjafarhlutverki, en í ár sem beinn aðili að þessari námsleið sem kennd er á spænsku og gagnast þ.a.l. nemendum frá Rómönsku Ameríku sérlega vel, ásamt LaGeo og háskólanum.  Námsleiðin er fjármögnuð af norræna þróunarsjóðnum og standa vonir til þess að hægt verði að bjóða upp á hana áfram á komandi árum, þó fjármögnun sé ekki tryggð til framtíðar.  Auk salvadorískra kennara koma íslenskir kennarar á vegum Jarðhitaskólans að.  Framlag Jarðhitaskólans er margþætt, en m.a. er sjálfbærninámskeiðið lagt fram sem hluti af námsskránni.  Nemendur diplóma námsins sóttu því allir námskeiðið sem haldið var í september og er stefnt að sama fyrirkomulagi á næsta ári.   

Fyrsta námskeið nýrrar námskeiðaraðar í Kenía var haldið í nóvember 2016 og var það byggt á styrkum stoðum fyrri námskeiða með nokkrum skipulagsbreytingum og nýjungum þó.  Sem fyrr var námskeiðið þriggja vikna langt og var fyrsta vikan sem haldin er í nágrenni Bogoriavatns óbreytt frá þúsaldarnámskeiðunum eins og þau hafa verið útfærð síðustu ár.  Á tveimur síðustu vikunum við Naivashavatn var þó meiri áhersla en áður lögð á sjálfbærni, og nýjum fyrirlestrum um borholujarðfræði, forðafræði og verkefnastjórnun var bætt við dagskrána.  Í verkefnavinnunni sem nær yfir þrjá daga fengu þátttakendur nasasjón af jarðhitarannsóknum á lághitasvæðum jafnt sem háhitasvæðum, en fram að því hafði háhitinn verið í fyrirrúmi í verkefnavinnunni.  Með vaxandi vitund um eðlismun jarðhitakerfa í austari og vestari greinum Austur-Afríska rekbeltisins, sem m.a. kom fram í niðurstöðum vinnuþings um jarðfræðilega þróun og jarðeðlisfræði vestari greinar hins mikla Austur-Afríska rekbeltis sem haldið var í Kigali í Rúanda í mars á þessu ári, er tilhlýðilegt að veita þátttakendum aukna innsýn í fyrirkomulag rannsókna á lághitasvæðum, en rannsóknaraðferðirnar geta á stundum verið frábrugðnar eftir þvi hvort um lág- eða háhita er að ræða.  Þá var boðið upp á spurningaleik á lokadegi námskeiðsins með spurningum byggðum á efni námskeiðsins og upplifunum ýmsum, og mæltist hann vel fyrir.    

Um nokkurt skeið hafa verið uppi áform um stofnun jarðhitaseturs fyrir Afríkulönd í Kenía þar sem boðið verður upp á margvíslega þjálfun og nám í jarðhitafræðum.  Þar hefur m.a. verið rætt um að Jarðhitaskólinn komi að, en sem stendur er óljóst með útfærsluna.  Þó er líklegt að námskeiðin verði tengd setrinu ef af stofnun þess verður.  Hugmyndin kallast vissulega á við hlutverk Jarðhitaskólans í diplóma náminu við Háskólann í El Salvador og er það vissulega ánægjuleg tilhugsun ef námskeiðin geta stutt við eða jafnvel orðið vísir að varanlegum þekkingarmiðstöðvum í samstarfslöndunum.                                                               

Hvað sem þessu líður er vonin sú að námskeiðin muni eiga þátt í því að Heimsmarkmiðin verði að veruleika eigi síðar en árið 2030. Sér í lagi er horft til þess að þau u.þ.b. 15% Jarðarbúa sem nú hafa engan aðgang að raforku, muni hafa þann aðgang árið 2030, en jafnframt er horft til áreiðanleika og hagkvæmni raforkuframleiðslu jarðhitavirkjana og þeirra jákvæðu áhrifa sem þær hafa á loftslag og hnattræna hlýnun ef þær eru valkostur við virkjanir sem byggja á notkun kolefnaeldsneytis.  Mörg lönd sem hafa yfir drjúgum jarðhitaauðlindum að ráða hafa enn sem komið er lítið sem ekkert nýtt þær - m.a. vegna þess að þekkingu er ábótavant - og aðrar þjóðir hafa einungis tekið sín fyrstu skref á sviði jarðhitanýtingar.  Starf Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér heima og erlendis, sem grundvallast á áratugareynslu Íslendinga af nýtingu jarðhita til margvíslegra nota, er til þess fallið að stuðla að nýtingu þessara auðlinda, þegnum landanna og heimsbyggðinni allri til framdráttar - og þar skipa námskeiðin veigamikinn sess.                    


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum