Hoppa yfir valmynd
14.12. 2016

Sagan á bak við capulana

Annagudruncapulana

Eitt af því sem einkennir Mósambík er litríkur fatnaður heimamanna sem fer varla fram hjá neinum sem sækir landið heim. Hvert sem litið er sér maður konur sveipaðar í litrík og mynstruð efni, svokölluð capulana, sem þær binda um sig miðja og nota sem einskonar pils, eða sem burðarpoka fyrir börnin sín, höfuðklúta og fleira. Bæði konur og karlar klæðast einnig sérsniðnum fötum úr capulana og það er hægt að gleyma sér alveg í að virða fyrir sér fallega og litríka kjóla, skyrtur, pils og fleira og fleira. En capulana er miklu meira en bara efni, það hefur djúpa félags- og menningarlega merkingu sem er táknræn fyrir Mósambíka og það er jafnvel hægt að segja að það sé partur af sjálfsmynd mósambískra kvenna.                                                                   

Það fer misjöfnum sögum um hvaðan capulana er upprunnið, en svipuð efni má einnig finna í öðrum löndum Afríku og kannast kannski margir við kanga úr Swahili menningu Austur Afríku. Flestum ber einmitt saman um að capulana hafi komið með Portúgölum sem fluttu það inn til Kenýa frá Indlandi á 19. öld. Indverskur vefnaður var mikilvæg tekjulind í viðskiptum á austurströnd Afríku og notuðu Portúgalar litla áprentaða efnisbúta sem verslunarvöru í Mombasa í Kenía. Sagan segir að Swahili konur hafi keypt efnin og bundið þau saman svo úr varð stærri klútur sem þær svo sveipuðu um sig miðja og notuðu sem pils. Það var ódýrara að gera þetta svona en að kaupa efni af þessari stærð. Indverskir og arabískir kaupmenn hafi svo fært viðskipti sín niður til Mósambík þar sem sagan af capulana byrjaði.                                                                       

Upprunalega voru capulana í Mósambík í þremur litum, rauð, hvít eða svört. Hvítur táknaði verndun forfeðranna, svartur táknaði hið illa og rauður táknaði stríð. Fyrstu prentin voru yfirleitt fyrirbæri úr náttúrunni, sól, plöntur eða dýr. Þessar týpur af capulana voru allsráðandi fyrir nýlendutímann en í dag eru þær aðallega notaðar af "curandeiros", einskonar andalæknum og græðurum, og eru dýrari á mörkuðum bæjarins þar sem þau eru álitin vera mikils virði og einnig einstaklega falleg. Í dag má finna capulana í allskyns litum og mynstrum sem eru ólík eftir svæðum og siðum. Þau hafa enn táknræna merkingu og eru notuð við ýmis tækfæri, í vígsluathöfnum, á dansviðburðum og jafnvel til að koma pólitískum skilaboðum áleiðis. Capulana sem gjöf er þýðingarmikið og hefur mikla merkingu bæði fyrir þann sem gefur og þann sem þiggur. Það færir gleði og vináttu og styrkir oft félagslega stöðu viðkomandi. Mæður geyma capulana fyrir dætur sínar sem þær gefa þeim þegar þær giftast og segja þeim þá söguna af hverri flík, hvenær capulanað var gefið upprunalega, hver gaf það og við hvaða tilefni.   

Capulana geyma þannig sögur og varðveita menningu Mósambíka - sögur sem fylgja kynslóðum og ganga munnlega mann fram af manni. Það eru til orðatiltæki sem eru tengd við capulana og vísa oft til kvenleika (e. womanhood). Valdamikil og félagslega sterk kona er til dæmis sögð "vera í þéttu capulana" og þegar kona stendur frammi fyrir krefjandi áskorun á hún að "binda capulanað vel". Samkvæmt Paulu Chiziane, mósambískum rithöfundi, gefa menn konunum sínum blóm í Evrópu, en í Mósambík fá þær capulana. Ástæðan er sú að blóm fölna og deyja en capulana endast að eilífu.   Sjálf lét ég loksins sauma á mig kjól úr capulana um daginn svo jólakjóllinn í ár verður fallega gulur með rauðu mynstri - kjóll sem á eftir að geyma mína sögu frá Mósambík.   Heimildir  

Henrik Ellert. 2013. Moçambique mosaic: the material culture of moçambique. Publisher: Hakata books. CAPULANAS ... CAPULANAS ... CAPULANAS ... CAPULANAS ... CAPULANAS a história da capulana/ Rosa Pomar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum