Hoppa yfir valmynd
14.12. 2016

Vopnuð átök í heiminum færri en mannskæðari

Statesoffragility2016Vopnuðum átökum fækkar í veröldinni en þau eru mannskæðari en áður. Samkvæmt nýútkominni skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) hafa ofbeldisverk  á síðastliðnum fimmtán árum með einum eða öðrum hætti haft áhrif á 3,34 milljaðra manna, eða tæplega helming mannkyns. Í  formála  skýrslunnar - State of Fragility 2016 - fullyrðir  Douglas Frantz aðstoðarframkvæmdastjóri OECD að ofbeldi fari vaxandi í veröldinni og bregðast verði við með endurskoðun á alþjóðlegri þróunarsamvinnu. 

Í skýrslunni kemur fram að dauðsföll af völdum vopnaðra átaka séu nú þrefalt fleiri en árið 2003. Gögn sýna að árið 2014 var annað versta árið frá dögum kalda stríðsins þegar litið er á fjölda dauðsfalla á átakasvæðum og árið 2015 það þriðja versta. Í fyrra voru dauðsföll tengd vopnuðum átökum 167 þúsund talsins, þar af 55 þúsund í Sýrlandi. 

Í skýrslunni kemur einnig fram að starfsemi ofbeldisfullra öfgasamtaka og hryðjuverkastarfsemi færist í aukana. Douglas Frantz segir að efnahagslegt tjón af völdum ofbeldisverka vaxi að sama skapi, það sé nú metið á 13,6 trilljónir bandarískra dala sem jafngildir 13,6% af þjóðartekjum í heiminum. "Og borgararnir, einkum börn og konur, eru í mestri hættu," segir hann. 

Samkvæmt skýrslunni telur OECD að 1,6 milljarður manna, eða um 22% allra jarðarbúa, hafi búfestu á svæðum sem skilgreind eru óstöðug. Á sama tíma og fólki fækki í heiminum sem býr við sárafátækt sé fyrirsjáanleg fjölgun sárafátækra í óstöðugum heimshlutum, úr 480 milljónum á síðasta ári upp í 542 milljónir árið 2035. 

Hvað skýrir aukið ofbeldi? 

 Skýrsluhöfundar rýna í ástæður þessarar þróunar og hvernig unnt sé að bregðast við henni, en undirheiti skýrslunnar er einmitt "Understanding Violence." Það er mat höfundanna að viðleitni til að auka þróun, frið og öryggi hafi ekki haldið í við það sem þeir kalla "veruleika ofbeldis." Og þeir hvetja til þess að ofbeldisverkum verði gefinn meiri gaumur - og sett verði meira fjármagn til að stemma stigu við því.  

Douglas Franzt minnir á það í inngangi skýrslunnar að alþjóðasamfélagið hafi tekið höndum saman á síðasta ári með sögulegum samþykktum, annars vegar Parísarsamkomulaginu og hins vegar Heimsmarkmiðunum, í því skyni að bæta heiminn. Öll þau áform kunni að vera í hættu vegna þess að fjármagn sem ætti að fara í uppbyggingarstarf yrði nýtt til að leysa bráðavanda sem tengdist fátækt, ofbeldi og óstöðugleika. Slíkt komi til með að hafa í för með sér tafir á aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og tafir á framgangi Heimsmarkmiðanna, milljónir manna búi áfram við örbirgð og átök, flóttamannavandinn verði ekki leystur og öfgafull ofbeldisstarfsemi aukist. 

Franzt telur nauðsynlegt að brjóta upp þessa banvænu hringrás og til þess þurfi hvorki meira né minna en að hugsa alþjóðlega þróunarsamvinnu upp á nýtt. Það merki að þróa þurfi nýtt fjölvítt líkan til að mæla og fylgjast með óstöðugleika. Markmiðið sé að skilgreina öflin að baki fátækt og átökum, allt frá fjölgun vígasveita í borgum upp í víðtæka spillingu. Aðeins með slíkri greiningu sé unnt að komast að því hvað sé í ólagi og hvernig standa megi að viðgerð. 

Using aid for structural change in fragile states could help curb rising instability, says OECD/ TheOnlineCitizen 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum