Hoppa yfir valmynd
11.01. 2017

Almenningssalerni og hreint vatn stórbæta lífsgæði íbúanna

Muyubwe er eitt af fiskimannaþorpunum í Buikwehéraði í Úganda sem Íslendingar styðja í þróunarverkefni í samstarfi við héraðsyfirvöld. Þorpið er það afskekktasta í héraðinu, vegurinn endar í útjaðri þorpsins og þramma þarf yfir trjádrumba til þess að komast inn í sjálft þorpið. Íbúarnir eru liðlega fimmtán hundruð talsins og eiga allt undir silfurfiskinum, mukene, sem er sólþurrkaður og fluttur á markað á mótorhjólum. 

Muyubwe - afskekkta þorpið

Vegna mikillar fjarlægðar við næsta byggða ból og afleitar samgöngur hafa margir íbúanna ekki séð annað af heiminum. Sveitarfélagið rekur engan skóla í þessu afskekkta samfélagi og áður en samstarfið við Íslendinga kom til var ekkert hreint vatn, enginn kamar. Samt er þar aðkomufólk í fiskverkun, ung kona eins og Summer Harriet hélt að hún gæti aflað tekna fyrir framhaldsnámi með því að sólþurrka silfurfiskinn, en annað kom á daginn. Rætt er við hana í meðfylgjandi kvikmyndabroti en hún segir farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við útgerðina, krafist sé hárra skráningargjalda af verkafólki, konurnar þurfi sjálfar að kaupa netin sem fiskurinn er þurrkaður á - og tekjurnar séu nánast engar.  

Í verkefni Íslendinga og héraðsstjórnarinnar hafa verið reist fimm almenningssalerni í þorpinu og búið er að bora fyrir vatni skammt utan bæjarmarkanna sem leitt verður innan tíðar inn í þorpið. Eftirlitsmaður frá héraðsstjórninni segir breytingarnar ánægjulegar og nefnir að dregið hafi úr vatnsbornum sjúkdómum og einn af íbúum þorpsins lýsir yfir mikilli ánægju með stuðninginn. 

Þótt opinberir aðilar bjóði börnunum í þorpinu enga formlega menntun hafa foreldrar sjálfir séð til þess að smáfólkið fái fræðslu. Af litlum efnum hafa þeir sett á fót foreldrarekinn grunnskóla og öll börnin eiga því  kost á menntun í fáeinar klukkustundir á dag. Rétt ofan við þorpið er vatnsbólið þar sem borað hefur verið eftir vatni; þar er fólk að þvo sér og næla sér í vatn þótt enginn sé kraninn. Innan tíðar verður vatnsdreifikerfi leitt inn í þorpið níu kranar með hreinu vatni aðgengilegir fyrir íbúa Muyubwe eins og Árni Helgason verkefnastjóri segir frá í kvikmyndabrotinu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum