Hoppa yfir valmynd
11.01. 2017

Skólar, leiguhúsnæði og leiðtogar morgundagsins

Jordan0Kennari opnar dyr á kennslustofu til hálfs og smeygir sér inn. Dyrnar opnast aðeins í hálfa gátt af því að skólabekkur er fyrir. Á bekknum sitja þrír drengir, þétt upp við hvern annan. Kennslustofan er ekki stærri en meðal íslensk borðstofa og þar sitja yfir 20 drengir. Skólinn er Quosor skóli í Norður Amman, einn af 171 skóla fyrir börn á aldrinum 6-16 ára sem reknir eru á vegum Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Jórdaníu, yfirleitt þekkt sem UNRWA. 


UNRWA starfar á Gaza, Vesturbakkanum, Líbanon, Sýrlandi og í Jórdaníu en skráðir palestínskir flóttamenn í Jórdaníu eru 2,2 milljónir eða 42% allra skráðra flóttamanna hjá stofnuninni. UNRWA í Jórdaníu rekur auk grunnskólanna, 25 heilsugæslustöðvar, tvo iðnskóla, einn kennaraskóla og félagsþjónustu sem býður fjármagnsaðstoð fyrir þau sem helst þurfa. Tæplega 7000 manns starfa fyrir stofnunina í Jórdaníu, meirihlutinn í skólakerfinu. 

Fjöldi barna í UNRWA skólum í Jórdaníu jafnast á við þriðjung allra Íslendinga. Skólaárið 2016-2017 eru yfir 120 000 börn skráð í skóla stofnunarinnar. Einn vandi menntakerfisins er húsnæðisskortur. Lýsingin á húsnæðinu hér að framan á við um 57 af 171 skóla UNRWA í Jórdaníu. Þeir skólar eru reknir í íbúðarhúsnæði í stað viðeigandi skólabygginga. Vegna mikillar eftirspurnar eftir skólavist og húsnæðisskorts á áttunda áratuguinum var gripið til þess ráðs að reka skóla í íbúðarhúsnæði. Þetta átti að vera tímabundin lausn en nú, 40 árum síðar, starfa skólarnir þar enn. Eftirspurn eftir skólaplássum eykst svo að nú eru skólastofurnar þétt setnar. Yfir 90% af öllum UNRWA skólum í Jórdaníu eru tvísetnir, fyrir og eftir hádegi. Ferðalög í myrkri til og frá skólum að vetrarlagi hafa áhrif á brottfall nemenda og þétt stundaskrá bitnar á tómstundastarfi í skólunum.     

UNRWA í Jórdaníu leggur áherslu á að afla fjár til nýrra skólabygginga, sérstaklega í stað leiguhúsnæðisins. Bygging nýs húsnæðis veltur á að land fáist undir það frá jórdönskum stjórnvöldum. Með bygginu nýrra skóla má lækka rekstrarkostnað skólanna verulega, bæði með því að hafa fleiri nemendur í hverjum bekk í betri aðstöðu og að losna við leigukostnað. Ekki alls fyrir löngu var stofnun nýs skóla fagnað. Jabal Taj skóli er ný skólabygging sem tekur við af leiguhúsnæði á þrem stöðum. Skólinn var fjármagnaður af bandarískum stjórnvöldum á landi sem jórdönsk stjórnvöld veittu. Skólinn er með gott aðgengi og mun framleiða eigið rafmagn með sólarorkustöð á þakinu. Yfir 1300 börn sem áður stunduðu nám í þröngu skólahúsnæði njóta nú viðeigandi skólaumhverfis. 

Ásættanlegt vinnuumhverfi er forsenda þess að umbætur geti átt sér stað í menntakerfinu. Á síðustu árum hefur UNRWA lagt ríka áherslur á einstaklingsbundið nám og fjölbreytileika. Unnið er að því að bæta aðgengi að skólabyggingum auk þess sem áhersla er lögð á að hvetja til frumkvæðis og að efla leiðtogahæfni nemenda. Sett hefur verið á fót verkefni sem hvetur til þekkingar nemenda til mannréttinda, sérstaklega í starfi skólaþinga hvers skóla. Í hverjum skóla starfar skólaþing þar sem kosnir fulltrúar hvers bekks sitja.
Málefni skólaþinganna eru margs konar, þau skapa tengsl við skólann sinn, nærsamfélagið og sveitarfélag sitt auk þess sem þau taka á ágreningsmálum samnemenda sinna. Nemendurnir sýna frumkvæði og styrk og eru tákn um það sem koma skal. Þau benda á þarfir fyrir umbætur í skólaumhverfi sínu, líkt og minnkun úrgangs, bætt aðgengi og aðbúnað. Þau hafa nú óskað eftir að sinna ráðgjafarhlutverki í hönnun nýrra skólabygginga. UNRWA í Jórdaníu, sem er skipt upp í fjögur svæði, hefur nú starfandi fjögur svæðisþing, þar sem forsetar hvers skóla á svæðinu starfa saman. Hvert svæðisþing velur sér síðan forseta sem svo starfar í skólaráði UNRWA Jórdaníu. 

Síðastliðið haust tókst í fyrsta skipti að setja á fót þing fyrir fulltrúa skólaþinganna frá hverju landi. Í Beirút í Líbanon komu saman fulltrúar allra landanna þar sem UNRWA starfar, þ.e. frá Sýrlandi, Líbanon, Jórdaníu, Gaza og Vesturbakkanum. Öll tala þau sama tungumál en alast upp í gjörólíku umhverfi. Öll eiga þau sögu frá sama landsvæði, þótt minnihluti þeirra hafi heimsótt Palestínu þar sem afar þeirra og ömmur fæddust. 

Þrátt fyrir stöðugan skort á húsnæði og takmarkað vinnuumhverfi eykst eftirspurn eftir plássi í UNRWA skólum frá degi til dags. Nemendur skólanna þroskast og vaxa og mörg barnanna blómstra í leiðtogahlutverki í skólaþingunum. Mörg þeirra taka virkan þátt í viðburðum á vegum UNRWA, koma fram og kynna hugmyndir sínar og starf. Það er einstakt tækifæri að fá að starfa með leiðtogum morgundagsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum