Hoppa yfir valmynd
11.01. 2017

Tæplega 100 styrkir á fimm árum - fjárhæðin tæplega 1,3 milljarður

StyrkirborgarasamtokUtanríkisráðuneytið hefur veitt tæplega hundrað styrki til þrettán íslenskra borgarasamtaka á síðustu fimm árum, 2012 til 2016. Heildarupphæð styrkjanna nemur tæplega 1,3 milljarði króna. Meirihluta styrkjanna var ráðstafað til verkefna í Afríku en viðtökuríkin voru alls 29 talsins.

Á meðfylgjandi gagnvirku heimskorti má sjá yfirlit yfir þá styrki sem utanríkisráðuneytið hefur veitt til borgarasamtaka á síðustu fimm árum og hvar í heiminum þeim hefur verið varið. Verkefnin eru 97 talsins. Flest verkefnanna tengjast þróunarsamvinnu, 50, en 45 styrkir hafa runnið til mannúðaraðstoðar. Tvö verkefnanna voru fræðslu- og kynningarverkefni. Þrettán borgarasamtök hafa fengið umrædda styrki og heildarfjárhæð þeirra nemur 1,270 milljónum króna. Með því að smella á myndina má kalla fram ítarlegri upplýsingar um verkefni í hverju landi.

Flest verkefnanna í Afríku

Flest verkefnin sem fengið hafa opinbera styrki hafa verið á vegum Rauða krossins á Íslandi, Hjálparstarfs kirkjunnar og SOS Barnaþorpa. Flest verkefnanna, alls 55 talsins, hafa verið framkvæmd í Afríku sunnan Sahara en 24 voru framkvæmd í Asíu. Ef miðað er við einstök ríki voru flestir styrkir veittir vegna verkefna í Sýrlandi, 12 talsins, en 11 verkefni í Úganda fengu styrk og 9 í Malaví. 

Sá eðlismunur er á verkefnum í þessum þremur helstu viðtökuríkjum að öll studd verkefni í Sýrlandi voru vegna mannúðaraðstoðar en tæplega 80% verkefna í Úganda og Malaví voru þróunarsamvinnuverkefni.
Þótt flest verkefnanna hafi verið í ofangreindum þremur ríkjum hafa mestir fjármunir farið til verkefna í Eþíópíu, rúmlega 192 milljónir króna, tæplega 162 milljónum hefur verið varið til mannúðarverkefna borgarasamtaka í Sýrlands, 144 milljónum til verkefna í Malaví og 97 milljónum til verkefna í Úganda.

Fleiri mannúðarverkefni á síðasta ári

Árið 2016 var meira en helmingur styrkja sem utanríkisráðuneytið veitti til borgarasamtaka vegna verkefna í Afríku sunnan Sahara, flest þeirra í Úganda og Eþíópíu. Rúmlega helmingur verkefna borgarasamtaka sem utanríkisráðuneytið styrkti á nýliðinu ári voru vegna mannúðaraðstoðar, eða tólf verkefni af tuttugu. Rúmlega tveimur þriðju hlutum heildarupphæðar styrkja til borgarasamtaka á árinu var varið til mannúðaraðstoðar. 

Þróunarsamvinnuverkefni borgarasamtaka sem utanríkisráðuneytis studdi á liðnu ári snéru að menntamálum, vatns-, salernis- og hreinlætismálum, styrkingu félagslegra innviða og eflingu samskiptagetu borgarasamtaka í Afríku sunnan Sahara. Mannúðaraðstoð sem veitt var í gegnum verkefni borgarasamtaka fólst einkum í stuðningi við að bæta aðbúnað fólks.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum