Hoppa yfir valmynd
11.01. 2017

Tæpum 800 milljónum varið til mannúðaraðstoðar 2016

SyriaIprickettunhcrÁ árinu 2016 námu heildarframlög Íslands til mannúðaraðstoðar um 770 milljónum króna. Þar af voru 500 milljónir króna af sérstöku framlagi sem samþykkt var í ríkisstjórn haustið 2015 og síðar í fjárlögum á Alþingi 2016 um að verja allt að einum milljarði króna til að bregðast við vaxandi vanda í málefnum flóttamanna í kjölfar átakanna í Sýrlandi. Framlögin til mannúðaraðstoðar skiptast á milli borgarasamtaka, 175 milljónir króna og alþjóðastofnana, 595 milljónir króna.

Utanríkisráðuneytið veitir árlega styrki til íslenskra borgarasamtaka sem starfa á sviði mannúðaraðstoðar. Mannúðaraðstoð felur í sér björgun mannslífa, vernd óbreyttra borgara, útvegun nauðþurfta og annarrar aðstoðar sem auðveldar afturhvarf til eðlilegs lífs í kjölfar hamfara og átaka. Íslensk stjórnvöld reiða sig meðal annars á borgarasamtök til að koma mannúðaraðstoð sinni til skila og er styrkjum vegna mannúðaraðstoðar ætlað að svara alþjóðlegum neyðarköllum allt árið um kring.

Í júní var tæpum 90 milljónum króna veitt sérstaklega til sex verkefna til að bregðast m.a. við flóttamannastraumnum sem átökin í Sýrlandi hafa leitt af sér og í Eþíópíu og Malaví. Þar af voru 50 milljónir hluti af fyrrgreindu 500 milljón króna framlagi. Þau borgarasamtök sem hlutu styrk voru Rauði kross Íslands, Barnaheill, SOS Barnaþorp og Hjálparstarf kirkjunnar.

Í nóvember var svo 85 milljónum króna úthlutað til fimm verkefna á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar, Rauða kross Íslands og SOS Barnaþorpa.  Þau varða aðstoð við flóttamenn frá Sýrlandi, mannúðaraðstoð í Sýrlandi, vegna fellibylsins Matthíasar á Haíti og flóttafólks frá Suður Súdan í Úganda. 

Meginframlög Íslands til mannúðarmála fara til stofnana SÞ sem starfa á sviði mannúðaraðstoðar. Ísland greiðir árlega almenn og eynarmerkt framlög til helstu alþjóðlegu samstarfsstofnana og sjóða á sviði mannúðarmála, m.a. til Samhæfingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir mannúðarmál (OCHA), Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF), Matvælaáætlunar SÞ (WFP), Barnahjálpar SÞ (UNICEF) og Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC). 

Þær stofnanir sem fengu framlög á líðandi ári eru; WFP, OCHA, UNICEF, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Flóttamannastofnun SÞ fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA), sérstakir neyðarsjóðir fyrir Líbanon og Sýrland (OCHA Country-Based Pooled Funds) og Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), auk ICRC. Á árinu fór stærstur hluti af framlögum í mannúðaraðstoð vegna afleiðinga átakanna í Sýrlandi. Einnig voru veitt framlög vegna jarðskjálftans í Ekvador og fellibylsins sem gekk yfir Haítí. 

Þá hefur utanríkisráðherra ákveðið að ráðstafa 52 milljónum í byrjun árs 2017 til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi.

Framlög til alþjóðastofnana nánst öll vegna Sýrlands Framlögin til alþjóðastofnana voru nánast öll vegna Sýrlands, að undanskildum 10 milljónum vegna jarðskjálftanna í Ekvador í apríl.
Framlögin skiptast á milli eftirtaldra alþjóðastofnana:

  • Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) - 325 milljónir kr.
  • Barnahjálp SÞ (UNICEF) - 55 milljónir kr.
  • Flóttamannastofnun SÞ fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA) og neyðarsjóður fyrir Líbanon og Sýrland (CBPF)  - 50 milljónir kr.
  • Matvælaaðstoð SÞ (WFP) - 50 milljónir kr.
  • Samhæfingarskrifstofa SÞ fyrir mannúðarmál (OCHA) - 45 milljónir kr.
  • Neyðarsjóður SÞ (CERF) - 35 milljónir kr.
  • Stofnun SÞ um kynjajafnréttindi og valdeflingu kvenna (UNWOMEN) - 25 milljónir kr.
  • Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) - 10 milljónir kr.

Framlög til borgarasamtaka vegna mannúðaraðstoðar 2016:

  • Rauði kross Íslands - 87,8 milljónir kr.
  • Hjálparstarf kirkjunnar - 40 milljónir kr.
  • SOS Barnaþorpin á Íslandi - 27,5 milljónir kr.
  • Barnaheill (Save the Children) - 19,6 milljónir kr.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum