Hoppa yfir valmynd
18.01. 2017

Úttekt á háskólum Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Banki2Háskóli Sameinuðu þjóðanna hóf störf á Íslandi árið 1975 með það fyrir augum að styrkja samstarfið milli Sameinuðu þjóðanna (SÞ), háskóla og þeirra sem koma að vísindarannsóknum á einhvern hátt, með sérstakri áherslu á þróunarríki. Markmiðið með þessu samstarfi var að efla tengsl vísindamanna víðs vegar að úr heiminum og einnig að námið gæti nýst til þess að efla rannsóknir sem eru ofarlega á baugi SÞ, til að mynda umhverfismál og sjálfbæra þróun annars vegar og hins vegar frið og góða stjórnunarhætti. Háskólar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi eru hluti af alþjóðlegu neti háskóla Sameinuðu þjóðanna og eru nú um 16 slíkir skólar starfandi víðs vegar um heiminn í aðildarríkjum SÞ.

Á Íslandi eru fjórir skólar starfandi innan vébanda Háskóla Sameinuðu Þjóðanna (HSÞ) en þeir eru: Jarðhitaskólinn, sem hefur verið starfandi frá árinu 1979 en Orkustofnun hýsir skólan og ber rekstrarlega ábyrgð á honum, Sjávarútvegsskólinn tók til starfa árið 1998 og liggur rekstrarleg ábyrgð hans hjá Hafrannsóknarstofnum en skólinn er einnig í samstarfi við Matís auk annarra stofnanna og fyrirtækja, Landgræðsluskólinn varð hluti af neti HSÞ árið 2010 og er hann samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins, Jafnréttisskólinn bættist svo síðast við árið 2013 en hafði verið tilraunaverkefni utanríkisráðuneytisins og Háskóla Íslands síðan 2009. 
Allir skólarnir bjóða upp á sex mánaða námskeið fyrir starfandi sérfræðinga frá þróunarlöndum en starfsemi skólanna er hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslendinga.

Nú fer fram óháð úttekt utanríkisráðuneytisins á háskólum Sameinuðu þjóðanna á Íslandi en í þróunarsamvinnuáætlun Íslands fyrir árin 2013-2016 er kveðið á um að slík úttekt verði framkvæmd á skólunum fjórum. Þann 19. desember síðastliðinn var skrifað undir samning þess efnis við sænska fyrirtækið Niras/Indevelop, eftir útboðsferli hjá Ríkiskaupum. Fundur með fulltrúum skólanna var haldinn í ráðuneytinu í beinu framhaldi þar sem ráðgjafar fyrirtækisins kynntu áform sín fyrir úttektina og það sem framundan er. 

Næstu skref úttektarteymisins eru svo meðal annars að heimsækja allnokkur þeirra þróunarlanda sem senda nemendur til skólanna fjögurra og taka viðtöl við fyrrverandi nemendur ásamt viðtölum við núverandi nemendur og starfólk á Íslandi. Markmið úttektarinnar er meðal annars að hún gefi af sér óháð, sjálfstætt og hlutlaust mat á háskólum Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og skoða árangur skólanna í þróunarlöndum, en einnig að hún nýtist til að styrkja ábyrgðarskyldu þegar kemur að þróunarsamvinnu og að hægt sé að draga lærdóm af því starfi sem unnið hefur verið fyrir framtíðina. Úttektarteymið mun svo birta sínar niðurstöður í lokaskýrslu í júnímánuði. 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum