Hoppa yfir valmynd
25.01. 2017

Átján nýnemar í Jafnréttisskólanum

Unugest2017Átján nemendur frá tólf þjóðríkjum eru komnir til Íslands og hafa þegar hafið nám við Jafnréttisskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) sem er fjármagnaður af utanríkisráðuneytinu sem þáttur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Nemendurnir eru allir sérfræðingar og háskólanemar sem starfa að jafnréttismálum í heimalöndum sínum.

Námið er 20 vikna diplómanám í alþjóðlegum jafnréttisfræðum þar sem sérstök áhersla er lögð á þverfaglega, fræðilega og hagnýta þekkingu, allt frá verkefnastjórnun til kynjaðrar hagstjórnar.

Nemendur átján koma frá eftirtöldum tólf löndum: Eþíópíu, Malaví, Mósambík, Palestínu, Líbanon, Úganda, Írak, Afganistan, Sómalíu, Nígeríu, Jamaíku og Túnis.

Jafnrétti og valdefling kvenna
Markmið Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna er að stuðla að jafnrétti og valdeflingu kvenna með menntun, námskeiðum og rannsóknum í fátækari ríkjum og á átakasvæðum. Starfið byggir á þeirri forsendu að jafnrétti kynjanna sé grundvallarmannréttindi og skilyrði fyrir sjálfbærni samfélaga. Jafnréttisskólinn rekur 20 vikna diplómanám (30 ECTS) í alþjóðlegum jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands á hverju vormisseri. Sérstök áhersla er á þverfaglega, fræðilega og hagnýta þekkingu allt frá verkefnastjórnun til kynjaðrar hagstjórnar. Í náminu er lögð áhersla á að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna í samhengi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Einnig er lögð áhersla á jafnréttis­sjónarmið við friðaruppbyggingu í samræmi við ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Loks er sjónum beint að samþættingu kynjasjónarmiða í umhverfismálum og við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.

Nemendahópur Jafnréttisskólans er sá stærsti fram að þessu, en alls hafa 68 nemendur útskrifast úr skólanum. Frekari upplýsingar um Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna er að finna á vef skólans.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum