Hoppa yfir valmynd
25.01. 2017

Heimsmarkmiðin - hnattrænn samfélagssáttmáli

Nú er rúmt ár liðið síðan Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun voru sett. Leiðtogar ríkja heims samþykktu árið 2015 á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 17 markmið sem stefna skuli að því að ná  árið 2030. 
Heimsmarkmiðin gilda frá 2016 og leysa af hólmi Þúsaldarmarkmiðin sem unnið var að tímabilið 2000-2015. Þúsaldarmarkmiðin kváðu m.a. á um að draga um helming úr sárri fátækt í heiminum - sem reyndar tókst. Heimsmarkmiðin eru mun víðtækari en Þúsaldarmarkmiðin og beinast að öllum ríkjum, ekki bara þeim fátækari. Heimsmarkmiðin 17  samanstanda af 169 undirmarkmiðum með tilheyrandi mælikvörðum sem nota á til að mæla stöðuna á hverjum tíma. Áhersla er lögð á efnahags-, umhverfis- og félagslegar stoðir sjálfbærrar þróunar og útgangspunkturinn er að markmiðin nái til allra og skilji engann eftir.

Skuldbinding

Nýlunda er að leiðtogar allra ríkja heims setji sér svo áþreifanleg sameiginleg markmið um þróun á heimsvísu. Þeir hafa skuldbundið sig til að fylkja sér á bak við Heimsmarkmiðin og bera ábyrgð á innleiðingu þeirra í sameiningu. Aðdragandinn hefur vissulega verið langur, fjöldi sáttmála og samkomulaga sem undirrituð hafa verið á vettvangi S.þ. í gegnum tíðina og sýna vaxandi áhyggjur af stöðu margra málefna sem varða okkur öll og komandi kynslóðir. En jafnframt endurspegla markmiðin vilja til og trú á að með sameiginlegu átaki takist að ráða bót á helstu úrlausnarefnum og gera heiminn betri. Það má því líta á þau sem einskonar hnattrænan samfélagssáttmála.
Heimsmarkmiðin markast af þeim tækifærum og áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir núna. Eitt af því sem einkennir samtíma okkar eru margofin tengsl fólks um víða veröld og upplýsingaflæði sem er öflugra og víðtækara en nokkru sinni fyrr. Upplýsingar æða með áður óþekktum hraða og styrk vítt og breitt um heiminn án mikillar fyristöðu. Heimssamfélagið er þannig samofnara en áður og möguleikarnir fyrir sameiginleg verkefni því miklir en hættumerkin eru líka mörg.

Brothætt ástand

Sá málaflokkur sem hvað augljósast er að snýr að okkur öllum eru umhverfis- og loftslagsmálin. Ástandið er brothætt, við höfum þegar farið yfir eða erum nálægt hættumörkum á mörgum sviðum. Flestir eru sammála um að nauðsynlegt sé að endurskoða hvernig við umgöngumst jörðina og hvert annað og hvernig við skilum búinu til næstu kynslóða. Vissulega eru mörg þeirra málefna sem fást þarf við flókin og erfið en við höfum tæpast nokkuð val ef við ætlum okkur að stuðla að jafnvægi á jörðinni og leitast við að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar sem skaða umhverfið. 

Raunhæf?

Spyrja má hvort Heimsmarkmiðin séu raunhæf. Fyrsta markmiðið segir að vinna skuli bug á fátækt í heiminum fyrir árið 2030. Það er sannarlega stór áskorun, því fátækt í einu eða öðru formi finnst um allan heim, en samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðabankanum búa um 13% jarðarbúa við sárafátækt, þ.e.a.s. þeir sem hafa til lífsviðurværis undir 1,9 dollara á dag. Fátækt hefur reyndar verið að minnka hlutfallslega á undanförnum áratugum, einkum í austanverðri Asíu. Á sama tíma hafa heildarauðæfi í heiminum aukist gríðarlega. Svarið snýst því um hvernig við deilum auðæfunum með okkur en ekki um það hvort nóg sé fyrir alla. Fyrir liggur að viðvarandi fátækt og misskipting eru ein helstu merki um skort á sjálfbærri þróun. Það ætti því að vera raunhæft að ná meiri árangri í baráttunni gegn fátækt og samstaða um það þvert á landamæri hlýtur að vera svarið.

Ísland og heimsmarkmiðin

Heimsmarkmiðin voru samþykkt af íslenskum stjórnvöldum rétt eins og öðrum aðildarríkjum S.þ. Þau beinast bæði að innanlandsstarfi og því hvað Íslendingar gera á alþjóðavettvangi og í þróunarsamvinnu. Hafist hefur verið handa í stjórnarráðinu við að meta stöðuna á Íslandi gagnvart markmiðunum og leiða forsætis- og utanríkisráðuneytið þá vinnu. Von er á fyrstu greiningarskýrslunni á næstunni um hvernig staðan er hér á landi gagnvart hverju markmiði. Markmiðin ná þó ekki aðeins til aðgerða stjórnvalda. Það þurfa allir að leggjast á árarnar, þar með talið atvinnulífið, borgaralegt samfélag, menntastofnanir og aðrir. Eigi markmiðin að nást þarf að vinna hratt og skipulega að því að innleiða þau. Fylgst er með stöðunni og því hvernig Ísland tekst á við þetta verkefni, bæði heima fyrir og erlendis. Heimsmarkmiðin kalla á að upplýsingaöflun og upplýsingagjöf, greiningarstarf, áætlanagerð og eftirfylgni sem byggist á faglegum og gagnsæjum vinnubrögðum. Það er því til mikils að vinna fyrir íslenskt samfélag að takast á við verkefnið af metnaði og í góðri samvinnu allra aðila.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum