Hoppa yfir valmynd
25.01. 2017

Lífsstílssjúkdómar ógna heilsufari í Afríkuríkjum í vaxandi mæli

Heilsufar í Afríkuríkjum hefur löngum mótast af smitsjúkdómum eins og malaríu, HIV/alnæmi og ebólu sem varð að faraldri í þremur ríkjum álfunnar fyrir skemmstu. Með aukinni þróun hefur tekist að draga verulega úr mörgum smitsjúkdómum í álfunni og bætt lífsskilyrði milljóna Afríkubúa hafa meðal annars verið staðfest með tölum um auknar lífslíkur, umfram það sem áunnist hefur með minni barnadauða.

Annars konar heilsufarsógn er yfirvofandi. Líkt og aðrar þjóðir taka íbúar Afríku upp lifnaðarhætti og lífsstíl sem ógnar heilsufari. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) birti nýverið skýrslu um helstu áhættuþætti í heilsufari Afríkubúa sem ekki tengjast smitsjúkdómum. Þar segir að flestir fullorðinna í Afríku hafi að minnsta kosti einn af þeim fimm hættulegustu en þeir eru: reykingar, óhollt mataræði, hreyfingarleysi, þyngdaraukning og hár blóðþrýstingur. Samkvæmt rannsókn WHO eru að minnsta kosti fjórðungur íbúa Afríku með þrjá af þessum fimm áhættuþáttum, en rannsóknin náði til 33 landa.

Mikil aukning

Á næstu tíu árum munu lífsstílssjúkdómar verða 44 milljónum einstaklinga að aldurtila á heimsvísu. Það er aukning um 15% frá árinu 2010, sú mesta í sögunni. Í Afríku vera slíkir sjúkdómar banamein 3,9 milljóna manna árið 2020, að mati WHO. Tíu árum síðar, árið 2030, er talið að lífsstílssjúkdómar leiði til flestra dauðsfalla í álfunni.
Dr. Matshidiso Moeti svæðisstjóri WHO í Afríku bendir á að í gildandi heilbrigðisstefnum flestra ríkja sé áherslan á viðbrögð við farsóttum en mikilvægt sé í stefnumótun í heilbrigðismálum að huga að viðnámi við lífsstílssjúkdómum, með annars vegar með betri lifnaðarháttum og hins vegar með breyttri hegðan.

Report on the Status of Major Health Risk Factors for Noncommunicable Diseases/ WHO
We can improve health systems in Africa - Dr Matshidiso Moeti/ SouthernAfrican
Strengthen African health systems to help achieve SDGs/ SciDev
Lifestyle diseases pose new burden for Africa/ UN


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum