Hoppa yfir valmynd
25.01. 2017

Palestínuflóttamenn: UNRWA metur þörfina í ár á rúmlega 46 milljarða króna

ABEER, 13 - #ImagineaSchool Flóttamannastofnun SÞ fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA) metur fjárhagslegu þörfina á þessu ári fyrir stuðning við palestínska flóttamenn vegna Sýrlandsstríðsins vera 411 milljónir bandarískra dala sem jafngildir rúmlega 46 milljörðum íslenskra króna. Talsmenn UNRWA gáfu opinberlega út ofangreinda fjárhæð á tveggja daga ráðstefnu sem hófst í gær í Helsinki en á ráðstefnunni er fjallað um stöðu mannúðarmála vegna átakanna í Sýrlandi. 

Samkvæmt frétt frá UNRWA er stuðningur og þjónusta við Palestínuflóttamenn meginverkefni stofnunarinnar. Á síðasta ári varð ekkert lát á hernaðinum í Sýrlandi með enn frekara mannfalli óbreyttra borgara og eyðileggingu. Af þeim 450 þúsund Palestínuflóttamönnum sem eru enn eftir í Sýrlandi eru 95% - 430 þúsund manns - á vonarvöl og þurfa nauðsynlega á mannúðaraðstoð að halda til að lifa.

Um 280 þúsund þessara flóttamanna eru á vergangi innan Sýrlands og talið er 43 þúsund þeirra séu lokaðir inni á stöðum þar sem óhægt er um vik að koma til þeirra vistum.

Fram kemur í frétt UNRWA að rúmlega 120 þúsundir Palestínumanna hafi flúið Sýrland, þar af eru 31 þúsund flóttamenn í Líbanon og 16 þúsund í Jórdaníu.

Gagnvirk heimildamynd frá UNICEF

MAKING OF #ImagineaSchool Í aðdraganda Helsinkifundarins gaf Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) út gagnvirka heimildamynd með frásögnum nítján barna sem búa í flóttamannabúðum í Líbanon. Frásagnirnar fjalla um þá erfiðleika sem blasa við börnunum í tengslum við menntun, #ImagineaSchool, og viðtölin við börnin eru tekin af Héðni Halldórssyni upplýsingafulltrúa UNICEF í Líbonon. 

Nánar verður fjallað um fundinn í Helsinki í Heimsljósi að viku liðinni.

Ímyndið ykkur skóla/ Mbl.is
UNRWA Commissioner-General to Tell Helsinki Conference "Don't Forget Over Half a Million Palestinians from Syria"/ UNRWA
Syrian child refugees struggle to get an education: U.N./ Reuters



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum