Hoppa yfir valmynd
01.02. 2017

Aðgerðaáætlun SÞ fyrir Sýrland og nágrannaríkin

SyriarefugeesFinnsk stjórnvöld og Sameinuðu þjóðirnar boðuðu á dögunum til fundar í Helsinki þar sem aðgerðaáætlun um mannúðaraðstoð í nágrannaríkjum Sýrlands var kynnt, eins og fram í síðasta Heimsljósi. Fulltrúar nágrannaríkjanna og framlagsríkja - þar á meðal Íslands - og yfirmenn helstu undirstofnana SÞ sem vinna að mannúðarmálum sóttu fundinn.

Sameinuðu þjóðirnar gera tvær aðskildar aðgerðaáætlanir um mannúðaraðstoð fyrir Sýrland og nágrannaríki þess. Áætlunin fyrir Sýrland nefnist á ensku Syria Humanitarian Response Plan (HRP) og áætlunin um aðstoð vegna flóttamannavandans í nágrannaríkjum Sýrlands nefnist á ensku Regional Refugee and Resilience Plan (3RP). Áætlunin fyrir Sýrland var ekki opinberlega kynnt í Helsinki, þar sem beðið er samþykki stjórnvalda í Sýrlandi.

HRP aðgerðaáætlunin fyrir Sýrland gerir ráð fyrir að veita 13,5 milljónum Sýrlendinga innan landamæranna aðstoð en af þeim eru  4,6 milljónir á svæðum sem erfitt er að ná til, þ.m.t. svæðum undir yfirráðum íslamska ríkisins, og um 700 þúsund íbúar búa á umkringdum/lokuðum svæðum, m.a. svæðum í borgunum Aleppó, Idlib og Damaskus. Rúmlega 3,4 milljarða Bandaríkjadala þarf til að fjármagna alla áætlunina innan Sýrlands, þar af rúmlega 1,3 milljarða vegna matvælaaðstoðar, sem er langumfangsmesti málaflokkurinn.

86% undir fátæktarmörkum

Til marks um stærð vandans meðal íbúanna innan Sýrlands áætla Sameinuðu þjóðirnar að 86% landsmanna séu undir fátæktarmörkum, atvinnuleysi sé 57% og ekki minna en 7 milljónir þurfa á matvælaaðstoð að halda. Tæpar tvær milljónir skólabarna geta ekki sótt skóla og tæpar 13 milljónir þurfa aðstoð við heilbrigðisþjónustu eða lyf. Hjálparstarfi á svæðinu er gert erfiðara um vik þegar aðgengi SÞ og hjálparsamtaka er síendurtekið hindrað af bæði stjórnvöldum og uppreisnarmönnum.

Flóttamannastraumurinn til nágrannaríkjanna hefur haft gríðarlegar afleiðingar á samfélag og efnahag þeirra. Í Helsinki var kynnt aðgerðaáætlun SÞ (3RP) fyrir nágrannaríkin Líbanon, Tyrklandi, Jórdaníu, Írak og Egyptalandi. Áætlunin samþættir aðgerðir 240 samstarfsaðila en þar á meðal eru undirstofnanir SÞ, borgarasamtök, opinberir aðilar og aðrir aðilar sem veita mannúðaraðstoð. Áætlunin gerir ráð fyrir að ná til 9,3 milljóna manna sem þurfa á aðstoð að halda í nágrannaríkjunum, 4,8 milljónir eru sýrlenskt flóttafólk og 4,4 milljónir eru íbúar gistiríkjanna sem þurfa aðstoð vegna flóttamannavandans.

Tæplega 4,7 milljarða Bandaríkjadala þarf til að fjármagna 3RP áætlunina fyrir nágrannaríkin á árinu 2017: 2,6 milljarða til neyðaraðstoðar fyrir flóttafólk og 2,1 milljarða til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum af átökunum í Sýrlandi og flóttamannastraumnum. Sex árum eftir að átökin í Sýrlandi hófust, hafa áhrifin einungis aukist og staða bæði flóttafólksins og íbúa gistiríkjanna hefur stöðugt versnað. Aðgerðaáætlunina fyrir nágrannaríkin og frekari upplýsingar um hana má nálgast hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum