Hoppa yfir valmynd
02.02. 2017

Guterres hrósar Afríkuríkjum fyrir að hafa landamæri opin fyrir flóttafólk

Ssudan2António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hrósar Afríkuríkjum fyrir að opna landamæri sín fyrir flóttafólki og öðrum sem flýja ofbeldi á sama tíma og skellt er í lás og byggðir múrar í öðrum heimshlutum, þar á meðal í þróuðum ríkjum Vesturlanda.

Guterres lét þessi orð falla á mánudag í Addis Ababa þar sem tugir þjóðarleiðtoga Afríkuríkja eru saman komnir á leiðtogafundi Afríkusambandsins, að því er fram kemur í  frétt  frá AP.

"Afríkuþjóðir eru meðal þeirra þjóða í heiminum sem taka við flestum flóttamönnum og sýna mestu gestrisni," sagði Guteeres en hann sækir leiðtogafundinn í Eþíópíu í fyrsta sinn sem yfirmaður Sameinuðu þjóðanna. "Landamæri Afríkuþjóða standa opin fyrir þá sem þurfa á vernd að halda á sama tíma og mörgum landamærum hefur verið lokað, jafnvel meðal þróuðustu þjóða í heiminum."  

Fram kemur í fréttinni að Guterres hafi ekki með beinum hætti vísað í tilskipun Bandaríkjaforseta um byggingu múrs á landamærunum við Mexíkó né ferðabannsins gegn fólki frá sjö múslimaríkjum, þeirra á meðal þremur í Afríku. Ummælunum var hins vegar afar vel tekið af þeim 2,500 þátttakendum sem sóttu leiðtogafundinum.

Rúmlega fjórðungur allra flóttamanna í Afríku

Á blaðamannafundi kvaðst Guterres vonast til þess að ferðabannið til Bandaríkjanna yrði aðeins tímabundið. "Það er alveg ljóst í mínum huga að vernd flóttamanna er eitthvað sem er algerlega ómissandi... og  það er löng hefð í Bandaríkjunum fyrir flóttamannavernd."  

Fjölmennustu flóttamannabúðir í heiminum eru  í Dadaab í Kenía með álíka marga íbúa og á öllu Íslandi, rúmlega 300 þúsund manns, flestir frá nágrannaríkinu Sómalíu. Í sunnanverðri Afríku eru rúmlega 18 milljónir flóttamanna eða um 26% allra flóttamanna í heiminum, samkvæmt tölum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Flestir þeirra hafa flúið átök í Sómalíu, Miðafríkulýðveldinu, Nígeríu, Suður-Súdan og Búrúndí.   Á leiðtogafundinum í Addis var Moussa Faki Mahamat utanríkisráðherra Tjad kjörinn yfirmaður framkvæmdastjórnar Afríkusambandsins. Hann tekur við af Nkosazana Dlami-Zuma frá Suður-Afríku.

Forseti Gíneu, Alpha Conde, hefur tekið við sem forseti Afríkusambandsins af Idris Deby, forseta Tjad. Beiðni Marokkó um aðild að sambandinu var samþykkt á fundinum í Addis.

Africa most affected by refugee crisis/ AfricaRenewal

Chad's Moussa Faki Mahamat elected AU Commission chair/ GGA
African Union Expresses Concern About US Immigration Ban/ VOA

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum