Hoppa yfir valmynd
02.02. 2017

Neyðarsjóður SÞ fær 12 milljarða króna til að rétta 6 milljónum hjálparhönd

"Neyðarsjóðurinn er líflína fyrir fólk sem lendir í hremmingum sem vekja litla eftirtekt þótt neyðin sé jafn mikil," sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á mánudag þegar hann afhenti Neyðarsjóði samtakanna (CERF) 100 milljónir bandarískra dala - um 12 milljarða íslenskra króna - sem ráðstafað verður til stuðnings sex milljónum manna á átakasvæðum í níu löndum.  

Um er að ræða átakasvæði sem jafnan fer lítið fyrir í opinberri umræðu og CERF vísar einfaldlega til sem vanrækta neyð.
Mannleg þjáning á þessum svæðum er yfirþyrmandi en fjárhagslegur stuðningur við fólk af skornum skammti. Neyðarsjóðurinn mun ráðstafa umræddu fjármagni til sex milljóna manna í Nígeríu, Kamerún, Níger, Úganda, Líbíu, Malí, Sómalíu, Madagaskar og Norður-Kóreu.

Tvisvar á ári fær Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna fjármagn sem sérstaklega er ætlað að fjármagna bráðnauðsynlega aðstoð við fólk á átakasvæðum sem býr við mikla neyð og fær minnstan stuðning. Af hálfu samræmingarstjóra Sameinuðu þjóðanna um neyðaraðstoð er metið á hvaða átakasvæðum brýnast er að veita aðstoð og byggir það mat á nákvæmri greiningu og samráði við ýmsa aðila.

Af þeim sex milljónum manna sem koma til með að njóta stuðnings Neyðarsjóðs SÞ á næstunni eru langflestir í löndunum þar sem vígasveitir Boko Haram hafa hrellt íbúana, þ.e. í Nígeríu, Kamerún og Níger en þúsundir flóttamanna í Úganda, Líbíu og Sómalíu fá einnig stuðning með fjárframlaginu.

Neyðarsjóður SÞ, CERF (Central Emergency Response Fund), var stofnaður 2006 til að gera SÞ kleift að bregðast annars vegar hraðar við neyðarástandi og hins vegar til að veita nauðsynlega aðstoð til mannúðarverkefna sem ná minni athygli umheimsins eða hafa ekki náð að laða að sér nægt fjármagn frá framlagsríkjum. Nefna má sem dæmi um viðbragðsgetu sjóðsins að aðeins liðu tíu klukkustundir frá því jarðskjálfti skall á Haítí árið 2010 þangað til sjóðurinn var búinn að veita fyrstu greiðslu til neyðaraðstoðar þar. Af dæmum um undirfjármagnaða neyð sem sjóðurinn hefur nýlega stutt við má nefna framlög í þágu flóttamanna í Úganda, Kenía og Tansaníu vegna átaka í nágrannaríkjum, í Suður-Súdan, Kongó og Búrúndí.

Frá upphafi var markmið sjóðsins að safna 450 milljónum Bandaríkjadölum á ári til að veita í mannúðaraðstoð en markmiðið var nýlega aukið í einn milljarð dala fyrir 2018. Gífurleg aukin fjárþörf til mannúðarmála kallar á þá hækkun.

35 milljónir frá Íslandi á síðasta ári
Frá upphafi hafa helstu framlagsríki CERF verið Norðurlöndin, Bretland, Holland, Kanada, Belgía og Írland. Ísland hefur veitt framlög til sjóðsins frá upphafi. Á síðasta ári nam framlag Íslands til CERF 35 milljónum króna.  

2017 UNDERFUNDED EMERGENCIES

UN's Global Emergency Response Fund releases US$100 million for the world's most neglected crises

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum