Hoppa yfir valmynd
02.02. 2017

Þrjátíu sæta fall Mósambíkur á spillingarlista

CPI_regional_maps_white_SSA_copyFyrir örfáum dögum birti Transparency International - Alþjóðagegnsæis-samtökin - spillingarlista sinn fyrir 2016. Listinn sýnir allflest lönd heims og er huglægur mælikvarði á spillingu. Huglægur, því hann byggir á skoðanakönnunum þar sem fólk, og forsvarsmenn fyrirtækja og stofnana, er beðið um álit á margskonar spillingu í sínu landi. Einhvers konar upplifunar- eða skynjunarmæling. Hæsta gildið á kvarðanum er 100 - engin spilling - og lægsta gildið er 0 - algjört spillingarbæli. 

Mósambík hefur alltaf verið frekar neðarlega á listanum. Síðustu 4-5 ár hefur landið fengið annað hvort 30 eða 31 stig á spillingarkvarðanum. Spilling í landinu hefur verið álitin margskonar, t.d. svokölluð stórtæk spilling þar sem háttsettir embættis- og stjórnmálamenn hafa sankað að sér fúlgum fjár, iðulega með svindli í opinberum innkaupum. Svo er ýmisleg skriffinnskuspilling þar sem skriffinnar og möppudýr misnota aðstöðu sína og heimta peninga, mútur, fyrir að vinna vinnuna sína. Lögreglan er illa liðin af almenningi, en hún sektar fólk fyrir allskonar, t.d. að hafa olnbogann út um bílgluggann. Síðan eru allskonar vinargreiðar í gangi og þá skiptir máli að þekkja rétta fólkið. 

Miðað við önnur lönd var Mósambík í 119. sæti á listanum 2013 og hafði mjakast upp í 112. sæti 2015. En á nýútgefna listanum fyrir síðasta ár þá hrapar Mósambík um heil 30 sæti og situr nú í 142. sæti. 

Meginástæðan fyrir hrapinu er án efa sú að á síðastliðnu ári hafa komið í ljós gríðarleg spillingarmál fyrri ríkisstjórnar og forseta. Upphæðirnar sem um ræðir eru þvílíkar að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa lýst því yfir að þeir hafi aldrei séð annað eins. Í stuttu máli voru ríkisábyrgðir veittar á lán þriggja einkafyrirtækja, ábyrgðir fyrir samtals um 2,2 milljörðum bandaríkjadala. Í okkar ástkæru krónum eru þessar ábyrgðir einhvers staðar á bilinu 250-300 milljarðar. Ekkert er vitað um hvert stærsti hluti þessara lána fór. Mósambíska þingið veitti ekki heimild fyrir ríkisábyrgðum og var lánunum haldið leyndum í á annað ár. Nú standa stjórnvöld frammi fyrir þeim veruleika að þurfa að borga og hefur ríkissjóður engin tök á því. Stjórnvöld hafa lýst yfir að þau geti ekki staðið skil á afborgunum og vilja endursemja við lánadrottna. Enginn veit hvernig þetta mun enda. 

Út af þessu máli álíta fræðingar að fólk meti spillingu meiri en áður og það skýrir þetta 30 sæta fall. 

Áleitin spurning er, hins vegar, hvort eitthvað raunverulegt hafi breyst frá síðustu mælingum. Nú veit fólk meira en áður. Ekki leikur efi á að þessi lán, sem eru kölluð leynilánin, hafa svift stjórnvöldum öllum trúverðugleika og því er ekki undarlegt að huglæg mæling á spillingu taki stórt stökk til hins verra. En hvort spillingin sé í alvöru verri, veit ég hins vegar ekki.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum