Hoppa yfir valmynd
09.02. 2017

Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna kemur bágstöddum til bjargar

https://youtu.be/zXcawTuSrbc Á nýjum lista breska utanríkisráðuneytisins er Malí í níunda sæti yfir hættulegustu lönd heimsins. Í umsögn segir að þar sé gríðarleg hryðjuverkaógn og hætta á mannránum, einkum í norðurhluta landsins, þótt ógnin sé raunar hvarvetna í landinu. Malí er eitt af þeim "gleymdu" átakasvæðum heims sem Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna (CERF) ætlar að veita mannúðaraðstoð á þessu ári.

Samkvæmt áætlun sjóðsins fara 7 milljónir bandarískra dala - rúmlega 800 milljónir íslenskra króna -  til nauðstaddra í Malí en þeir búa einkum í mið- og norðanverðu landinu. Talið er að 3,7 milljónir manna þurfi á mannúðaraðstoð að halda á þessu ári. Af rúmlega 3,5 milljónum sem þurfa matvælaaðstoð eru tæplega hálf milljón manna við hungurmörk. Þá er 442 þúsund börn yngri en fimm ára alvarlega vannærð, að mati CERF.
Stuðningur CERF mun einkum beinast að því að mæta þörfum 40 þúsund nauðstaddra íbúa á svæðum þar sem átök og ofbeldi eru daglegt brauð. Ætlunin er að ná til samfélaga þar sem matvælaóöryggi er mikið, vannæring algeng og þar sem fólk fær ekki grunnþjónustu, skjól og vernd. Sérstaklega munu bágstaddir í Timbuktu, Gao, Ménaka, Kidal, Mopti og Ségou njóta aðstoðarinnar.

Starfsmenn hjálparsamtaka eru fráleitt óhultir á þessum slóðum. Vopnaðar vígasveitir hafa bæði stolið bílum og búnaði en einnig ráðist gegn fólki. Í byrjun árs var starfsmaður hjálparsamtaka drepinn af í Gao og vígasveitir AQIM tóku hjálparstarfsmann í gíslingu í Gao á aðfangadag jóla sem er enn í haldi mannræningjanna. Ljóst er að hryðjuverkaógn og ofbeldisverk hamla hjálparstarfi á þessum slóðum, sérstaklega í Sikasso héraði.

Eins og margir muna náðist friðarsamkomulag milli stríðandi fylkinga sumarið 2015 en þá hafði borgarastríð staðið yfir á þriðja ár með mannskæðum átökum í Malí. Upphafið má rekja til sjálfstæðisbaráttu Tuareg fólksins í héraði sem það kallar Azawad og nær meðal annars til Kidal, Gao og Timbuktu.   Friðarsamkomulagið heldur tæpast nema að nafninu til og ofbeldisverk eru algeng. Þannig féllu á tveimur mánuðum síðastliðið sumar rúmlega 70 manns í ýmsum átökum og árásum í norðanverðu landinu.

Ofbeldisverkin í Malí ná hins vegar sjaldnast inn í fréttir fjölmiðla og þess vegna er Malí á listanum hjá Neyðarsjóði Sameinuðu þjóðanna (CERF)  og fær hluta af þeim 100 milljónum dala sem sérstaklega eru ætlaðir "gleymdum" átakasvæðum á þessu ári.

Underfunded crisis - MALI/ CERF
Yfirlit yfir stjórnmálaástand og öryggismál/ ACAPS
Yfirlit yfir stöðu mannúðarmála/ ACAPS
New Law a Glimmer of Hope for Women's Land Rights in Mali/ VOA
Malí/Globalis.is

Mali: Human Right Report 2017/ HRW



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum