Hoppa yfir valmynd
09.02. 2017

"UN Delivering As One"

https://vimeo.com/54472724 Hugmyndin að UN Delivering As One eða One UN, eins og það er einnig kallað, varð til árið 2006 í kjölfar pallborðsumræðna nefndar hátt settra embættismanna um aukið samræmi innan Sameinuðu þjóða kerfisins. Pallborðsumræðurnar voru að frumkvæði aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á  þeim tíma, Kofi Annan, í samræmi við niðurstöður lokaskýrslu leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna árið 2005. Í skýrslunni ályktaði Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um mikilvægi kerfislægra breytinga og aukinnar samhæfingar til að styrkja hæfni Sameinuðu þjóðanna til að bregðast við áskorunum 21. aldarinnar.

Niðurstöðurnar sýndu að þörf var á heildrænni stjórnun á sviði þróunar, mannúðaraðstoðar og umhverfismála og var ráðlagt að Sameinuðu þjóðirnar ættu að vinna sem ein heild í hverju landi, með einn leiðtoga, eina áætlun, eina fjárhagsáætlun og eina skrifstofu. Átta lönd lýstu yfir áhuga á að prófa verkefnið: Albanía, Grænhöfðaeyjar, Mósambík, Pakistan, Rúanda, Tansanía, Úrúgvæ og Víetnam og lauk tilraunaferlinu árið 2012 með óháðri úttekt á verkefninu.

Löndin átta samþykktu að vinna með Sameinuðu þjóðunum að því að færa í nyt styrkleika og hlutfallslega yfirburði einstakra Sameinuðu þjóða stofnana og í sameiningu var reynt að komast að því hvernig auka mætti áhrif stofnana og minnka kostnað með því að auka samhæfingu. Niðurstöðurnar sýndu fram á góðan árangur, hagkvæmni og góða aðlögun í ólíkum löndum og safnaðist dýrmæt reynsla og lærdómur í hverju landi. UN Delivering as One var í kjölfarið viðkennt af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna sem vel ígrunduð nálgun og árangursríkt viðskiptamódel.

Í kjölfar úttektarinnar árið 2012 voru þróaðar staðlaðar verklagsreglur (e.Standard Operative Procedures) byggðar á reynslu landanna átta sem eiga að aðstoða önnur lönd við innleiðinguna á UN Delivering As One. Í verklagsreglunum má meðal annars finna ráðleggingar um sameiginlegan útgjaldaramma stofnana Sameinuðu þjóðanna á landsgrundvelli, m.a. til að auka gagnsæi, yfirsýn og kostnaðarhagkvæmni.

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem starfa á sviði þróunarsamvinnu eru margar og sérhæfðar og hver og ein samanstendur af einstakri samsetningu hæfileika, sérhæfingar og samstarfsaðila. One UN leitast við að samræma störf ólíkra stofnana SÞ og straumlínulaga verkferla til að koma í veg fyrir tvíverknað og hámarka afköst mannauðs og fjármagns í þeim tilgangi að hámarka heildarárangur á sviði þróunar. Lykillinn að góðum árangri er náið samstarf Sameinuðu þjóðanna við stjórnvöld og aðra innlenda aðila og sterkt eignarhald stjórnvalda í markmiðasetningu er einnig mjög mikilvægt. 

Sameiningarhlutverk Sameinuðu þjóðanna í UN Delivering As One nálguninni auðveldar aðgengi allra viðeigandi hagsmunaaðila að samstarfinu og eykur samhæfingu milli hefðbundinna stofnana Sameinuðu þjóðanna, sérhæfðari stofnana, borgarasamtaka og stofnana Sameinuðu þjóðanna sem starfa í löndunum. Með því að sameina sérþekkingu stofnananna og setja á laggirnar sameiginlega aðgerðaráætlun þar sem stjórnvöld og sveitarfélög, borgarasamtök, samfélög og einkageirinn vinna öll saman að sameiginlegu markmiði og tala einni röddu eru lönd betur undir það búin að takast á við margþætt og flókin forgangsverkefni. Það hefur sýnt sig að leiðtogahæfileikar og reynsla stjórnanda samræmingasskrifstofu hvers lands geta skipt sköpum þegar kemur að árangi One UN þar sem um er að ræða samhæfingu marga ólíkra aðila með mismunandi markmið og áherslur.   

Í dag er UN Delivering as One orðinn mikilvægur partur af umbótaferli Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega á sviði þróunarsamvinnu, sem eykur gagnsæi og fyrirsjáanleika í kerfinu. Framkvæmd hinna metnaðarfullu Heimsmarkmiða krefst sameiginlegs og þverfaglegs átaks fjölda aðila og er One UN nálgunin því mjög viðeigandi í því samhengi. 

Fjölmörg lönd hafa bæst í hóp One UN landa, í september 2016 höfðu 55 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna óskað opinberlega eftir því að Sameinuðu þjóðirnar innleiði UN Delivering As One nálgunina í sínu landi og enn fleiri lönd hafa innleitt aðferðafræði One UN að einhverju leyti. Langstærstur hluti One UN landa halda því fram að nálgunin hjálpi Sameinuðu þjóðunum við að skilgreina betur forgangsröðun og þarfir landanna á sviði þróunar og mörg lönd hafa einnig lýst því yfir að nálgunin auðveldi samskipti og samvinnu stjórnvalda við Sameinuðu þjóðirnar. Reynslan sýnir að þó að enn séu einhverjir flöskuhálsar til staðar og enn sé verið að læra af reynslu nálgunarinnar, sé One UN vel til þess fallið að auka heildaráhrif Sameinuðu þjóðanna á sviði þróunar. 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum