Hoppa yfir valmynd
15.02. 2017

Brýnt að gera borgir í sunnanverðri Afríku aðlaðandi fyrir fjárfesta

https://youtu.be/PtT2RA4sDMA Borgir í sunnanverðri Afríku eru fjölmennar, ótengdar og kostnaðarsamar, segir í nýrri skýrslu Alþjóðabankans sem ber yfirskriftina: Africa´s Cities: Opening Doors to the World.

Í þéttbýliskjörnum í þessum heimshluta búa 472 milljónir manna en samkvæmt mannfjöldaspám er reiknað með að þeir verði tvöfalt fleiri eftir aldarfjórðung. Eins og nafn skýrslunnar gefur til kynna er það álit sérfræðinga bankans að borgirnar geti stuðlað að vexti og "opnað dyrnar" að alþjóðamörkuðum svo fremi að þeim sé vel stjórnað.

Borgarsamfélög í Afríku sunnan Sahara geta orðið uppspretta kröftugra breytinga sem geta aukið framleiðni og efnahagslega samþættingu, segir í skýrslunni. Þar segir að borgir geti stuðlað að vexti og þannig "opnað dyr" alþjóðamarkaða með tvennum hætti, annars vegar með því að skapa aðlaðandi umhverfi alþjóðlegra fjárfesta og hins vegar með því að gæta þess að afstýra hækkun kostnaðar þótt íbúum fjölgi.

Borgir í þessum heimshluta eru að mati skýrsluhöfunda einhverjar þær dýrustu í heiminum fyrir viðskiptalífið, miðað við tekjur, og verða áfram "lokaðar heiminum" nema stjórnvöld fjárfesti í innviðum þéttbýlisstaða. Að mati höfundanna eru stórborgir eins og Lagos í Nígeríu, Dar es Salaam í Tansaníu og Kampala í Úganda fremur óaðlaðandi fyrir fjárfesta og frumkvöðla, sem þýðir að innan borganna er tiltölulega lítið framboð af vöru og þjónustu til sölu á bæði alþjóða- og svæðisbundnum mörkuðum.
Productive, Livable Cities Will Open Africa's Doors to the World/ Alþjóðabankinn
African cities will remain 'closed to the world' without reform and investment, World Bank says/ Devex

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum