Hoppa yfir valmynd
15.02. 2017

Drög að stefnu UNICEF 2018-2021 kynnt á stjórnarfundi samtakanna í New York

UniceffundurStjórnarfundur UNICEF var haldinn dagana 7. og 8. febrúar í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í New York. Framkvæmdastjórn UNICEF er samansett af 36 aðildarríkjum, kjörin til þriggja ára í senn af efnhags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC). 

Úthlutun sæta í stjórninni er svæðisbundin, en lönd í Afríku fá til dæmis 8 sæti á meðan lönd í Vestur-Evrópu og líkt þenkjandi ríkja (WEOG) fá 12 sæti. Ísland átti síðast sæti í framkvæmdastjórn UNICEF 2010, en fylgist með störfum og tekur þátt í stjórninni sem áheyrnarfulltrúi.

Á fundinum voru m.a. kynnt ný drög að stefnu UNICEF 2018-2021, mat á friðartengdu menntaverkefni (PBEA), staða HIV/Alnæmis verkefnis UNICEF, niðurstöður skýrslu endurskoðenda og staða innleiðingar stofnunarinnar á árangurstengdri fjárhagsáætlun og stjórnun. Flestir dagskrárliðir voru til upplýsingar en Haítí og Botswana kynntu nýja landaáætlun, sem var samþykkt án athugasemda. 

Þá tóku til máls fulltrúar 25 landa og gerðu grein fyrir afstöðu landa sinna til nokkurra málaflokka, s.s. samþættingu og samvirkni stofnana SÞ, aukna samþættingu þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar og ákvörðun framlaga til landa. Fulltrúar nokkurra millitekjuríkja tóku til máls og töluðu fyrir því að nota í auknum mæli margvíða fátæktarvísitölu (MPI) í formúlunni sem ákvarðar framlög til landa. 

Ísland tók undir ræðu Noregs um mat á PBEA verkefninu og árangurstengdri stjórnun og fjárhagsáætlun sem og ræðu Sviss um nýja stefnumörkun UNICEF.

Hildigunnur Engilbertsdóttir, starfsmaður þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins sótti fundinn, ásamt því að sækja fundi með Fastanefnd Íslands, UNDP, UNFPA og UN Women. Hún sótti einnig heils dags vinnufund þar sem aðildarríki og áheyrnarfulltrúar fengu tækifæri til þess að hafa áhrif á nýja stefnu UNICEF.  

Fyrir áhugasama er hægt að horfa á stjórnarfundinn í heild sinni hér

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum