Hoppa yfir valmynd
15.02. 2017

Neyðarástandi lýst yfir í Kenía vegna yfirvofandi hungursneyðar

KeniathurrkarSíðustu mánuði hafa reglulega birst fréttir um alvarlegar öfgar í veðurfari í sunnanverðri Afríku, flestar tengdar langvarandi þurrkum en einnig fregnir af skyndilegu úrfelli og flóðum í framhaldinu. Í samstarfsríkjum Íslendinga í alþjóðlegri þróunarsamvinnu, Malaví, Mósambík og Úganda, eru ýmist flóð eða þurrkar en hvoru tveggja veldur spjöllum á landi og uppskerubresti.

https://youtu.be/YOB1POHVjH8 Langvarandi þurrkar í stórum hluta Kenía leiddu til þess um síðustu helgi að Uhuru Kenyatta forseti lýsti yfir neyðarástandi. Hátt í þrjár milljónir manna verða við hungurmörk að óbreyttu verði ekki brugðist við með matvælaaðstoð. Forsetinn heitir því að auka slíka aðstoð af hálfu stjórnvalda en hvetur alþjóðasamfélagið til að bregðast við og veita stuðning. Ástandið í grannríkinu, Sómalíu, er einnig mjög alvarlegt og hálf þjóðin sögð búa við uppskerubrest.  Reyndar er sömu sögu að segja um alla austanverða Afríku, þar hafa þurrkar valdið miklum búsifjum á síðustu mánuðum og Reuters fréttaveitan bendir til dæmis á það í frétt í vikunni að matvælaverð í þessum heimshluta hafi stórhækkað vegna þurrka.

Flóð í Malaví

Að sögn Ágústu Gísladóttur forstöðumanns sendiráðs Íslands í Lilongve hefur úrkoma í Malaví verið með mesta móti í ár og valdið flóðum og meðfylgjandi vandræðum í 27 héruðum. Um 22 þúsund heimili hafa orðið fyrir skaða af völdum flóða. Hún segir að eftir miklar rigningar í höfuðborginni Lilongve síðastliðinn föstudag hafi komið skyndiflóð í Lingazi ána með hörmulegum afleiðingum. Tvö skólabörn sem lentu í flóðinu á leiðinni í skólann björguðust naumlega með aðstoð þyrlu en að minnsta kosti þrír Malavar drukknuðu. Ágústa segir að aukin flóð á regntímanum á undanförnum árum séu meðal annars rakin til mikillar skógareyðingar í landinu.

Þurrkar í Úganda

Stefán Jón Hafstein forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala segir að Úgandabúar hafi gengið í gegnum erfitt þurrkaskeið undanfarna mánuði og nú sé talið að hátt í ein og hálf milljón manna glími við fæðuskort vegna uppskerubrests.  Hann segir mataraðstoð hafa hafist á afmörkuðum stöðum í norður Úganda.  Það veki miklar áhyggjur að vatnsborð stöðuvatna hafi lækkað mikið og þar með dregið úr möguleikum í að afla vatns og veita á akra. Stefán segir að enn hafi ekki verið lýst yfir neyðarástandi en ljóst sé af umfjöllun fjölmiðla að áhyggjur fari mjög vaxandi. Bregðist rigningar í mars og apríl eins og flest bendi til verði ástandið mjög alvarlegt. 


Þurkar og flóð í Mósambík

Eftir mikla þurrkatíð 2015-16 í Mósambík er aðeins að rofa til, að sögn Vilhjálms Wiium forstöðumanns sendiráðs Íslands í Mapútó. Hann segir að uppskera síðasta árs hafi brugðist á mörgum stöðum vegna þurrka og hátt í tvær milljónir manna þiggi nú mataraðstoð vegna þessa. "Eins og oft gerist hér þá er skammt stórra högga á milli. Frá því í desember hefur rignt ágætlega á mörgum stöðum í landinu. En, sumstaðar í suður- og miðhluta landsins hefur rigningin verið töluvert meiri en í meðalári og hefur valdið staðbundnum flóðum því ár hafa flætt yfir bakka sína," segir hann. Vilhjálmur nefnir að einhverjir hafi látist í flóðunum, fólk hafi þurft að flýja heimili sín, ræktarland hafi eyðilagst og skólar og heilsugæslustöðvar hafi skemmst. Þá er óttast að flóðin muni aukast á næstunni. Á sama tíma sé vatnsskortur allra syðst í landinu og allra nyrst hafi rigningin komið mun seinna en í meðalári og hafi verið lítil. Uppskerutímabilið - apríl, maí - nálgist og menn óttist að bæði þurrkar og flóð valdi slakri uppskeru í ár.

Kenya's Uhuru Kenyatta declares drought a national disaster/ BBC
For Parts Of Africa, It's Been Worst Drought In Decades: Expect More Yearly Disasters, Floods, And Diseases, Now Experts Warn
Mozambique floods: Death toll hits 44, schools closed, railway line damaged
Raging drought crisis and its mega challenges and lessons/ Nation

Uganda seeking over $14 million to feed more than a million starving people/ CGTN




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum