Hoppa yfir valmynd
15.02. 2017

Palestína sem áhersluland í þróunarsamvinnu Íslands

MariaerlapalestinaHinn 15. desember 2011 viðurkenndi Ísland Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.  Palestína hefur verið skilgreint sem áhersluland Íslands á sviði þróunarsamvinnu frá því tillaga til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands var samþykkt á Alþingi 2011.  

Stuðningurinn er í gegnum fjölþjóðastofnanir og borgarasamtök m.a  á sviði jafnréttismála og  félagslegra innviða t.d. heilbrigðis- og menntamála. Hann takmarkast ekki við landamæri Palestínu heldur tekur einnig til palestínskra flóttamanna í nágrannaríkjunum Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon. 

Í dag renna framlög Íslands m.a. til Stofnunar SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), Barnahjálpar SÞ (UNICEF), Flóttamannastofnunar SÞ fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA), Jafnréttisskóla Háskóla SÞ, Norsku flóttamannahjálparinnar (NRC) og borgarasamtaka. 

Stuðningur Íslands við jafnréttismál

Hvað varðar stuðning á sviði jafnréttismála hefur Ísland í gegnum UN Women stutt kvennaathvarfið "The Mehwar Centre" á Vesturbakkanum sem veitir fórnarlömbum ofbeldis vernd og aðstoð. Í athvarfinu fá konur og börn þeirra húsaskjól, læknisaðstoð, félagslega ráðgjöf og sálgæslu, lagalega aðstoð auk aðstoðar við að taka þátt í samfélaginu að nýju. Á hverjum tíma geta 35 konur dvalið í Mehwar. Konurnar komu frá Vesturbakkanum og meirihluti þeirra er undir 25 ára aldri.  

Þá hefur Ísland stutt verkefni á vegum UN Women sem hefur það markmið að draga úr ofbeldi gegn konum og börnum þeirra á hernumdu svæðunum m.a. með innleiðingu alþjóðlegra staðla og verklags sem byggja á virðingu fyrir mannréttindum og afnámi hvers kyns ofbeldis. Það umhverfi sem blasir við fórnarlömbum kynbundins ofbeldis í Palestínu er mjög erfitt. Lagaumhverfið er mjög flókið og ýmis atriði hafa áhrif á gang dómsmála á þessu sviði m.a. takmarkanir á ferðafrelsi bæði fórnarlamba og lögfræðinga þeirra. Í þessu umhverfi vantar sárlega marghliða stuðning við fórnarlömb kynbundins ofbeldis; lagalegan, félagslegan og efnahagslegan. 

Ísland hefur einnig stutt Palestínu á sviði jafnréttismála með því að bjóða sérfræðingum frá Palestínu að stunda nám við Jafnréttisskóla Háskóla SÞ. Frá árinu 2010 hafa tuttugu Palestínumenn, karlar og konur, hlotið þjálfun hér á landi. Sérfræðingarnir sem um ræðir starfa flestir hjá alþjóðastofnunum á borð við UNRWA eða hjá borgarasamtökum. Einnig hefur Ísland stutt borgarasamtökin Women's Centre for Legal Aid and Counselling (WCLAC) sem veitir palestínskum konum m.a. lagalega ráðgjöf. 

Stuðningur Íslands við félagslega innviði

Hvað varðar stuðning á sviði félagslegra innviða þá hefur framlag Íslands til UNICEF í Palestínu m.a. runnið til verkefnis á Gasa sem snýr að mæðra- og ungbarnavernd. Verkefnið snýst um að veita fræðslu um umönnun ungbarna og mikilvægi brjóstagjafar, meðal annars með erindum og heimsóknum heilbrigðis­starfsfólks. Mæður og aðrir fjölskyldumeðlimir fá afar mikilvæga fræðslu í umönnun nýbura og mæðranna sjálfra. Heimsóknirnar og fræðslan hefur m.a. haft þau áhrif að oft hefur verið snúið frá blandaðri fæðu brjóstamjólkur og þurrmjólkur yfir í brjóstagjöf eingöngu. Verkefnið er orðið vel þekkt á Gasa og alls staðar er vel tekið á móti heilbrigðisstarfsfólkinu og fjölskyldur ákaflega þakklátar fyrir fræðsluna og stuðninginn. Verkefnið hefur skilað árangri, tölur yfir mæðradauða eru á niðurleið á Gasa og er að hluta til hægt að þakka þessu verkefni. 

UNRWA, var komið á fót árið 1948, og veitir samkvæmt umboði SÞ, um 5 milljónum palestínskra flóttamanna félagslega aðstoð, menntun, heilbrigðisþjónustu og húsaskjól. Starfsstöðvar stofnunarinnar eru á Vesturbakkanum, á Gasa, í Líbanon, Jórdaníu og Sýrlandi. Auk beinna fjárframlaga Íslands til UNRWA hafa íslenskir sérfræðingar á vegum Íslensku friðargæslunnar verið sendir til starfa hjá stofnuninni. Átökin í Sýrlandi og langvarandi neyðarástand á Gasa hafa síðustu ár þyngt mjög róðurinn hjá stofnuninni en um hálf milljón Palestínumanna í Sýrlandi hefur flúið til Jórdaníu og Líbanon og kemur í hlut UNRWA að veita þeim brýnustu aðstoð. 

Ísland styður einnig borgarasamtökin Palestinian Medical Relief Society (PMRS) sem eru grasrótarsamtök á sviði heilbrigðismála. Frá árinu 2012 hafa íslensk stjórnvöld stutt við heilsugæslustöð og færanlega heilsugæslu PMRS í Qalqilya á Vesturbakkanum sem sinnir 100.000 íbúum, en svæðið er umlukið múrnum sem Ísrael hefur byggt og aðgengi íbúa að heilsugæslu því mjög takmarkað. 

Einnig styður Ísland skólastarf í skólum á Vesturbakkanum í gegnum NRC. Um er að ræða sérstakt átak sem NRC stendur fyrir til stuðnings við skólastarf á Vesturbakkanum þar sem mikil truflun hefur orðið vegna versnandi öryggisástands og árása á skóla á svæðinu. Framlag Íslands beinist að stuðningi við þá skóla sem verst standa og styðja við áframhaldandi kennslu og skólastarf m.a. með sérstökum sálrænum stuðningi og kennslugögnum sem tryggja að skólar hafi getu til að bregðast við því ástandi sem skapast í kjölfar árása eða annars neyðarástands sem hefur áhrif á skólahald. 

Þá hafa nokkur verkefni sem borgarasamtök á Íslandi hafa unnið að með samtökum í Palestínu hlotið stuðning m.a. á sviði heilbrigðismála.


Myndin er frá Qalqilya á Vesturbakkanum. Ljósmynd: MEM


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum