Hoppa yfir valmynd
22.02. 2017

Birtir til í Gambíu eftir langvarandi myrkur og einangrun þjóðarinnar

https://youtu.be/c6xLBUqTynA Nýr forseti er tekinn við völdum í Gambíu, minnsta ríki á meginlandi Afríku. Nýi forsetinn, Adama Barrow, var formlega settur í embætti við hátíðlega athöfn síðastliðinn laugardag við mikinn fögnuð landa sinna. Gambía er aðeins 10 þúsund ferkílómetrar að stærð, eða tæplega tíundi hluti Íslands, en telur engu að síður hartnær tvær milljónir íbúa.

Nýja forsetans bíða mörg verkefni eftir langvarandi einangrun og harðstjórn fráfarandi forseta, Yahya Jammeh, sem hrökklaðist frá völdum fyrir fáeinum vikum. Hann hafði sig ekki á brott fyrr en herir nágrannaríkja voru komnir að landamærunum og hótuðu innrás. Jammeh tapaði í forsetakosningum í desember fyrir Barrow en neitaði að yfirgefa forsetahöllina eftir rúma tvo áratugi á valdastóli. Loksins þegar hann sá sæng sína uppreidda var hann sagður hafa farið með fúlgur fjár úr landi.

Samt birtir til í Gambíu eftir langvarandi myrkur. Þjóðin er vongóð um breytingar. Einræðisherrann skilur eftir sig hagkerfi í molum, tveggja áratuga skjalfest mannréttindabrot og 40% atvinnuleysi ungs fólks. Ofan í kaupið bætast við spár um áhrif loftslagsbreytinga sem gera ráð fyrir að höfuðborgin, Banjul, hverfi í hafið á innan við hálfri öld. 

Nýja Gambía

Gambia"Nýja Gambía" var kosningaslagorð Barrows og nú bíður heimurinn eftir því að sjá hvernig og hvenær nýi forsetinn innleiðir fyrirheitin, eins og Molly Anders fréttakona Devex fréttaveitunnar orðar það í nýlegri grein. Hún segir að framlagsríki séu þegar farin að sýna Gambíu áhuga en gamli harðstjórinn lokaði á alla alþjóðlega þróunarsamvinnu á sínum tíma með þeim orðum að þar væri á ferðinni afturgöngur nýlendustefnunnar.
Nýi forsetinn kveðst hafa erft nánast gjaldþrota hagkerfi sem strax þurfi að koma til bjargar. Hann sér fyrir sér beinan fjárlagastuðning frá framlagsríkjum til að afstýra þjóðargjaldþroti. Samkvæmt greininni í Devex eru ekki miklar líkur á því að stuðningur framlagsríkja á sviði þróunarsamvinnu verði beinar greiðslur inn í ríkissjóð Gambíu. 

Evrópusambandið, Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hétu strax 275 milljónum bandarískra dala í stuðning - rúmlega 30 milljörðum íslenskra króna - þegar óopinber innsetningarhátíð Barrows fór fram í Dakar í Senigal í síðasta mánuði. Hins vegar er þetta fjármagn, að sögn Devex, aðallega verkefnabundið og eyrnamerkt tilteknum afmörkuðum verkefnum eins og flóðavörnum, næringarátaki meðal skólabarna og valdeflingu kvenna, svo dæmi séu nefnd.

Óvíst er með hvaða hætti Bretar koma til með að styðja ný stjórnvöld í Gambíu en þar er jákvæður tónn eins og víðast hvar annars staðar meðal framlagsríkja. Bretar eru samt líkt og margar aðrar rausnarlegar þjóðir í þróunarsamvinnu brenndar af beinum fjárlagastuðningi og því þykir ólíklegt að ríkissjóður Gambíu fá beinar greiðslur frá Bretlandi.

Í fréttaskýringu Devex er líka ítarlega fjallað um viðhorfin í Gambíu til samkynhneigðra og framtíðarspána um hvarf höfuðborgarinnar í hafið.

The New Gambia: What's on and off the aid agenda/ Devex
Barrow sets transition team/ ThePoint
How an American Consultancy Helped Oust Gambia´s Dictator/ Newsweek
The Gambia: President Barrow sworn in at packed stadium/ BBC
Gambia's new President Barrow sworn in, for second time/ DW

Gambia First, eftir Marika Tsolakis/ AfricanArguments

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum