Hoppa yfir valmynd
23.02. 2017

Farsímatæknin flýtir mjög fyrir aðstoð við nauðstadda

WfpeNý tækni og aukin farsímanotkun í þróunarríkjum og á átakasvæðum hefur leitt til þess að hjálparstofnanir, eins og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP), geta með auðveldari hætti en áður metið þörfina fyrir matvælaaðstoð og þar með hafið fyrr dreifingu á mat til þeirra sem brýnast er að veita slíka aðstoð.

Samtökin settu á laggirnar verkefni árið 2013 með það að markmiði aðbyggja upp kerfi til að safna á rauntíma ýmiss konar fæðutengdum upplýsingum á þeim svæðum í heiminum þar sem matvælaóöryggi er mest. Gaganöflun fór áður þannig fram að fólk var sent á umrædd svæði og skráði niður með heimsóknum á heimili hvernig ástandið var. Í stað þessarar tímafreku kortlagningu er þessum upplýsingum safnað saman á fljótvirkan hátt gegnum farsíma. "Það hefur gert kortlagningu á hungri í heiminum miklu ódýrari, miklu skilvirkari og miklu nákvæmari," segir Anne Poulsen forstöðumaður norrænu skrifstofu Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna í frétt sem birtist á danska vefnum: Verdens Bedste Nyheter.

Anne segir að áður en stofnunin ráðist í aðgerðir við tilteknum hörmungum sé safnað saman svörum við lykilspurningum eins og hverjir búi við hungur, hversu margir þeir séu, hvar þeir búi og hvers vegna þeir svelti - auk spurningarinnar um það hvernig stofnunin geti sem best komið til bjargar. "Í dag getum við safnað þessum gögnum mjög hratt með skilvirkum og ódýrum hætti, með síma- og sms-könnunum, og það gerir okkur kleift að bregðast við skjótt og koma þeim til bjargar sem eru í brýnni neyð sökum matarskorts." Í úttekt á þessu nýja kerfi á síðasta ári kom í ljós að greining á matarþörf á tilteknu svæði liggi nú fyrir á einni til tveimur vikum sem áður tók sex til átta vikur. Þessi tímasparnaður getur vitaskuld skilið á milli lífs og dauða.

Stórbætir áhættumat

Annar stór kostur við þessa nýju farsímatækni lýsir sér í því að hjálparsamtök fá upplýsingar um aðstæður á átakasvæðum sem ekki voru fáanlegar áður og leiddu til þess að starfsmenn hjálparsamtaka settu sig á stundum í hættulega aðstöðu með því að fara inn á svæði sem voru óörugg. Með farsímatækninni er miklu betur hægt að meta hvort viðkomandi svæði sé þokkalega öruggt eða ekki.
Í fréttinni er vitnað til þess að í ebólufaraldrinum í Vestur-Afríku árið 2014 hafi sms-kannanir verið veigamikill þáttur í því að meta þörfina fyrir matvælaaðstoð. Þá er Malaví tekið sem dæmi en samkvæmt fulltrúum WFP tekur núorðið innan við sólarhring að safna gögnum á tilteknum svæðum og svipaða sögu er að segja frá lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þar sem greining á matvælaaðstoð er framkvæmd gegnum farsíma. Kerfið - sem kallast mVAM - hefur verið tekið í notkun í 28 þjóðríkjum, meðal annars í Sýrlandi, Írak, Malaví og Malí.

mVAM: Mobile Vulnerability Analysis and Mapping (mVAM): Delivering real-time food security data through mobile technology/ vam.wfp.org

MALAWI mVAM Bulletin #12: December 2016/ WFP Action Lab for Zero Hunger/ Humanityx

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum