Hoppa yfir valmynd
23.02. 2017

Stórt skref stigið í baráttunni gegn barnahjónaböndum í Malaví

https://youtu.be/hXwB2FeDazo Malavíska þingið tók stórt skref í baráttunni gegn barnahjónaböndum á dögunum þegar stjórnarskrárbreyting um hækkun lögræðisaldurs einstaklinga úr 15 árum upp í 18 ár var samþykkt. Breytingin fór í gegn með miklum meirihluta, 131 þingmaður sagði já en aðeins 2 þingmenn voru á móti. 

Árið 2015 voru sett lög í landinu sem bönnuðu hjónabönd einstaklinga undir 18 ára aldri en þar sem lögræðisaldurinn var enn 15 ár var auðvelt að komast framhjá þessum lögum og börn gátu enn gengið í hjónaband með leyfi foreldra. 

"Umræðan um samfélagsmeinið sem barnahjónabönd eru hefur farið hátt í Malaví undanfarið og þessi stjórnarskrárbreyting er afleiðing vinnu bæði innlendra og erlendra afla sem hafa barist fyrir auknum réttindum barna, og sérstaklega stúlkna," segir Ása María H. Guðmundsdóttir sérfræðingur á skrifstofu sendiráðs Íslands í Lilongve.

Hún segir að Care International sé ein þeirra stofnana sem hafi látið sig málið varða sérstaklega og nefnir sem dæmi að stofnunin hafi verið með herferð ungs fólks í Malaví gegn barnahjónaböndum.

"Þessi hópur ungs fólks safnaði meðal annars yfir 42 þúsund undirskriftum fólks frá yfir 30 löndum sem lýstu yfir samstöðu með málstaðnum og færði forsetafrúnni listann með undirskriftunum. Þessi breyting er að flestra dómi mjög mikilvæg fyrir komandi kynslóðir barna í Malaví og þótt vandamálið sé langt í frá úr sögunni þá styrkir þetta réttindastöðu einstaklinga undir átján ára aldri og lokar því lagalega gati sem hægt var að nýta sér til að neyða börn í hjónabönd," segir Ása María.

Parliament amends child age to 18 years/ Times
Malawi Parliament raise child age definition from 14 to 18 years: Illegal to marry a girl before 18

Malawi changes law to end child marriage/ PlanInternational


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum