Hoppa yfir valmynd
02.03. 2017

Fimmtíu milljóna króna árlegt framlag til Flóttamannastofnunar

Genf1Íslensk stjórnvöld ætla að verja að minnsta kosti 50 milljónum króna árlega á næstu þremur árum í almenn framlög til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skrifaði undir samkomulag þessa efnis á fundi með Filippo Grandi framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar SÞ á mánudag.

Áður hafa íslensk stjórnvöld gert sambærilega samninga við Matvælastofnun SÞ (WFP) og Barnahjálp SÞ (UNICEF) og á morgun skrifar ráðherra undir slíkan samning við Samræmingarskrifstofu SÞ í mannúðarmálum (OCHA). Almenn framlög, eða óeyrnamerkt kjarnaframlög, eru í samræmi við áherslur stjórnvalda í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

Þakklæti til ÍslendingaGrandi þakkaði á fundinum íslenskum stjórnvöldum fyrir þann mikla stuðning sem þau hefðu veitt undanfarið ár, meðal annars með 325 milljóna króna framlagi í fyrra sem var liður í aukafjárveitingum ríkisstjórnar og Alþingis til flóttamannavandans haustið 2015. Grandi sagði þennan stuðning mikils metinn, sem og móttaka Íslendinga á meira en eitt hundrað sýrlensku kvótaflóttafólki á undanförnu ári. Blikur væru á lofti í flóttamannamálunum og því væri mikilvægt að ríki eins og Ísland héldu ekki að sér höndum andspænis gríðarmiklum vanda, en 65 milljónir manna eru nú á flótta frá heimilum sínum í heiminum. Samkvæmt tvíti frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna greiddu Íslendingar 2,4 milljónir bandarískra dala vegna átakanna í Sýrlandi á síðasta ári og varð þar með sjöundi stærsti styrktaraðili samtakanna miðað við höfðatölu.

Guðlaugur Þór Þórðarson ávarpaði einnig Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna á mánudag og lagði áherslu á að mannréttindi væru hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem utanríkisráðherra Íslands sækir árlega ráðherraviku mannréttindaráðsins frá því að það var sett á fót í núverandi mynd fyrir um tíu árum.  Í ræðu sinni sagði Guðlaugur Þór að ekki væri hægt að ætlast til að mannréttindi séu virt í fjarlægum löndum ef ekki er hugað fyrst að stöðu mannréttinda heima fyrir. Þess vegna fögnuðu íslensk stjórnvöld því að fá tækifæri til að undirgangast þá jafningjarýni sem fram fer á vegum Mannréttindaráðsins, en Ísland var tekið fyrir í annað skipti hjá ráðinu sl. haust. Margar góðar ábendingar hefðu borist frá öðrum aðildarríkjum SÞ í jafningjarýninni, bæði nú og síðast þegar Ísland undirgekkst rýnina, árið 2011. 

Ráðherra átti einnig fund með Zeid Ra'ad Al Hussein mannréttindafulltrúa SÞ og þakkaði honum sérstaklega fyrir starf sitt í þágu mannréttinda í heiminum í ræðu sinni: "Þú hefur verið óhræddur við að varpa ljósi á mannréttindabrot hvar í heimi sem þau viðgangast og ljáð þeim rödd sem ekki hafa hana." 

Hækkun á almennum framlögum til OCHAÍ gærmorgun átti utanríkisráðherra svo fund í Genf með Rudolf Muller, framkvæmdastjóra UN OCHA, Samræmingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum. Þeir skrifuðu á fundinum undir samkomulag um framlög Íslands til stofnunarinnar næstu þrjú árin. Á síðasta ári voru almenn framlög Íslands til OCHA 10 milljónir króna en jafnframt lagði Ísland til 36 milljónir króna í Sýrlandssjóð OCHA. 

Á árinu 2017 er gert ráð fyrir 25 milljónum króna í almenn framlög auk þess sem að minnsta kosti 50 milljónum króna verður ráðstafað í svæðisbundna sjóði samtakanna. Í samningnum er einnig gert ráð fyrir árlegum samráðsfundum sem tengjast framlögum Íslands og samstarfinu við OCHA
.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum