Hoppa yfir valmynd
02.03. 2017

Ofbeldi daglegt brauð barna á leið þeirra til Evrópu

DeadlyjourneyBörn á flótta, börn innflytjenda og konur verða reglulega fyrir kynferðisofbeldi, misneytingu og misnotkun, auk þess að vera sett í varðhald, þegar þau flýja frá Norður-Afríku, yfir Miðjarðarhafið og til Ítalíu. Við þessu varar UNICEF í nýrri skýrslu sem kom út í vikunni.

Í frétt frá UNICEF segir að skýrslan veiti innsýn í þær hörmungar sem blasa við börnum á flótta og faraldsfæti á því hættulega ferðalagi sem þau takast á hendur þegar þau ferðast frá Afríku sunnan Sahara og þaðan sjóferðina til Ítalíu. Í ljós kom að þrjú af hverjum fjögur börnum sem rætt var við höfðu á einhverjum tímapunkti ferðalagsins orðið fyrir ofbeldi, áreitni eða yfirgangi af hálfu fullorðinna. Helmingur kvennanna og barnanna sögðu að þau hefðu orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á leiðinni - í mörgum tilfellum oft og á mismunandi stöðum.

Að minnsta kosti 4.579 manns létust á síðasta ári við að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið til Ítalíu, eða 1 af hverjum 40. Áætlað er að minnst 700 börn hafi verið meðal hinna látnu.

Neyð barnanna verður að féþúfu smyglara

"Leiðin yfir Miðjarðarhafið frá Norður-Afríku til Evrópu er meðal hættulegustu og mannskæðustu leiða í heiminum og sú hættulegasta fyrir konur og börn," segir Afshan Khan, svæðisstjóri UNICEF sem samhæfir aðgerðir UNICEF í flóttamannamálum í Evrópu. " Leiðinni er aðallega stjórnað af smyglurum, þeim sem stunda mansal og öðrum sem nýta sér neyð örvæntingarfullra barna og kvenna sem eru einfaldlega að leita hælis eða betra lífs. Við þurfum örugga og löglega leið, sem og öryggisráðstafanir til að vernda börn á flótta, tryggja öryggi þeirra og halda þeim í burtu sem ætla sér að níðast á þeim." 
Nýleg könnun sem gerð var á högum barna innflytjenda og kvenna í Líbíu árið 2016 afhjúpar skelfilegt ofbeldi á þessari leið. Þegar könnunin var gerð sýndu gögnin að fjöldi fólks á flótta í Líbíu var 256.000. Þar af voru 30.803 konur og 23.102 börn. Þriðjungur barnanna var fylgdarlaus. Raunverulegar tölur eru hins vegar taldar vera í það minnsta þrisvar sinnum hærri.

Flest börnin og konurnar gáfu til kynna að þau hefðu borgað smyglurum í upphafi ferðarinnar og voru því mörg þeirra skuldbundin þeim. Þetta er samningur sem kallast "pay as you go" sem setur þau í enn meiri hættu á að verða fyrir misnotkun, mannráni eða mansali. 

Konur og börn sögðu einnig frá harkalegum skilyrðum, þrengslum, skorti á næringarríkum mat og viðunandi aðbúnaði í skýlum í Líbíu sem rekin eru bæði af yfirvöldum þar í landi og herflokkum.

"Börn ættu ekki að vera neydd til þess að setja líf sitt í hendur smyglara vegna þess eins að það eru engin önnur úrræði," segir Khan hjá UNICEF. 

"Það þarf að takast á við þetta mál á heimsvísu og í sameiningu þurfum við að finna öruggt kerfi, kerfi sem tryggir öryggi og réttindi barna á ferðinni, hvort sem um ræðir börn á flótta eða faraldsfæti."

Aðgerðaáætlun UNICEF

UNICEF leggur til að gripið sé tafarlaust til aðgerða á sex sviðum:

  1. Verja þarf börn á flótta og faraldsfæti, sérstaklega fylgdarlaus börn, gegn ofbeldi og misneytingu.
  2. Hætta þarf að hneppa í varðhald þau börn sem sækja um stöðu flóttamanns eða eru á faraldsfæti.
  3. Halda þarf fjölskyldum saman en það er sterkasta vopnið til að tryggja öryggi barna, veita þarf fjölskyldunum síðan lagalega stöðu.
  4. Halda þarf öllum börnum á flótta og faraldsfæti í námi, og veita þeim heilbrigðisþjónustu sem og aðra grunnþjónustu.
  5. Þrýsta þarf á aðgerðir til að takast á við undirliggjandi orsakir hinnar stórfelldu aukningar flóttamanna og fólks á faraldsfæti í heiminum.
  6. Vinna þarf gegn útlendingahatri, mismunun og jaðarsetningu minnihlutahópa. 

UNICEF hvetur ríkisstjórnir heimsins og Evrópubandalagið til að styðja og tileinka sér þessa aðgerðaáætlun. 

A deadly journey for children: The migration route from North Africa to Europe/ UNICEFSkýrsla UNICEF: Uprooted: The growing crisis for refugee and migrant children 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum