Hoppa yfir valmynd
02.03. 2017

Öruggt leik- og íþróttasvæði opnað börnum í Jalazone flóttamannabúðunum í Palestínu

Pal1Öruggt leik- og íþróttasvæði fyrir börn og ungmenni í Jalazone flóttamannabúðunum í Palestínu hefur verið tekið í notkun en framkvæmdirnar voru kostaðar af framlögum Íslands til þróunarmála. 

Samkvæmt lokaskýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA) var með verkefninu unnt að skapa öruggt svæði fyrir börn og ungmenni innan Jalazone flóttamannabúðanna þannig að þau hafa nú tækifæri til ýmiss konar íþrótta og leikja sem stuðlar bæði að betri líkamlegri og andlegri heilsu.

Endurbætur á svæðinu fólu meðal annars í sér að reisa veggi umhverfis leiksvæðið, lagfæra vatns- og skólplagnir og byggja litla áhorfendastúku. Í umsögn UNRWA segir að endurbætur á íþróttasvæðinu gefi börnum og unglingum í Jalazone búðunum og foreldrum þeirra langþráð tækifæri til að eiga samverustundir, leika sér og taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi. Með þessa aðstöðu geti íbúarnir un stund gleymt daglegu amstri og erfiðleikum sem einkennir lífið í búðunum.

Pal4Herseta í hálfa öld

Á þessu ári verður hálf öld liðin frá því herseta Ísraels hófst á Vesturbakkanum. Í fimmtíu ár hefur palestínska þjóðin verið í herkví og þurft að þola frelsisskerðingu, takmarkaða þjónustu og margvísleg mannréttindabrot. Samkvæmt nýjustu tölum býr meira en fjórðungur þjóðarinnar, 27%, við matvælaóöryggi.

Að því er fram kemur í skýrslunni um verkefni eru Jalazone búðirnar - sem eru meðal nítján flóttamannabúða á Vesturbakkanum - í hópi þeirra sem verða verst úti í átökum. Öryggissveitir Ísrala (ISF) beita iðulega skotvopnum við búðirnar og ungt fólk er meðal þeirra sem hafa fallið eða særst.

Palestína hefur verið skilgreint sem áhersluland Íslands á sviði þróunarsamvinnu frá því tillaga til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands var samþykkt á Alþingi 2011. Stuðningurinn er í gegnum fjölþjóðastofnanir og borgarasamtök m.a  á sviði jafnréttismála og  félagslegra innviða t.d. heilbrigðis- og menntamála. Hann takmarkast ekki við landamæri Palestínu heldur tekur einnig til palestínskra flóttamanna í nágrannaríkjunum Jórdaníu, Sýrlandi  og Líbanon.

Myndatextar:

Efri myndin: María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytis og sendiherra Íslands gagnvart Palestínu og Scott Anderson, yfirmaður UNRWA Operations í Palestínu (Vesturbakkanum).

Neðri myndin:  Ánægjulegt er að sjá hve mikil áhrif lítil verkefni, líkt og uppbygging á íþróttavellinum í Jalazone flóttamannabúðunum, geta haft fyrir stóran hóp fólks. Ljósmyndir: AH

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum