Hoppa yfir valmynd
02.03. 2017

Oslóarráðstefnan: Fyrirheit um rúmlega 670 milljarða króna stuðning við bágstadda

Fjórtán framlagsríki hétu fjárstuðningi við sautján milljónir nauðstaddra íbúa svæðanna í grennd við Chad vatnið sem upplifa miklar hörmungar, mestanpart vegna ofbeldisverka vígasveita Boko Haram, á ráðstefnu sem haldin var í Osló í síðustu viku. Samkvæmt frétt Samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) liggja fyrir fyrirheit eftir ráðstefnuna um 458 milljónir bandarískra dala á þessu ári - 50 milljarða íslenskra króna - og  214 milljónir dala - 23 milljarða íslenskra króna - á næstu árum.

https://youtu.be/AGt_QuTra0I Um 170 fulltrúar frá 40 þjóðríkjum, fulltrúar Sameinuðu þjóða stofnana, borgarasamtaka og svæðastofnana í umræddum heimshluta en ráðstefnan nefndist á ensku "Oslo Humanitarian Conference on Nigeria and the Lake Chad Region." Að henni stóðu stjórnvöld í Noregi, Nígeríu, Þýsklandi og Samræmingarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (OCHA). Þjóðirnar fjórtán sem hétu fjárhagsstuðningi á ráðstefnunni voru Noregur, Þýskaland, Japan, Svíþjóð, Sviss, Frakkland, Ítalía, Írland, Finnland, Danmörk, Lúxemborg, Holland, Suður-Kórea og Evrópusambandið.

Hörmungarnar á þessu svæði eru með þeim alvarlegri sem sést hafa en álitið er að um 17 milljónir íbúa í Nígeríu, Tjad, Níger og Kamerún þurfi á mannúðaraðstoð að halda, þar af 11 milljónir sem eru í bráðri hættu. Í þeim hópi eru að minnsta kosti helmingurinn alvarlega vannærð börn. Auk neyðaraðstoðar var á fundinum lögð rík áhersla á langtíma stuðning við fólk á vergangi ásamt vernd fyrir konur, börn og ungmenni. Á fundinum var settur á laggirnar sérstakur sjóður fyrir íbúa norðurhluta Nígeríu - Nigeria Humanitarian Fund.

"Evrópubúar geta trauðla skellt skolleyrum við neyðarástandi í norðurhluta Nígeríu," segir Toby Lanzer sem samræmir neyðaraðstoð á Sahel svæðinu fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna. "Ríkisstjórnir landanna í þessum heimshluta eru ekki í stakk búna til að takast á við þann vanda sem felst í því að 11 milljónir manna þurfa á mannúðaraðstoð að halda, auk orsakanna sem eru loftslagsbreytingar, ofbeldi öfgaafla og fátækt."

Samkvæmt frétt Upplýsingaskrifstofu SÞ hafa um 2,3 milljónir manna neyðst til að flýja heimili sín vegna átaka eða matarskorts. Stór hluti hinna hrjáðu landsvæða eru í norðaustur Nígeríu þar sem hernaður Boko Haram hefur bæst ofan á efnahagsþrengingar og leitt til mikilla hörmunga og þjáninga. 

"Við viljum koma fólkinu til hjálpar en við viljum líka sjá það rétta úr kútnum til þess að það þurfi ekki að flýja undan ofbeldi og leita sér tækifæra annars staðar," segir Lanzer. "Árið 2016 var mestur hluti þess farandfólks sem lenti á ströndum Ítalíu frá Nígeríu. Sum ríki gera sitt besta bæði í mannúðar- og þróunarmálum, en sum Evrópuríki hafa gert of lítið til að takast á við þessi vandamál, þótt hér gefist möguleiki til þess í einu vetfangi að láta gott af sér leiða í mannúðarmálum og takast á við fólksflutningavandann." 

Central Africa: Lake Chad - Building Walls or Bridges?/ Fréttaskýring - Reuters 
Lake Chad Basin Emergency/ OCHA 
670 milljónir dala söfnuðust í Osló/ UNRIC 
Humanitarian agencies seek $1 billion to provide life-saving aid to millions in northeast Nigeria - UN 
Boko Haram and famine hit efforts to rebuild lives in Nigeria's northeast/ Reuters

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum