Hoppa yfir valmynd
08.03. 2017

Fimmtán sjálfbærar vatnsveitur settar upp í Buikwe héraði

Sendiráð Íslands í Kampala og héraðsstjórnin í Buikwe hafa ákveðið að færa dreifingu á vatni í fiskiþorpum í héraðinu í nútímalegra horf með innheimtu á  vatnsgjöldum. Jafnframt á að þróa rekstrarumgjörð sem getur axlað ábyrgð á fjárhagslegum og tæknilegum rekstri vatnsveitanna. Lagt er til grundvallar að vatnsgjaldi verði stillt í hóf og verði innan þeirra marka sem íbúar hafa efni á og geta sætt sig við en þó nægilega hátt til að tryggja rekstrartekjur sem þarf til að standa undir rekstrinum.

Í grein sem Árni Helgason verkefnastjóri í sendiráði Íslands í Kampala skrifar í Heimsljós segir hann að innleiðing á vatnsdreifikerfum með gjaldtöku færist í vöxt víða í þróunarríkjum og nokkur slík kerfi séu þegar til staðar í Úganda. "Það er því þegar komin nokkur reynsla á þetta rekstrarform í landinu og ekki ástæða til að ætla annað en að það verði árangursríkt í fiskiþorpunum í Buikwe héraði," skrifar hann.

Sendiráð Íslands í Kampala, héraðsstjórnin í Buikwe, Water Mission Uganda og danska fyrirtækið Grundfos munu standa sameiginlega að því að setja upp 51 AQtap vatnspósta við vatnsveiturnar 15 í fiskiþorpunum í Buikwe. Grundfos mun útvega AQtap tæknibúnaðinn og sérhæfða þjálfun honum tengdum, en WMU mun annast uppsetningu á búnaðinum, margvíslega þjálfun og uppfræðslu á öllum stigum frá grasrótinni upp í héraðsstjórn, að því er fram kemur í greininni. 

Þá segir Árni að framkvæmdir við vatnsdreifikerfin séu þegar hafnar og uppsetning á öllum búnaði verði lokið fyrir sumarlok 2017. Endanleg verkefnislok verði síðan innan tveggja ára og þá væntanlega með 15 sjálfbærum vatnsveitum.

"Mjúki" hluti verkefnisins er flóknari en  sá tæknilegi og mun taka lengri tíma. Í fyrsta lagi þarf að þróa hentugt rekstrarform með héraðsyfirvöldum, sem tryggir gagnsætt tekjustreymi af starfseminni til að standa undir starfseminni og þjálfa væntanlega rekstrararaðila í rekstri og viðhaldi vatnsveitanna. Í öðru lagi þarf að vinna mjög náið með íbúum fiskiþorpanna þannig að allir skilji hugmyndafræðina á bak við gjaldtökuna og að þessi nálgun er sennilega ódýrari kostur fyrir íbúana, þegar til lengri tíma er litið, en "ókeypis vatn" úr ósjálfbærri vatnsveitu, sem drabbast síðan niður og verður ónýt á 1-2 árum.

WMU mun bera hitann og þungann af uppsetningu AQtap vatnspóstanna og jafnframt annast "mjúka" hluta verkefnisins að mestu leyti í nánu samstarfi með sendiráði Íslands í Kampala og héraðsyfirvöldum í Buikwe. WMU mun einnig annast eftirfylgni og tæknilegan stuðning við rekstur og viðhald vatnsveitanna í 2-3 ár.

Miklar vonir eru bundnar við þetta verkefni, og ef vel tekst til, þá má ætla að þessi nálgun við að koma á sjálfbærum vatnsveitum í fátækum samfélögum gæti orðið fyrirmynd að sambærilegri uppbyggingu í vatnsmálum víðar í Buikwe héraði og í Úganda í heild. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum