Hoppa yfir valmynd
08.03. 2017

Rannsókn hafin á næringarstöðu og námsárangri barna í Buikwe héraði

RannsoknbuikweÍ síðustu viku fór af stað rannsókn sem skoðar möguleg tengsl næringarstöðu og námsárangurs barna 12 ára og yngri í samstarfsskólum Íslands í Buikwe héraði. Rannsóknin er hluti af viðameira menntaverkefni til fjögurra ára í héraðinu.

Rannsóknir sýna að vannærð börn eiga erfiðara með að læra en önnur börn. Í Buikwe héraði ríkir fátækt og er matarskortur heimila oft eftir því, og í skólum héraðsins hefur skólaaðsókn og námsárangur verið afar slakur. Sendiráð Íslands í Kampala ákvað því að láta rannsaka hvort mögulega megi útskýra lélegan námsárangur barnanna með hungri.

Næringarstaða barnanna verður mæld samkvæmt BMI stuðli þeirra, ásamt spurningalista um tegund og magn fæðu þeirra. Þá er næringarstaðan borin saman við námsárangur sem metinn er eftir að prófað er úr tilteknu efni sem börnunum er kennt á meðan á rannsókninni stendur af kennurum á vegum rannsakenda, ásamt niðurstöðum úr samræmdum prófum.

Sendiráð Íslands vinnur samhliða þessu að verkefnum sem eiga að tryggja fæðuöryggi barna á skólatíma og mun þessi rannsókn á næringarstöðu nemenda varpa skýrara ljósi á þá þörf. Þá er lagt upp með að hægt verði að leggja rannsóknina fyrir sömu börn eftir þrjú ár og sjá þá hvort með auknu fæðuöryggi sé námsárangur betri.

Rannsóknin er í höndum Dr. Hedwig Acham, næringarfræðings við Makerere háskólann í Kampala. Hún hefur áður framkvæmt sambærilegar rannsóknir á næringarstöðu skólabarna í bágstöddum héruðum Úganda. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum