Hoppa yfir valmynd
08.03. 2017

Vatnsveitur í fiskiþorpum Buikwe héraðs uppfærðar

BuikwevatnÍsland og Úganda vinna sameiginlega að því að bæta lífskjör og afkomu íbúa í fiskiþorpum í Buikwe héraði í Úganda, með inngripum og uppbyggingu í heilbrigðis- og menntamálum. Sendiráð Íslands í Kampala annast verkefnið fyrir Íslands hönd en héraðsstjórnin í Buikwe fyrir hönd Úganda.

Uppbygging í vatns- og hreinlætismálum eru fyrirferðamiklir þættir í samstarfsverkefni Buikwe og Íslands, en eins og alþjóð veit, þá er aðgangur að ómenguðu neysluvatni og viðunandi hreinlætisaðstöðu grundvallaratriði, sem verða að vera í lagi fyrir heilbrigði fólks og þar með til að stuðla að jákvæðri þróun í þeim þáttum mannlífsins sem áhrif hafa á lífskjör og afkomu. Markhópur verkefnisins eru 19 af 39 fiskiþorpum í þeim fjórum hreppum Buikwe héraðs, sem liggja að Viktoríuvatni og ánni Níl. Um 40.000 manns búa í þessum 19 þorpum eða 75% af öllum íbúum Buikwe héraðs, sem byggja afkomu sína á fiskveiðum og fiskverkun.
Vatnsnámi og hönnun á vatnsveitum er lokið fyrir öll 19 þorpin og framkvæmdir við dreifkerfi eru að hefjast og verður lokið fyrir mitt ár 2017. 

Stuttur endingartími og ósjálfbær rekstur

Eilíft vandamál við mannvirki sem ætlað er að veita samfélagslega þjónustu er stuttur endingartími og ósjálfbær rekstur. Framkvæmdir eru oftast kostaðar af þróunarframlögum erlendra ríkja eða gjafafé og eignarhald að loknum framkvæmdum gjarnan óljóst. Algengast er að þær eru afhentar samfélaginu til eignar og umsjár, án þess að nauðsynleg tæknikunnátta eða fjármagn til að sinna rekstrinum fylgi með. 

Niðurstaðan verður því gjarnan sú að mannvirki og tæknibúnaður drabbast niður og hættir að þjóna hlutverkinu mun fyrr en eðlilegt getur talist. Þetta á því miður við um margvísleg mannvirki sem byggð eru fyrir nauðsynlega samfélagslega þjónustu, og þar með eru vatnsveitur.
Þegar vatnsveitur eru byggðar eru þær almennt afhentar samfélaginu til eignar og reksturinn settur undir vatnsnefnd sem kosin er af íbúum þorpsins. Hinir kjörnu fulltrúar búa oftast ekki yfir tækniþekkingu til að reka vatnsveitur, er ætlað að sinna vatnsnefndarstarfinu launalaust og héraðsyfirvöld hafa ekki tæknilegt eða fjárhagslegt bolmagn til að aðstoða. Afleiðingin er síðan að mannvirkin drabbast niður, tækjabúnaður bilar og vatnsveitan hættir að lokum að þjóna sínu hlutverki og vatnsmál samfélagsins eru aftur komin á byrjunarreit. 

Til að forðast þau örlög sem lýst er hér að ofan fyrir vatnsveiturnar í  samstarfsverkefni Íslands og Úganda í Buikwe héraði hafa sendiráð Íslands í Kampala og héraðsstjórnin í Buikwe ákveðið að færa dreifingu á vatni í fiskiþorpunum í héraðinu í nútímalegra horf með innheimtu á vatnsgjöldum og þróa rekstrarumgjörð, sem getur axlað ábyrgð á fjárhagslegum og tæknilegum rekstri vatnsveitanna. Þar til grundvallar er lagt að vatnsgjaldi verði stillt í hóf og innan þeirra marka sem íbúar hafa efni á og geta sætt sig við, en þó nægilega hátt til að tryggja rekstrartekjur sem þarf til að standa undir rekstrinum. Innleiðing á vatnsdreifikerfum með gjaldtöku færist í vöxt víða í þróunarríkjum og nokkur slík kerfi eru þegar til staðar í Úganda. Það er því þegar komin nokkur reynsla á þetta rekstrarform í landinu og ekki ástæða til að ætla annað en að það verði árangursríkt í fiskiþorpunum í Buikwe héraði. 

Danskt hugvit

Tæknibúnaður fyrir vatnsdreifingu með gjaldtöku er þegar fáanlegur frá ýmsum framleiðendum, en búnaðurinn sem verður notaður í Buikwe héraði er frá danska fyrirtækinu Grundfos, sem hefur þróað vatnspósta með rafrænni gjaldtöku undir heitinu nafni AQtap, en þeir eru sérstaklega hannaðir fyrir litlar vatnsveitur í dreifbýli í þróunarlöndum. Eitt slíkt kerfi er þegar í notkun í Buikwe héraði, en það var sett upp af landsskrifstofu Water Mission International í Úganda (WMU), enWMI eru alþjóðleg frjáls félagasamtök sem sérhæfa sig í að byggja vatnsveitur í þróunarlöndum. Sendiráð Íslands í Kampala, héraðsstjórnin í Buikwe, WMU og Grundfos munu standa sameiginlega að því að setja upp 51 AQtap vatnspósta við vatnsveiturnar 15 í fiskiþorpunum í Buikwe. 

Grundfos mun útvega AQtap tæknibúnaðinn og sérhæfða þjálfun honum tengdum, en WMU mun annast uppsetningu á búnaðinum, margvíslega þjálfun og uppfræðslu á öllum stigum frá grasrótinni upp í héraðsstjórn.  Framkvæmdir við vatnsdreifikerfin eru þegar hafnar og uppsetning á öllum búnaði á að vera lokið fyrir sumarlok 2017. Endanleg verkefnislok verða síðan innan 2ja ára og þá væntanlega með 15 sjálfbærum vatnsveitum. Tæknibúnaður AQtap kerfisins er tiltölulega einfaldur. Um er að ræða vatnspósta með rafrænum búnaði þar sem neytendur geta fengið 20 lítra skammt af hreinu vatni á brúsa fyrir ákveðið gjald. Neytandi greiðir með sérstöku greiðslukorti, sem er forhlaðið með ákveðnum fjölda vatnseininga, sem korthafi fyrirframgreiðir hjá söluaðila vatnsveitunnar. 

Vatn er eingöngu afhent gegn rafrænni greiðslu og reiðufé eingöngu þegar vatnseiningar eru keyptar og hlaðið inn á neytendakortin. Kerfið heldur rafrænt bókhald um seldar og afhentar vatnseiningar og skilar gögnum inn í miðlægt kerfi á vatnsskrifstofu viðkomandi hrepps (sub-county). 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum