Hoppa yfir valmynd
15.03. 2017

Nýtt samstarfsverkefni með UN Women og stjórnvöldum í Mósambík á lokastigi

MosambikfundurSendiráð Íslands í Mósambík undirbýr þessa dagana viðamikið samstarfsverkefni með landsnefnd UN Women og ráðuneyti jafnréttis- og félagsmála. Verkefnið snýr að framkvæmd verkþátta í fyrstu aðgerðaráætlun mósambískra stjórnvalda um framkvæmd ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Áætlað er að verkefnið hefjist á öðrum ársfjórðungi 2017 og verði til ársloka 2020.

Fyrsta aðgerðaráætlun Mósambíkur verður að sögn Lilju Dóru Kolbeinsdóttur verkefnastjóra í sendiráði Íslands í Mapútó líkast til samþykkt innan skamms af hálfu stjórnvalda. Hún segir að kallað hafi verið eftir slíkri áætlun í mörg ár, allt frá árinu 2012, bæði af hálfu UN Women og fulltrúum borgarasamtaka. "Vegna viðkvæmra friðarviðræðna milli stjórnvalda og RENAMO hreyfingarinnar hefur umræðan ekki fengið mikinn meðbyr. Þess vegna eru það ákveðin tímamót í Mósambík einmitt núna þar sem aðgerðaráætlunin er langt á veg komin og vilji stjórnvalda skýr til að vinna að áætlun og aðgerðum til framkvæmda," segir Lilja Dóra.

Hluti af undirbúningi verkefnisins var vinnustofa með hagaðilum fyrr í mánuðinum. Alls mættu um þrjátíu manns frá mismunandi stofnunum, borgarasamtökum, ráðuneytum og framlagsríkjum. Að sögn Lilju Dóra skapaðist lífleg umræða  um drögin að verkefninu bæði um innihald og framkvæmd.  "Viðstaddir voru sammála um að mikil þörf sé á verkefninu og mikilvægi þess að vinna að þátttöku kvenna í friðarviðræðum, öryggi kvenna og stúlkna á átakasvæðum ásamt því að sporna gegn mögulegum átökum í landinu í framtíðinni."

Unnið er að því að ljúka við verkefnaskjalið á næstu vikum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum