Hoppa yfir valmynd
15.03. 2017

Óttast að 70 milljónir manna þurfi á matvælaaðstoð að halda á árinu

Fréttaskýring frá AlJazzera um ástæður hungursneyðarinnar. Á síðustu öld létust 75 milljónir manna vegna hungursneyðar en á síðustu áratugum hefur slíkt ástand afar sjaldan komið upp. Hungursneyðin sem lýst var yfir í einu héraði Suður-Súdan í síðasta mánuði var sú fyrsta í sex ár en skyndilega blasa við margir aðrir heimshlutar þar sem fólk sveltur og líklegt er að formlega verði lýst yfir að hungursneyð ríki. Verst er ástandið í Sómalíu, Nígeríu og Jemen - og Suður-Súdan.

Stephen O´Brian yfirmaður mannúðar- og neyðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum lýsti yfir því á fundi með fréttamönnum um síðustu helgi að aldrei í 45 ára sögu samtakanna hafi sambærilegt ástand skapast þar sem rúmlega 20 milljónir manna líða sult. "Þetta er ögurstund í sögu okkar," sagði hann og benti á að án samstillts átaks alþjóðasamfélagsins myndi fólk einfaldlega svelta til bana.

Að mati O´Brians þarf 4,4 milljarða bandaríkjadala - tæplega 500 milljarða íslenskra króna - fyrir júnílok á þessu ári til að bjarga mannslífum í Jemen, Suður-Súdan, Sómalíu og norðausturhluta Nígeríu.

Athygli vekur að hungursneyðin í þessum fjórum heimshlutum er hvergi tilkomin vegna matarskorts heldur vegna átaka. "Öll þessi fjögur lönd eiga eitt sameiginlegt: átök," sagði Stephen O´Brian. "Það þýðir að við höfum möguleika á að koma í veg fyrir og binda enda á frekari eymd og þjáningu." 

Ástandið versnar hratt í Jemen en þar hefur íbúum sem vita ekki hvenær þeir fá næstu máltíð fjölgað um þrjár milljónir frá því í janúar.

Stofnun sem heldur utan um fæðuskort í heiminum - Famine Early Warning System (FEWSNET) telur að 70 milljónir manna þurfi á mataraðstoð að halda á þessu ári. Þessi tala hefur hækkað um helming á innan við tveimur árum. Margir velta fyrir sér hver skýringin sé á þessum hörmugum í ljósi þess að á síðustu áratugum hafa orðið miklar framfarir og stöðug fækkun sárafátækra í heiminum - einn þeirra sem hefur nýlega skrifað áhugaverða grein um ástandið er Daniel Maxwell sem skrifar í tímaritið The Conversation - " Famines in the 21st century? It´s not for lack of food."

Í grein hans kemur meðal annars fram að stórfelldar hungursneyðir hafi verið á horni Afríku á árunum 1984 og 85, og aftur 1992, en síðan hafi aðeins einu sinni verið lýst yfir hungursneyð, í suður Sómalíu árið 2011 sem varð 250 þúsund manns að aldurtila.

Stuðningur íslenskra stjórnvalda við Matvælaáætlun SÞ (WFP)

Fyrr í mánuðinum ákvað Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra að fela Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) að ráðstafa 40 milljónum íslenskra króna, annars vegar til flóttafólks frá Suður-Súdan sem flúið hefur yfir landamærin til Úganda, og hins vegar til vannærðra íbúa Borno og Yobe héraðanna í norðaustur Nígeríu þar sem hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa tvístrað samfélögum. Af þessum 40 milljónum verður 23 milljónum varið til stuðnings flóttafólki frá Suður-Súdan og 17 milljónum til norðaustur Nígeríu. 

World Faces Largest Humanitarian Crisis Since 1945, U.N. Official Says/ NPR
Food Crisis Worsens Across Several African Countries, UN Agencies Warn/ ICTSD
Versta hungursneyð frá stofnun SÞ/ Mbl.is
DKK 300 million to combat the acute hunger crisis in the Horn of Africa/ Danska utanríkisráðuneytið
UN aid chief urges global action as starvation, famine loom for 20 million across four countries
Germany's Gabriel urges aid to prevent Africa famine/ DW

'Countless lives at stake' warn NGOs as hunger in east Africa prompts major appeal/ TheGuardian




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum