Hoppa yfir valmynd
15.03. 2017

Ýmsar nýjungar og áherslubreytingar

SmilinggirlVinna við nýtt verkefnaskjal vegna samstarfs við Mangochihérað í Malaví er nú á lokastigi. Í megindráttum er samstarfið á sömu sviðum og á sama grunni og á tímabilinu 2012-2016 (sem var framlengt til júníloka 2017). Þrátt fyrir það, er þar að finna ýmsar nýjungar og nýjar áherslur. Hér á eftir verður þeim að nokkru lýst, með þeim fyrirvara þó, að vinnunni er ekki lokið að fullu og ferli samþykkta allra hlutaðeigandi er eftir. Þótt eitthvað kunni því að breytast lítillega frá því sem nú er áformað, eru þau drög sem liggja fyrir að mestu byggð á óskum og hugmyndum heimamanna í Mangochi og náið samráð hefur verið haft við héraðsstjórnina við mótun verkefnisins á öllum stigum.   Ein mikilvæg breyting, sem þó lætur ekki mikið yfir sér, er að nú eru allar verkefnastoðirnar í einu skjali. Litið er á þær allar sem hluta af Grunnþjónustuverkefninu í Mangochi (Mangochi Basic Services Programme).  

Mikil aukning í vatns- og hreinlætishluta

Í vatns-  og hreinlætisverkefninu var einungis unnið í einu Traditional Authority (TA Chimwala) á tímabilinu 2012-2016. Þar var áætlað að gera 350 vatnsveitur virkar, með nýjum borholum, haldgröfnum lokuðum brunnum og endurgerðum borholum. Niðurstaðan varð nær 380 (auk 120 í framlengingunni til árs). Í drögum að verkefnaskjali er miðað við 680 vatnsveitur, þar af 500 nýjar. Það er talið raunhæft, m.a. vegna þeirrar reynslu sem hefur byggst upp hjá vatnsskrifstofunni undanfarin ár.   Framgangur hreinlætishluta verkefnisins var ekki jafn góður og vatnshlutans. Aðgerðir héldu ekki í við vatnshlutann og það sem gert var, var ekki nægjanlega varanlegt í öllum tilvikum. Í framlengingunni var ákveðið að gera átak í að ljúka að mestu hreinlætisþættinum í TA Chimwala og jafnframt að flytja forræði hans frá vatnsskrifstofunni yfir til heilbrigðisskrifstofunnar, en það er sama fyrirkomulag og á landsvísu.  

Næstu skref í lýðheilsu

Á tímabilinu 2012-2016 var mikið fjárfest í nýbyggingum. Byggð var stór fæðingardeild við héraðssjúkrahúsið, fjórar fæðingardeildir í dreifbýli, ellefu biðskýli fyrir verðandi mæður, tíu heilsuskýli í dreifbýli og tíu starfsmannahús við heilbrigðisstofnanir. Í framlengingunni var bætt um betur, byggðar fjórar fæðingardeildir til viðbótar í dreifbýli og fimm biðskýli.   Á komandi verktímabili verður áfram lögð áhersla á að efla þjónustu við mæður og börn og reynt að tryggja að í þeim heilbrigðisstofnunum sem hafa verið byggðar, verði veitt góð þjónusta. Nú er unnið að því að ráða fagfólk til starfa við fæðingardeildir og heilsuskýli sem reist hafa verið og byggð verða starfsmannahús víða í dreifbýli til að hýsa væntanlegt starfsfólk. Stærsta einstaka framkvæmdin verður að bæta verulega aðstöðu í heilsugæslustöðinni í Makanjira, m.a. með því að reisa skurðstofu. Makanjira er um 100 km frá Mangochibæ við austanvert Malavívatn. Þetta hefði í för með sér að ekki þyrfti að flytja eins marga til héraðssjúkrahússins í Mangochibæ og í dag, en leiðin er stundum ógreiðfær og erfið, einkum á regntímanum. Talið er að í dag þurfi sjúkrabílar að fara þessa leið með sjúklinga að jafnaði tvisvar á dag, en með þessu mætti fækka þeim ferðum verulega.

Gangi allt þetta eftir, ættum við að sjá stórfellda fækkun dauðsfalla mæðra og ungra barna í héraðinu á næstu árum. Þessar áherslur eru eðlilegt framhald af þeirri gríðarlegu uppbyggingu í innviðum sem samstarfið í lýðheilsu hefur gengið út á undanfarin ár.   Bryddað verður upp á ýmsum nýjungum, til að styðja enn frekar við markmiðin. Þannig er fyrirhugað að gera tilraun með að útbýta næringarviðbót fyrir 6-18 mánaða börn í öllum heilsugæslustöðvum og styrkja fræðslu um mikilvægi þess að draga úr fólksfjölgun og kynna aðferðir í því sambandi. Að lokum verður lögð aukin áhersla á að efla vitund og þekkingu fólks úti í dreifbýlinu á grundvallaratriðum í lýðheilsu.  

Nýjar áherslur í menntahlutanum

Stórvægilegustu nýjungarnar og breytingarnar eru fyrirhugaðar í menntahluta verkefnisins, þótt þær byggi vissulega á því sem áður hefur verið gert. Áfram verður unnið í sömu 12 skólum og á árunum 2012-2016. Á því tímabili voru byggðar 52 kennslustofur, 36 kennarahús og 48 kamrar. Því til viðbótar var ýmiss konar þjálfun fyrir kennara og skólastjórnendur, kaup á kennslugögnum og skólaborðum og fleira sem er nauðsynlegt til að skólastarf geti gengið eðlilega fyrir sig.   Þegar verkefnið fór af stað, voru um 20.000 nemendur í þessum 12 skólum. Núna - tæpum fimm árum síðar - eru þeir um 25.000. Það er líklega ekki nema að litlu leyti vegna þess að skólunum haldist betur á nemendum sínum vegna þessara inngripa, heldur fyrst og fremst vegna risastórra nýrra árganga. Á sama tíma og nemendum fjölgaði um fjórðung, fjölgaði kennslustofum um 50%. Það þýðir, að væntanlega njóta fleiri börn þess að kennsla fer fram innandyra en áður, þótt óneitanlega gangi hægt að koma þeim öllum undir þak.  

Áhersla á yngstu börnin

Nú er gengið út frá því, að höfuðáhersla verði lögð á yngstu börnin, fyrsta og annan bekk. Þannig verði byggðar fyrir þau skólastofur, tryggt að hvert og eitt fái í hendur nýja kennslubók í öllum greinum. Reynt verði að tryggja að þau læri að lesa, skrifa og undirstöðuatriði í reikningi á þessum fyrstu árum. Það muni síðan skila sér inn í efri bekkina í framhaldinu. Til að þetta verði hægt, þarf enn að byggja talsverðan fjölda kennslustofa. Í framlengingunni er verið að reisa 18 stofur og ekki ósennilegt að á komandi tímabili verði reistar a.m.k. tvöfalt fleiri til viðbótar. Jafnframt eru í skoðun möguleikar á að fjölga aðstoðarfólki í yngstu bekkjunum og skipta þeim og taka þannig upp tvísetningu eins og þá sem lögð var af á Íslandi fyrir nokkrum árum. Með því fengist betri nýting húsnæðis og starfsfólks. Þetta er þó ekki alveg eins einfalt og gæti virst, þar sem ná þyrfti sátt í samfélögunum um fyrirkomulagið, ekki síst við trúarleiðtoga. Ein nýjung til viðbótar, er að gera tilraun með forskóladeildir við tvo skóla, til að undirbúa börnin og til að bæta þjónustu í samfélögunum.  

Aftur í skóla

Undanfarið hefur verið mikil umræða um ungmennahjónabönd í Malaví. Svo virðist sem það sé að verða vakning um mikilvægi þess að koma í veg fyrir þau, en hjónabönd ungmenna hafa verið mjög algeng og dragbítur á þróun og möguleika margra ungmenna til menntunar. Fyrir því liggja margvíslegar menningarlegar og efnahagslegar ástæður. Í komandi verkefni er gert ráð fyrir því að styðja við viðleitni til að koma í veg fyrir barnahjónabönd. Það verður m.a. gert í gegnum skólana 12 sem unnið er með, en einnig með stuðningi við héraðsyfirvöld, við að upplýsa höfðingja, mæðrahópa og aðra sem geta haft áhrif til góðs. Meðal annars er horft til fyrirmyndar Chief Kachindamoto, sem áður hefur verið sagt frá í Heimsljósi.  

Fleira í deiglunni

Meðal annarra nýmæla í samstarfinu eru aðgerðir til valdeflingar kvenna og ungmenna. Undirbúningur þeirra er skemmra á veg kominn en ofangreint og fer væntanlega fyrst í stað í gang sem greiningarvinna. Gerð verður nánari grein fyrir þessum áhersluþáttum síðar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum