Hoppa yfir valmynd
22.03. 2017

Sendiráðið í Lilongve stýrir íslenskum fjárfestingum í Malaví

AgpistillVonandi rekur einhvern í rogastans við þessa fyrirsögn því það er tilgangurinn með þessum pistli.

Ég hef oft lent í vandræðum með að útskýra starfsemi okkar þ.e. tvíhliða alþjóðlega þróunarsamvinnu íslenskra stjórnvalda  sem rekin er af þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og sendiráðum Íslands í Afríku (hér eftir nefnd ÞSS).  Meirihluti þeirra sem spyrja halda að við, sem vinnum í sendiráðunum, séum að sinna góðgerðarstarfi. Ég vil hinsvegar kalla vinnuna mína "eftirlit með fjárfestingum í Malaví, sem fjármagnaðar eru með íslensku skattfé."

Allt fram á síðasta áratug var mesta áherslan í tvíhliða þróunarsamvinnu á að telja krónurnar sem fóru í verkefnin og afraksturinn, svo sem að telja vatnsbólin sem voru tekin í notkun og telja leshringina sem voru settir upp. Það voru ekki gerðar strangar kröfur á samstarfsaðilana að sýna árangur af þróunarsamstarfinu, en auðvitað var vonast til þess að inngripin breyttu einhverju í lífi haghafanna til hins betra.  Það má segja að þess konar inngrip hafi kallast með réttu þróunaraðstoð eða þróunarhjálp og verið nálægt því að kallast góðgerðarstarf.

Samstarf jafningja

Íslensk þróunarsamvinna hefur smám saman færst frá þróunaraðstoð sem getur haft birtingarmynd sem "yfirlætisleg góðvild" (e. patronizing), yfir í samstarf á jafningja grundvelli. Í landslagi Heimsmarkmiðanna má segja að öll lönd, líka samstarfslönd ÞSS, séu að stuðla að alþjóðlegri þróun, styðja sjálfbærni og draga úr fátækt á staðnum, innanlands, svæðisbundið og á heimsvísu.

Í nútíma tvíhliða þróunarsamvinnu gerir ÞSS miklar kröfur um árangur samstarfsins, að það verði virkilega breyting til batnaðar hjá haghöfunum og því viljum við sjá einskonar "arð" af fjárfestingunum. Auðvitað er Ísland líka að uppfylla pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóð­anna.

Sem dæmi má nefna samstarfsverkefni íslenskra stjórnvalda við Mangochi hérað hér í Malaví (sömu lögmál gilda um samstarfið við Buikwe og Kalangala héruð í Úganda).  Gerður var árangurssamningur til fjögurra ára og samþykkt áætlun/verkefnastoð (e. programme) á sviði heilsu-, mennta- og vatns- og salernismála. Verkefnastoðin byggir á þróunaráætlun Mangochi héraðs. Á þriggja mánaða fresti sendir héraðsstjórnin beiðni um framlag (inn á reikning héraðsins) sem byggist á ofangreindri áætlun. Framlögin geta verið sundurgreind eftir málaflokkum.  Héraðið framkvæmir svo þróunarverkefni sín; s.s. útboð og eftirlit með byggingum fæðingardeilda og skólastofa; útboð og kaup á tækjum og tólum, útboð og eftirlit með borun eftir vatni og gerð vatnsbóla, þjálfun starfsfólks ásamt umsjón og eftirliti.  Héraðsyfirvöld skila skýrslu um framkvæmdir á undangengnu þriggja mánaða tímabili og gera skil á fjárreiðum viðfangsefnanna á hverjum tíma, sem sendiráðið setur sem skilyrði fyrir greiðslu á næsta framlagi. Sendiráðið er svo með eigið eftirlit með fjárreiðum og árangri.  Árangur er t.d. metinn í minnkaðri dánartíðni mæðra og ungbarna í héraðinu, betri árangri grunnskólabarna í skólunum sem við styrkjum, og fækkun kóleru tilfella í sveitarfélögum sem hafa betri aðgang að hreinu drykkjarvatni og bættri salernisaðstöðu. 

Fjárfest í innviðum 

Mangochi er þannig að nýta íslenskt þróunarframlag til að fjárfesta í innviðum á sviði heilsu, menntunar, vatns- og salernismála sem og í uppbyggingu mannauðs meðal héraðsstarfsmanna, og samstarfsaðila þeirra í minni sveitarfélögunum og í samfélögunum. 

Það skiptir auðvitað ekki máli hvort við tölum um þróunarsamvinnu eða fjárfestingar, svo fremi að inntakið komist til skila. ÞSS og sendiráðin vinna við að koma íslensku skattfé til skila á sem skilvirkasta hátt til að bæta lífskjör fátæks fólks í samstarfslöndum okkar. Í dag er talið best að gera árangurssamninga og fylgja þeim strangt eftir. Ísland hefur valið, vegna þess að við erum lítil þjóð, að gera oftast samninga á sveitarstjórnarstiginu frekar en við stjórnvöld almennt þ.e. að vera með fjárlaga- eða geirastuðning.

Umræða um þróunarsamvinnu og/eða opinberar fjárfestingar í þróunarlöndum er ekki mikil.  Þegar ég var að undirbúa mig fyrir þennan pistil rakst ég þó á grein á vefgátt The Guardian um þróunarmál  frá því árið 2015 sem ber heitið "Það á að líta á þróunaraðstoð (e. aid) sem erlenda opinbera fjárfestingu, ekki bara góðgerðarstarfsemi."

Höfundar þeirrar greinar voru m.a. að skoða þróunarlandslagið eins og það er núna, ekki síst þátt BRICS (Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður Afríka) landanna, sem eru umfangsmikil í þróunarlöndunum, en taka ekki þátt í alþjóðasamvinnu um skilvirkni þróunarsamvinnu. Þessi lönd koma á ská inn í þróunarumræðuna - og kollvarpa hefðbundnum "norður-suður" vinkli á þróunarmál. BRICS löndin eiga erfitt með að skilgreina sig sem gjafaríki. Er það hugtak kannski líka orðið úrelt?

Bestu kveðjur frá áhugamanneskju um þróunarumræðu. 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum