Hoppa yfir valmynd
29.03. 2017

Afríka: Þrisvar sinnum fleiri með farsíma en aðgang að salerni

FarsimiÞótt hreint neysluvatn og viðunandi salernisaðstaða séu lykillinn að góðri heilsu og efnahagslegri velferð eru þessir þættir ekki í forgangi stjórnvalda í Afríku til þess að mæta brýnum þörfum milljóna manna.

Þetta segir Mike Muller sérfræðingur í vatnsmálum í viðtali við IPS fréttaveituna þar sem hann segir Afríkuþjóðirnar hafa vilja til þess að reisa innlendar vatnsveitur en hafi á hinn bóginn ekki efnahagslega burði til þess að byggja upp nauðsynlega innviði og koma vatni og salernisaðstöðu til allra íbúa.Þjóðirnar sunnan Sahara í Afríku nota minna en 5% af vatnsauðlindum sínum en uppbygging vatnsbóla og salernisaðstöðu er kostnaðarsöm fyrir flestar þjóðirnar. Í grein IPS segir að World Water Council, alþjóðasamtök um vatn, telji að verja þurfi árlega 650 milljörðum bandarískra dala fram til ársins 2030 til þess að byggja upp nauðsynlega innviði til að tryggja öllum jarðarbúum ómengað neysluvatn.

Könnun Afrobarometer frá því í fyrra sýndi að þrisvar sinnum fleiri Afríkubúar hafa aðgang að farsíma en salerni - og segir sína sögu um áherslurnar í álfunni. Aðeins 30% íbúanna höfðu aðgang að salerni, 63% aðgang að vatnsbóli en 93% aðgang að farsímaþjónustu.

Fram kemur í grein IPS að ríkisstjórnir þurfi að fjárfesta í vatnsverkefnum til að tryggja öllum aðgengi að hreinu neysluvatni en 800 milljónir jarðarbúa búa við þau skertu lífsgæði að þurfa að neyta mengaðs vatns en afleiðingarnar sjást í þeirri óhugnanlega háu tölu að 3,5 milljónir dauðsfalla má rekja árlega til vatnsborinna sjúkdóma.

Á alþjóðlega vatnsdeginum í síðustu viku benti World Water Council á að vatn væri nauðsynlegur þáttur í allri félagslegri og efnahagslegri þróun á því sem næst öllum sviðum, meðal annars væri vatn forsenda matvælaframleiðslu og lykilþáttur í stöðugri orkuframleiðslu. Þá var bent á að engin fjárfesting væri ábatasamari, fyrir hverja krónu sem fjárfest væri í vatni kæmu rúmlega fjórar á móti í minnkandi kostnaði við heilbrigðisþjónustu. 

Nánar 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum