Hoppa yfir valmynd
29.03. 2017

Mæðradauði horfinn?!

MonkeybayMDLíkast til hefur ekki áður með einni mynd verið sýnt betur fram á árangur af íslenskri þróunarsamvinnu. Myndin hér til hliðar birtist á Fésbókinni um helgina og margir deildu henni áfram því tölurnar um lækkun mæðradauða á Monkey Bay svæðinu í Malaví eru einu orði sagt stórkostlegar. Eins og flestir lesenda Heimsljóss vita tóku Íslendingar að sér í byrjun aldar að reisa svæðissjúkrahús við Apaflóa sem afhent var malavískum stjórnvöldum árið 2012. Einn af lokaáföngum verksins var að reisa fæðingardeild en áður hafði m.a. verið opnuð skurðdeild sem sinnti keisaraskurðum fyrir nánast allt héraðið.

Samkvæmt súluritinu á myndinni létust 128 konur af barnsförum áður en fæðingardeildin opnaði, miðað við 100 þúsund fæðingar, en strax næsta ár er þessi tala komin niður í 59. Frá júlí 2014 til 2015 dró áfram úr mæðradauða, þá létust 45 konur, en á síðasta tólf mánaða tímabili, frá júlí 2015 til 2016 lést engin kona!

Samhliða uppbyggingu fæðingardeildarinnar í Monkey Bay og fleiri slíkum deildum við minni heilsugæslustöðvar í Mangochi héraði, sem reistar voru fyrir íslenskt þróunarfé, var reynt að stemma stigu við heimafæðingum þar sem ómenntaðar yfirsetukonur tóku á móti börnum úti í sveitum. Verðandi mæður voru hvattar til að koma á fæðingardeildir sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva - og samkvæmt upplýsingum frá Mangochi voru konur fljótar að átta sig á örygginu sem fylgdi því að fæða á fæðingardeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum