Hoppa yfir valmynd
29.03. 2017

Þörf á vitundarvakningu um þjóðfélagshópa sem lenda utangarðs

SalimÞrátt fyrir að lífskjör hafi almennt batnað síðustu ár hefur sú þróun ekki verið jöfn og einstaklingar, hópar og heil samfélög hafa orðið útundan. Brýn þörf er á vitundarvakningu um hvað veldur jaðarsetningu svo hægt sé að leiðrétta þá kerfisbundnu mismunun sem á sér stað. Skortur á umburðarlyndi í samfélögum og aukin eigna- og valdatengsl ákveðinna hópa koma í veg fyrir bætt lífskjör jaðarsettra hópa. Loftslagsbreytingar, ójöfnuður, farsóttir, fólksflutningar, átök og ofbeldi eru helstu áskoranir samtímans.

Þetta eru helstu niðurstöður þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna, Human Developing Report 2016, en dr. Selim Jahan aðalritstjóri skýrslunnar kynnti hana á fjölmennum fundi í Hannesarholti síðastliðinn föstudag. Þetta er annað árið í röð sem Selim kemur hingað til lands til að kynna þetta metnaðarfulla verk Þróunarstofnunar SÞ, UNDP, sem unnið er af níu manna teymi undir hans stjórn.

Í erindi hans kom fram að undanfarin 25 ár hafa miklar framfarir orðið og lífskjör í heiminum batnað umtalsvert. Meðal annars má nefna að fólk lifir að meðaltali lengur, fleiri börn ganga í skóla, dregið hefur verulega úr barnadauða, fleiri hafa aðgang að grunnþjónustu líkt og heilsugæslu og hreinu vatni, og dregið hefur verulega úr fjölda tilvika HIV, malaríu og berkla. Selim sagði að þrátt fyrir þessar framfarir hafi þróun lífskjara ekki verið jöfn og samfélagshópar, bæði smærri hópar innan samfélaga og heilu samfélögin, hafi orðið útundan.

Jaðarsettir hópar

Skýrslan í ár fjallar einkum um þá þjóðfélagshópa sem af ýmsum ástæðum hafa lent utangarðs, eru skilgreindir sem jaðarsettir hópar, og skýrsluhöfundar segja að mæti sérstökum hindrunum sem komi í veg fyrir bætt lífskjör. Í skýrslunni er lögð áhersla á að til þess að tryggja að þróun nái til allra sé brýn þörf á vitundarvakningu um orsakir jaðarsetningar.
Það sem helst hindrar að jaðarhópar nái jafnrétti er: 1) skortur á umburðarlyndi gagnvart  trú, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyni eða þjóðerni; 2) aukin eigna- og valdatengsl ákveðinna hópa ýtir undir hugmyndir um að lífsgildi tiltekins hóps séu öðrum æðri; 3) veik samningsstaða eða takmarkaðir möguleikar á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á opinberum vettvangi og þar með hafa áhrif á löggjöf og stefnumótun; og 4) þröng skilgreining sjálfsmyndar. Á sama tíma og þörf er á samstilltu átaki og samstarfi virðast sjálfsmyndir þjóða þrengjast. Brexit er nýlegt dæmi um hvernig þjóðernishyggja ryður sér til rúms þar sem  einstaklingar finna til einangrunar í kjölfar alþjóðlegra breytinga.

Skýrsluhöfundar benda ennfremur á að árangur lífskjaraþróunar sé ekki einungis metinn af árangri stjórnvalda í hverju landi fyrir sig heldur einnig af uppbyggingu og vinnu á alþjóðavettvangi. Gallar hnattvæðingar og alþjóðlegra áhrifa megi einkum rekja til þriggja þátta. Í fyrsta lagi hafi afleiðing ójafnrar dreifingar auðs þar sem 1% mannkyns á 46% af auðæfum veraldar ýtt undir velmegun ákveðinna hópa og skilið aðra eftir í fátækt og viðkvæmri stöðu. Í öðru lagi hafi hnattvæðingin skert afkomumöguleika þeirra sem eftir sitja og í þriðja lagi búa þessir hópar oft við langvarandi átök.

Niðurstaða skýrslunnar er þó sú að þróun og bætt lífskjör fyrir alla sé raunhæft markmið en til þess þurfi m.a. að skilgreina og ná til þeirra sem orðið hafa útundan í lífskjaraþróun, nýta þau stefnumið sem þegar eru til staðar, jafna stöðu kynjanna, innleiða Heimsmarkmiðin og aðra alþjóðasamninga og vinna að endurbótum á alþjóðastofnunum og þeim kerfum sem þær vinna eftir.

Human Developing Report - Human Development for 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum