Hoppa yfir valmynd
29.03. 2017

Tíu sjónvarpsþættir um Heimsmarkmiðin og Parísarsamninginn

Heimsmarkmidin1Um eða upp úr næstu áramótum verða sýndir íslenskir fræðsluþættir á RÚV um Heimsmarkmiðin og Parísarsamninginn. Ríkisstjórnin samþykkti á föstudag að veita Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi styrk til framleiðslu þáttanna sem bæði verða gerðir fyrir sjónvarp og samfélagsmiðla og fjalla um þessa metnaðarfullu alþjóðasáttmála, annars vegar Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hins vegar Parísarsamninginn um skuldbindingar í loftslagsmálum til ársins 2030. 

Félag Sameinuðu þjóðanna hefur í samvinnu við Sagafilm ehf. ákveðið að framleiða þættina.

Að sögn Þrastar Freys Gylfasonar formanns stjórnar félagsins verður þróunar- og rannsóknarvinna við þáttaröðina unnin í samstarfi við stjórnvöld, en einnig verður leitað eftir góðu samstarfi við atvinnulífið, við fyrirtæki, einstaklinga, sveitarstjórnir, félög og stofnanir. "Vönduð þróunar- og rannsóknarvinna er mikilvæg til þess að gera þættina bæði trúverðuga og áhugaverða. Við viljum leita til helstu sérfræðinga á ólíkum sviðum, m.a. til greiningar á tækifærum sem í markmiðunum felast út frá hugviti og tækniþróun. Myndræn framsetning þáttanna er mikilvægur þáttur sem við hugum að," segir Þröstur Freyr í samtali við Heimsljós.

Samhliða undirbúningsferlinu verða að sögn Þrastar Freys til gögn sem nýta má í kynningu þáttanna eða afmarkaðri hluta. Góð tengsl séu mikilvæg við stjórnvöld, sveitarfélög og skóla á öllum stigum. "Við Íslendingar líkt og aðrar þjóðir heims þurfum vitundarvakningu til að taka á sameiginlegum viðfangsefnum. Verkefnin verða best leyst í samvinnu stjórnmála, atvinnulífs og samfélagsins alls. Í þessu verkefni felast mikil kynningartækifæri fyrir málefnið með sjónvarpsþáttaröð í RÚV, en allt efni verður jafnframt unnið með notkun á samfélagsmiðlum í huga. Við viljum setja þættina fram á upplýsandi og skemmtilegan hátt svo þeir verði áhorfendum skýrir og skiljanlegir," segir hann. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum