Hoppa yfir valmynd
29.03. 2017

Úganda komið að þolmörkum vegna flóttamannastraumsins

Ríkisstjórn Úganda og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) sendu á dögunum út sameiginlegt ákall til alþjóðasamfélagsins um að bregðast skjótt við og styðja myndarlega við þær þúsundir flóttamanna frá Suður-Súdan sem koma daglega yfir landamærin til Úganda á flótta frá grimmdarverkum og matarskorti.

UgandagsalNú þegar eru í Úganda rúmlega 800 þúsund flóttamenn frá Suður-Súdan. Flestir þeirra, 572 þúsund, hafa komið inn í landið frá því í júlí á síðasta ári þegar átök blossuðu upp að nýju. Með sama áframhaldi verða flóttamennirnir komnir yfir eina milljón um mitt ár. Á fyrstu mánuðum þessa árs hafa 172 þúsund íbúar Suður-Súdan komið yfir til Úganda, að meðaltali 2,800 dag hvern í marsmánuði.

"Úganda heldur áfram að hafa landamærin opin," segir Ruhakana Rugunda forsætisráðherra Úganda í fréttatilkynningu frá Flóttamannastofnun SÞ. "Hins vegar leiðir þessi mikli straumur flóttafólks til gríðarlegs álags á opinbera þjónustu og staðbundna innviði. Við höldum áfram að taka vel á móti nágrönnum okkar sem búa við neyð en við hvetjum alþjóðasamfélagið til að bregðast í skyndi við þessum aðstæðum sem stefna í það að verða óviðráðanlegar."

Að mati Filippo Grandi framkvæmdastjóra UNHCR er komið að þolmörkum. Úganda geti eitt og sér ekki leyst mesta flóttamannavanda Afríku upp á eigin spýtur. "Með áhugaleysi alþjóðasamfélagsins á þjáningu Suður-Súdana er verið að bregðast hluta af bágstaddasta fólkinu í heiminum þegar það þarf sárlega á aðstoð okkar að halda," segir Grandi.
Íslensk stjórnvöld styðja flóttafólk frá Suður-Súdan með framlögum til Flóttamannastofnunar SÞ og beinum framlögum til íslenskra borgarasamtaka sem starfa í flóttamannasamfélögum í norðurhluta Úganda. 

Frétt UNHCRÍsland styrkir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna með þriggja ára samkomulagi um stuðning við flóttamenn

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum