Hoppa yfir valmynd
29.03. 2017

Úttektir á þróunarsamstarfi

Malawivatn45Í takt við hefðbundið verklag í þróunarsamvinnu eru reglulega framkvæmdar úttektir á verkefnum í þróunarsamstarfi Íslands. Þær eru mikilvægar til að meta hvort og hvernig aðstoð skilaði sér til framfara, t.d. í menntun, vatnsöflun, heilbrigðisþjónustu, hreinni orku og bættri nýtingu  fiskafla. Vel unnar úttektir veita einnig mikilvæga leiðsögn um hvernig bæta megi áherslur og framkvæmd í þróunarsamvinnu.

Eftir sameiningu Þróunarsamvinnustofnunar við þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins (ÞSS), hefur verið unnið að því að sameina og samþætta verklag við úttektir, og innan ÞSS starfar teymi sem sérstaklega sinnir úttektum. Úttektamál voru eðlilega eitt af þeim málum sem rýnihópur DAC lagði áherslu á í rýni sinni á íslenskri þróunarsamvinnu og í takt við það hefur nú verið sett saman stefna ÞSS í úttektarmálum.

Segja má að markmið úttekta séu þríþætt: að sýna fram á árangur, að standa skil á framkvæmd verkefna og fjármunum sem í þau er varið gagnvart skattgreiðendum og öðrum hlutaðeigandi, og að draga lærdóm til framtíðar, bæði hvað varðar innleiðingu verkefna en einnig með tilliti til stefnumótunar í málaflokknum. Úttektir eru þannig tæki sem við höfum til að safna gögnum og þekkingu um hvernig við náum sem bestum árangri í starfi okkar. Sú gagnrýni heyrist reyndar nokkuð oft að stofnunum gangi illa að draga lærdóm af úttektum og ráðleggingar þeirra skili sér ekki sem skyldi inn í starf og stefnumótun. Því er það mikilvægt hlutverk úttektateyma að fylgja eftir ráðleggingum og vinna náið með þeim er sjá um framkvæmd og tryggja þannig að þessi vinna skili sér í starfið.
Almenna reglan er sú að úttektir eru framkvæmdar af óháðum utanaðkomandi ráðgjöfum, sem valdir eru til verksins í samkeppnisferli. Slík nálgun skilar okkur óháðum niðurstöðum og njóta þannig trausts allra hlutaðeigandi. Áhersla er lögð á að fá reynda úttektarsérfræðinga til starfa, enda skilar slík áhersla sér í gæðum úttekta og auknum ávinningi og þekkingu sem af þeim hlýst fyrir íslenskt þróunarsamstarf.

Úttekt á skólum Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Á árinu 2017 eru fjölmargar úttektir á dagskrá hjá ÞSS sem spanna ólík svið þróunarsamstarfsins. Fyrst má þar nefna fyrstu óháðu úttektina á skólum Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hér er um að ræða víðtækt úttektarverkefni sem framkvæmt er af sænska ráðgjafafyrirtækinu NIRAS-Indevelop, sem mikla reynslu hefur af úttektum á mennta- og þjálfunarverkefnum í þróunarsamvinnu. Úttektinni er ætlað að skoða þann árangur sem náðst hefur í tengslum við starf skólanna fjögurra, og hvernig menntun sérfræðinga á viðkomandi sviðum hefur skilað sér í framförum og breytingum í viðkomandi málaflokkum í löndunum. Nokkur lönd verða skoðuð sérstaklega og tekin verða ítarleg viðtöl við fyrrum nemendur í Kenía, Úganda, Malaví, Gana, Eþíópíu, Víetnam og El Salvador. Í síðastliðinni viku hélt ráðgjafateymið einnig vinnufund með fulltrúum allra skólanna og starfsfólki UTN um árangursstjórnun í þróunarsamstarfi, en mikilvægur liður í úttektarvinnunni er að þróa sameiginlegan árangursramma fyrir starfsemina til næstu ára. Starf skóla HSÞ á Íslandi er mikilvægur og stór liður í þróunarsamstarfi Íslands, og því er beðið með eftirvæntingu eftir niðurstöðum úttektarinnar.

Aðrar úttektir á árinu

Nú nýlega hófst einnig lokaúttekt á Fiskgæðaverkefni í Úganda, en það verkefni var framkvæmt á árunum 2009-2016 í samstarfi við stjórnvöld í Úganda. Úttektin mun skoða árangur verkefnisins í fiskisamfélögum í Úganda, m.a. með tilliti til þess að hvaða marki verkefnið náði þeim markmiðum að auka gæði og verðmæti afla og bæta lífsgæði íbúa í fiskiþorpum.

Á næstu vikum fer einnig af stað úttekt á árangri við innleiðingu jafnréttisstefnu í þróunarsamvinnu 2013-2016. Jafnréttismál eru áherslumál í þróunarsamvinnu Íslands, bæði sem þverlægt málefni en einnig sem sértækt markmið. Hér er um að ræða fyrstu þverlægu úttektina sem framkvæmd er í tengslum við þróunarsamstarf Íslands, og mun verða skoðað upp að hvaða marki áherslur um jafnrétti kynjanna hafa skilað sér í tvíhliða og marghliða þróunarsamstarfi. Margar erlendar úttektir hafa á síðustu árum leitt í ljós að samþætting jafnréttismála hefur ekki skilað sér sem skyldi í þróunarsamstarfi. Mikilvægur þáttur í þessari úttekt er því einnig að skilgreina leiðir til úrbóta og benda á mögulegar sértækar aðgerðir í  jafnréttismálum innan þess þróunarsamstarfs sem Ísland er aðili að. Við lok úttektarinnar mun ráðgjafinn halda námskeið fyrir starfsfólk ÞSS og samstarfsaðila í þróunarsamvinnu um samþættingu jafnréttismála í þróunarsamvinnu með tilvísun í niðurstöður og ráðleggingar úttektarinnar.

Aðrar úttektir sem einnig er vert að nefna hér eru annars vegar úttekt á samstarfi við borgarasamtök, en þar verður litið til verkefna sem Hjálparstarf kirkjunnar og Rauði Kross Íslands hafa staðið að fyrir íslenskt þróunarfé. Í þeirri úttekt verður sjónum einnig beint að því hvaða virðisauki felst í samstarfi við félagasamtök í þróunarsamstarfi og hvernig megi gera slíkt samstarf enn skilvirkara. Hins vegar er á dagskrá síðar á árinu úttekt á héraðssamstarfi í Malaví 2012-2017 sem og í Kalangala héraði í Úganda frá 2005 til 2016.

Úttektarskýrslur eru birtar á vef þróunarsamvinnuskrifstofu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum