Hoppa yfir valmynd
05.04. 2017

Innleiðing álfabikarsins í Úganda

https://vimeo.com/175365559 Í haust stóð sendiráð Íslands í Kampala fyrir rannsókn á brottfalli nemenda í Buikwe, samstarfshéraði Íslands. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar komu ekki á óvart - nemendur flosnuðu helst úr námi vegna of hárra skólagjalda. Aðrar niðurstöður sem vöktu athygli okkar voru þær að 13% þeirra stúlkna sem tóku þátt sögðust hafa hætt í námi vegna kostnaðar sem fylgir blæðingum. 

Þetta er í takt við sambærilegar rannsóknir, en rannsókn í Rukungiri héraði í vestur Úganda sýndi sömuleiðis tengsl milli fjarveru stúlkna úr skóla og blæðinga þeirra. Rannsóknin sýndi einnig fram á að þær stúlkur sem mættu í skólann á meðan á blæðingum stóð áttu erfitt með einbeitingu vegna stöðugs ótta við að fá blóð í fötin.

Ástæður þessa eru margþættar, en einna helst má nefna mikla fátækt þar sem það er ekki í forgangi að kaupa hreinlætisvörur tengdar blæðingum. Þá eru blæðingar einnig tabú í úgönsku samfélagi sem gerir það að verkum að stúlkur fá takmarkaða fræðslu, bæði heima fyrir og í skóla, sem gerir þeim erfiðara fyrir að biðja um pening fyrir viðeigandi hreinlætisvörum. Þær grípa því til þeirra úrræða að nota meðal annars efnisbúta úr fötum, blaðsíður úr bókum, svampa úr dýnum og laufblöð til að hafa stjórn á blæðingum sínum, en allt getur þetta valdið sýkingum sem oft hafa langvarandi afleiðingar. Þá hefur þetta einnig í för með sér áhrif á andlega og félagslega velferð stúlknanna þar sem þær óttast stöðugt að tíðablóð leki og að þær verði sér til skammar. Þær kjósa því frekar að sitja heima á meðan á blæðingum stendur.

Í kjölfar rannsóknarinnar í Buikwe héraði hóf sendiráð Íslands í Kampala að grafast fyrir um þróunarverkefni sem taka á þessum vanda. Í ljós kom að blæðingar eru málefni sem frjáls félagasamtök og önnur þróunaraðstoð virðast eiga til að halda sig fjarri - sennilega vegna þess hversu erfið þau eru viðfangs í úgöndsku samfélagi. Við komumst þó loks í kynni við dönsku frjálsu félagasamtökin WoMena.

WoMena starfa í Austur-Afríku og hafa það að markmiði að efla kynheilbrigði ungmenna. Samtökin vinna að því að opna umræðuna um blæðingar og veita ungum konum fræðslu um auðvelda og viðeigandi stjórnun blæðinga - en það hafa þau m.a gert með því að kynna konur fyrir álfabikarnum.

Álfabikarinn (e. menstrual cup) er sílíkon-bikar sem safnar tíðablóði. Bikarinn þarf yfirleitt ekki að tæma nema 2-3 á sólarhring og hentar því úgönskum skólastúlkum sem hafa takmarkaðan aðgang að snyrtingum og vatni afar vel. Að jafnaði endist bikarinn í u.þ.b. 10 ár og losar því stúlkurnar við allan kostnað sem fylgir blæðingum á meðan þær stunda nám, auk þess að vera afar umhverfisvænn.     

Samtökin hafa nú þegar úthlutað álfabikurum til stúlkna í nokkrum skólum í Úganda og veitt þeim kennslu í notkun bikarins ásamt fræðslu í kynheilbrigði. Könnun meðal  þátttakenda sýndi almenna ánægju með álfabikarinn. Stúlkurnar sögðust færar um að sinna daglegu amstri - ganga, hjóla, mæta í skóla - samhliða notkun bikarins, rétt eins og þegar þær voru ekki á blæðingum.  Þær fundu til öryggis, frelsis og þeim leið vel, samkvæmt könnuninni. Þá fengu þær stuðning frá vinum og fjölskyldu, en mikilvægt er að bikarinn sé samfélagslega samþykktur svo að stúlkurnar finni til öryggis.

Minnkar brottfall stúlkna úr skóla við að nota álfabikarinn? Enn er of stutt frá innleiðingu bikarins meðal þátttakenda WoMena til að fullyrða slíkt.  Þó var þegar í stað ljóst að mikil ánægja var með bikarinn á meðal stúlknanna og verður því áhugavert að fylgjast með framgangi rannsókna WoMena í úgönskum skólum og mögulega hægt að koma á samstarfi við samstarfsskóla Íslands í Buikwe.
Womena 
 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum