Hoppa yfir valmynd
05.04. 2017

Landluktar þjóðir búa við verri lífskjör en þær sem búa við höf

Dcapril2017Landluktar þjóðir búa við margskonar hindranir í þróun í samanburði við lönd sem liggja að hafi. Í nýju tölublaði þýska þróunartímaritsins, Development & Cooperation (D+C), er ítarlega fjallað í mörgum greinum um samfélög við strendur en þar er líka áhugaverð grein um þær þjóðir sem búa fjarri höfum. Þar kemur meðal annars fram að þriðjungur allra ríkja sem voru neðst á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna árið 2015 séu landlukt.

Lífslíkur íbúa umræddra þjóða voru minnstar, menntun minnst og tekjur lægstar. Þá segir að hagvöxtur landluktra þjóða hafi að jafnaði verið minni en þeirra þjóða sem búa við haf. Vísað er í rannsókn sem leiddi líkur að því að landlukt ríki búi vegna stöðu sinnar fjarri hafi við 1,5% minni hagvöxt en aðrar þjóðir.

Bent er á að landlukt ríki hafi sum hver nýtt tækifæri sín sem miðlægt sett í viðkomandi álfum og Rúanda nefnt sem dæmi um slíkt ríki. Það sé hins vegar í flestum tilvikum dýru verði keypt að hafa ekki aðgang að sjó eða eigin höfn. Viðskipti kalli á hafnir. Þjóðir án hafna greiða hærra flutningsgjald fyrir vörur, hafnir leggja á gjöld og oft bætast síðan vegatollar á varning með tilheyrandi kostnaðarhækkun fyrir neytendur.

Tímafrekur inn- og útflutningur

Í greininni er ennfremur bent á áhyggjur sem tengjast töfum á flutningi varnings til landluktra þjóða, ekki aðeins vegna lélegra innviða heldur líka vegna tollafgreiðslu og skattamála og annars skrifræðis. Vörur eins og grænmeti þoli ekki slíkar tafir. Fram kemur að hjá landluktum þjóðum taki að meðaltali 42 daga að flytja inn vörur og útflutningur taki að jafnaði 37 daga. Meðal þjóða sem búa við haf sé þessi tími helmingi styttri.

Fyrir þjóðir sem reiða sig á aðrar þjóðir við innflutning á vörum er mikilvægt að í síðara landinu ríki pólítískur stöðugleiki og þokkalegir stjórnarhættir. Komi upp óstöðugleiki eða átök þarf að finna nýjar hafnir og nýjar leiðir fyrir varninginn. Slíkt getur verið afar kostnaðarsamt með tilheyrandi vegagerð eða járnbrautarkerfi. Dæmi er tekið af tveimur samstarfslöndum okkar Íslendinga í þessu samhengi, Malaví og Mósambík, en stjórnvöld í Malaví neyddust til þess á tímum borgarastyrjaldarinnar í Mósambík að hætta innflutningi gegnum hafnirnar í Beira og Nacala og fá vörur til landsins gegnum Durban í Suður-Afríku og Dar es Salaam í Tansaníu.

Hár flutningskostnaður endurspeglast í háu vöruverði og þar á meðal háu verði á matvöru og almennt er því dýrara að lifa í landluktum löndum en þeim sem eru við haf. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum