Hoppa yfir valmynd
05.04. 2017

Langvarandi vannæring hefur áhrif á bæði andlegan og líkamlegan þroska

Katwe5Samkvæmt nýjum rannsóknum á þroska ungbarna eru um 250 milljónir barna undir fimm ára aldri, börn í lág- og meðaltekjuríkjum, með vaxtarhömlun (kyrking) vegna vannæringar sem hefur varanleg áhrif á bæði andlegan og líkamlegan þroska. 

Í Heimsmarkmiðunum eru skýr áform um að kveða niður vannæringu í hvaða mynd sem er, þar á meðal "verði árið 2025 búið að ná alþjóðlegum markmiðum um að stöðva kyrking í vexti og uppdráttarsýki barna undir 5 ára aldri, og hugað verði að næringarþörfum unglingsstúlkna, þungaðra kvenna, kvenna með börn á brjósti og aldraðra," eins og segir orðrétt í öðru undirmarkmiði Heimsmarkmiðs nr. 2 - Ekkert hungur.

"Efnahagslegt tjón samfélaga af vaxtarhömlun getur verið mjög mikið," segir Asli Demirguc-Kunt forstöðumaður rannsókna hjá Alþjóðabankanum og bendir á að vaxtarhömlun hafi áhrif á þroska heilans, skerði andlega og félagslega færni og tilfinningaþroska og leiði til þess að börn nái minni árangri í námi sem síðan hefur áhrif á tekjur á fullorðinsárum.

Mikilvægast að ná til barna á viðkvæmasta þroskaskeiðinu

Emanuela Galasso hagfræðingur Alþjóðabankans og annar skýrsluhöfunda, bendir á mikilvægi þess að ná til barna á viðkvæmasta þroskaskeiðinu, fyrstu tveimur árum ævinnar, því náist ekki til barna á því tímabili sé skaðinn varanlegur. Hún segir að efnahagslega tjónið réttlæti frekara fjármagn til úrbóta á þessu sviði, ekki aðeins vannæringuna eina og sér, heldur þurfi líka að vernda börn gegn sýkingum og eiturefnum og skapa þeim örvandi uppvaxtarskilyrði.

Í skýrslunni eru tillögur um úrbætur miðaðar við fyrstu þúsund daga lífsins  og þær ná til 34 þjóðríkja. Mat skýrsluhöfunda á árangri af úrræðunum fela þó einungis í sér að unnt verði að fækka börnum með vaxtarhömlun um 20% fyrir árið 2025.

Policy Research Note No.5: The Economic Costs of Stunting and How to Reduce Them/ Alþjóðabankinn 

Well-Designed Early Childhood Development Programs Can Pay Big Dividends/ Alþjóðabankinn

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum