Hoppa yfir valmynd
05.04. 2017

Orkumálin á eftir áætlun í öllum meginþáttum, segir í skýrslu SÞ

Gtf-2Miðað við Heimsmarkmiðin í orkumálum eru framfarirnar á því sviði enn of litlar til þess að markmiðin muni nást fyrir árið 2030. Í nýrri úttekt Alþjóðabankans - Global Tracking Framework (GTF) - segir að þrjú meginmarkmiðin um aðgang að rafmagni, endurnýjanlega orkugjafa og skilvirkni séu öll á eftir áætlun.

Í skýrslunni segir að nýir rafmagnsnotendur séu færri en áætlanir gera ráð fyrir. Að óbreyttu geri spár því aðeins ráð fyrir að 92% jarðarbúa hafi aðgang að rafmagni árið 2030. Heimsmarkmiðin mæla hins vegar fyrir um að tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði fyrir þann tíma.

Þótt úttekt Alþjóðabankans leiði í ljós að flestar þjóðir séu á eftir áætlun í orkumálum er bent á að nokkrar þjóðir sýni framfarir til fyrirmyndar: Afganistan, Kenía, Malaví, Súdan, Úganda, Sambía og Rúanda. "Þessar þjóðir sýna að unnt er að hraða framförum í átt að aðgengi fyrir alla með réttri stefnumörkun, öflugri fjárfestingu opinberra aðila og einkageirans, og nýjungum í tækni," segir í skýrslunni.

"Ef við eigum að tryggja aðgang að hreinni, öruggri orku á viðráðanlegu verði þarf pólitíska forystu til að stýra aðgerðum," segir Rachel Kyte sérlegur erindreki framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um endurnýjanlega orku. "Þessi nýju gögn eru viðvörun fyrir leiðtoga heimsins til að grípa til markvissari aðgerða nú þegar um aðgang að orku og ómengandi eldstæði sem hefðu í för með sér aukna skilvirkni og nýtingu á endurnýjanlegri orku sem er takmarkið. Okkur miðar áfram en of hægt - tæknin er fyrir hendi og markmiðin skýr í mörgum tilvikum - en við skuldbundum okkur til að grípa til aðgerða. Og með hverjum deginum sem líður verður þessi vegferð bæði sársaukafyllri og kostnaðarsamari," segir hún.

More Action Needed to Meet Energy Goals by 2030, New Report Finds/ Alþjóðabankinn


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum